Thursday, April 25, 2024
HomeForsíðaÁ Alexander Gustafsson að bíða eftir titilbardaga?

Á Alexander Gustafsson að bíða eftir titilbardaga?

UFC 165: Jones v GustafssonEins og flestum MMA áhugamönnum ætti að vera kunnugt berst Jon Jones gegn Daniel Cormier þann 3. janúar. Nú var upprunalega bardaga Jones og Cormier frestað og gæti Alexander Gustafsson þurft að bíða fram á mitt ár 2015 eftir titilbardaga – en ætti hann að gera það?

Upphaflega átti Alexander Gustafsson að fá titilbardaga gegn Jon Jones í september en Svíinn þurfti að draga sig frá keppni vegna meiðsla. Daniel Cormier fékk því hans stað og slógust þeir Jones og Cormier á blaðamannafundi eins og frægt er orðið. Eftir að meistarinn sjálfur, Jon Jones, meiddist þurfti að færa bardagann til 3. janúar. Alexander Gustafsson væri búinn að jafna sig á þeim meiðslum í janúar, en áhuginn á bardaga Jones og Cormier er gríðarlegur og því mun UFC halda sig við þann bardaga – nokkuð sem Gustafsson var mjög ósáttur með.

Alexander Gustafsson er sá sem næst hefur komist því að sigra meistarann Jon Jones, en bardaginn þeirra í september 2013 var frábær. Gustafsson fékk ekki umsvifalaust annan titilbardaga og fékk fyrst bardaga gegn Jimi Manuwa í mars. Eftir sannfærandi sigur þar var honum lofaður annar titilbardagi.

Skyldi Jon Jones sigra Daniel Cormier í janúar má búast við því að Jones verði ekki tilbúinn í annan titilbardaga fyrr en sumarið 2015. Kjósi Alexander Gustafsson að bíða eftir sigurvegaranum gæti hann verið burtu frá búrinu í 14-15 mánuði – jafnvel lengur ef ske kynni að Cormier sigri Jones og UFC vilji láta þá mætast aftur. Gustafsson gæti því verið burtu frá búrinu frá mars 2014 til júní 2015 (gróflega áætlað). Slík bið væri leiðinleg fyrir aðdáendur, enda er Gustafsson frábær bardagamaður á toppi ferils síns.

Anthony Johnson hefur beðið um bardaga gegn Gustafsson og yrði sá bardagi virkilega spennandi. Gustafsson virtist þó ekki vera par hrifinn af þeirri hugmynd. Hann telur að sigur gegn Johnson geri lítið fyrir sig þar sem hann telur sig eiga inni titilbardaga. Gustafsson lét hafa eftir sér að Johnson hafi ekki gert nóg til að verðskulda slíkan bardaga eftir sigur á Lil Nog og Phil Davis. Gustafsson má þó ekki gleyma því að stærstu nöfnin sem hann sjálfur hefur sigrað eru Shogun Rua (þá kominn til ára sinna), Thiago Silva og Jimmy Manuwa.

Gæti ekki verið betra fyrir Gustafsson að taka einn bardaga gegn Johnson á meðan hann bíður eftir sigurvegaranum milli Jones og Cormier? Ef Gustafsson er sá besti í heimi eins og hann telur sig vera, þá ætti bardagi gegn Johnson að vera flottur sigur fyrir hann og gott nafn á bardagaskorið.

Hvað segið þið, lesendur – ætti Gustafsson að bíða eftir sigurvegaranum á milli Jones og Cormier eða taka bardaga gegn Anthony Johnson?

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

  1. Gústafsson á að taka slagin við Johnson það gerir honum gott heldur haus og skrokk í skerp. Hinsvegar er með ólikindum að græðgin ráði ríkjum ,en ekki það að þeir bestu fái að berjast gegn hvorum öðrum í janúar er Jones klár

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular