Tuesday, April 23, 2024
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC 177

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 177

TJ Dillashaw Joe SotoÁ laugardaginn fór fram UFC 177. Á blaði var bardagakvöldið ekki það sterkasta sem UFC hefur sent frá sér en kvöldið skilaði góðum MMA bardögum.

TJ Dillashaw gerði það sem hann átti að gera og sigraði Joe Soto. Soto stóð sig vel þó hann hafi ekki unnið eina lotu og endaði með því að vera rotaður. Dillashaw sýndi aftur fram á góða fótavinnu og skemmtilega blöndu af spörkum og höggum. Soto tókst ekki að fella hann en átti þó nokkur góð högg í fyrstu lotunum. Dillashaw er að verða betri og betri. Að fá ekki að sjá Barao og Dillashaw berjast eyðilagði í raun bardagakvöldið. Í þeim bardaga eru margar spurningar sem á eftir að svara. Er Barao vaknaður aftur til lífsins og mun hann fara í gegnum andstæðinga eins og Anderson Silva gerði á sínum fyrri árum eða er Dillashaw of góður fyrir hann? Er þetta bara slæmur andstæðingur fyrir Barao og mun hann verða eins og Urijah Faber, alltaf næst bestur? Þessum spurningum verður líklegast ekki svarað því til að byrja með þarf Barao að kaupa sér betri næringarfræðing og taka betur á niðurskurðinum. Það var líka leiðinlegt að sjá Barao í viðtali við Joe Rogan á laugardagskvöldið þar sem hann virtist ekki átta sig á alvarleika málsins. Barao féll í yfirlið við niðurskurðinn og skall með hausinn í baðkarið. Eina sem hann man er að hann vaknaði á spítalanum. Barao taldi þetta vera bara slys og óheppni og virtist ekki ætla að breyta venjum sínum.

diego ferreira ramsey nijem
Ramsey Nijem étur hægri krók frá Diego Ferreira.

Ekki að við tökum eitthvað frá Diego Ferreira en Ramsey Nijem leit út eins og nýliði. Ferreira er mjög góður á gólfinu og er að bæta sig töluvert standandi. Hann er ósigraður í ellefu bardögum og tveir af þeim hafa komið í UFC. Ferreira sigraði Colton Smith, sem er harður strákur, en á laugardaginn sigraði hann Ramsey Nijem sem leit út fyrir að eiga ekkert í Ferreira. Nijem var mjög slakur í gólfinu, lélegur að taka bardagann í gólfið og standandi var hann hrikalegur. Þegar rothöggið á sér stað í annarri lotu er hann í raun að hlaupa áfram með hendurnar niður og kastandi einhverjum höggum fram. Hrikaleg tækni.

Þrátt fyrir að fáar stjörnur hafi verið á bardagakvöldinu voru bardagarnir góðir. Flestir voru ekki mjög spenntir yfir kvöldinu og þá sérstaklega þegar Renan Barao og Henry Cejudo gátu ekki tekið þátt. Joe Soto kom inn fyrir Barao sem gerði ekki mikið fyrir aðdáendur því margir vissu ekki hver hann var. Fjórir af fimm aðalbardögum kvöldsins enduðu með annað hvort rothöggi eða uppgjafartaki og það verður að teljast ansi gott.

Bardagakvöldið leit hrikalega út á blaði en þegar feita konan söng þá var kvöldið gott. Flestir bardagana gerðu kannski ekki mikið fyrir topp baráttu í öllum þyngdarflokkum. Kvöldið var þó í heild sinni skemmtilegt. Spurningin er þó hvort UFC geti haldið áfram að vera með heil bardagakvöld sem eru ekkert sérstök og hvað þá þegar þú þarft að borga 50 dollara eða vera með áskrift af sjónvarpstöð til þess að horfa á þau. Heppnin var með UFC og úr varð gott kvöld. Þegar kemur að stærstu MMA keðju í heiminum vill áhorfandinn fá góða bardaga með nöfnum sem hann þekkir sérstaklega ef hann á að borga fyrir það.

Brynjar Hafsteinsson
Brynjar Hafsteinsson
-Greinarhöfundur -Félagsfræðinemi HÍ -MMA-spekingur frá 1999 -Sparkboxari
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular