Tuesday, April 23, 2024
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 5 bardagamenn sem snéru við blaðinu

Föstudagstopplistinn: 5 bardagamenn sem snéru við blaðinu

Í föstudagstopplista dagsins lítum við á fimm bardagamenn sem snéru við blaðinu og náðu að endurvekja feril sinn eftir slæmt gengi. Þetta eru bardagamenn sem voru t.d. reknir frá UFC eða á langri taphrynu en hafa á einhvern hátt náð að snúa genginu við.

Chael Sonnen

5. Chael Sonnen

Chael Sonnen var ósköp venjulegur bardagamaður. Sterkur glímumaður með ágætis reynslu og fátt sem benti til þess að hann ætti nokkurn tíman eftir að berjast um titil. Hann var hinn dæmigerði journeyman eins og slíkir bardagamenn eru oft nefndir. Það var ekki fyrr en hann byrjaði að rífa kjaft í fjölmiðlum að fólk fór að taka eftir honum. Hann byrjaði að þróa ákveðinn persónuleika í fjölmiðlum sem minnti oft á WWE eða aðra fjölbragðaglímu. Slíkt tal skilaði honum miklu umtali og á endanum titilbardaga gegn Anderson Silva. Sonnen var aðeins nokkrum mínútum frá því að sigra Silva þangað til hann gafst upp eftir triangle hengingu. Síðan þá hefur hann verið eitt stærsta nafn UFC og fékk marga stóra bardaga auk þess að vera þjálfari í 18. seríu The Ultimate Fighter. Hann hefur nú lagt hanskana á hilluna eftir að hafa fallið á lyfjaprófi með skömm. Hann gæti nú þurft að snúa blaðinu aftur við og endurheimta mannorð sitt.

Þessi maður keppti í veltivigt.
Þessi maður keppti í veltivigt.

4. Anthony Johnson

Johnson var með allt niðrum sig þegar hann var rekinn úr UFC en hefur nú heldur betur snúið við blaðinu. Það er alltaf jafn ótrúlegt að hugsa til þess að Anthony Johnson hafi keppt í veltivigt (77 kg) enda keppir hann í léttþungavigt (92 kg) í dag. Eftir að hafa mistekist að ná vigt í þrígang fékk UFC nóg og var hann rekinn með skömm frá bardagasamtökunum. Kornið sem fyllti mælinn var þegar hann kom 12 pundum yfir millivigtartakmarkinu áður en hann mætti Vitor Belfort en eftir það tap var hann rekinn. Utan UFC sigraði hann sex bardaga og var loksins að berjast í sínum eðlilega þyngdarflokki, léttþungavigt (hann tók meira að segja einn bardaga í þungavigt). Hann fékk annað tækifæri í UFC nú á þessu ári og hefur sigrað báða bardaga sína í léttþungavigt afar sannfærandi og er kominn á topp 5 í léttþungavigtinni.

matt brown 2 gif

3. Matt Brown

Matt Brown hefur átt skrautlega ævi. Þessi fyrrum heróínfíkill var miðlungs bardagamaður í UFC og var fátt sem benti til að hann yrði ofarlega í veltivigtinni. Eftir þrjú töp í röð í veltivigt UFC var Brown á barmi þess að vera rekinn frá UFC en sigur á John Howard bjargaði starfi hans í bili. Í hans næsta bardaga tapaði hann gegn Seth Baczynski og var á þeim tímapunkti 1-4 í síðustu fimm bardögum. Margir bardagamenn hefðu verið reknir en skemmtilegur stíll Brown hefur sennilega bjargað honum þarna. Brown komst á einhverja ótrúlega sex bardaga sigurgöngu og var einum bardaga frá titilbardaga – nokkuð sem enginn hefði getað spáð fyrir um árið 2010. Tap gegn Robbie Lawler fyrr í sumar var hans fyrsta í þrjú ár en hann er í dag í fimmta sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni.

mark hunt
Fyrsti sigur Mark Hunt síðan 2006 var glæsilegur.

2. Mark Hunt

Saga Mark Hunt er ótrúleg. Eftir að hafa gert það gott í sparkboxi þar sem hann barðist við mörg stór nöfn snéri hann sér að MMA. Í fyrstu barðist hann í Pride þar sem hann sigraði þekkt nöfn á borð við Wanderlei Silva og Cro Cop. Þegar Zuffa (eigendur UFC) keyptu Pride á sínum tíma keyptu þeir um leið samninga bardagamannanna sem þar voru. Zuffa skulduðu Mark Hunt nokkra bardaga samkvæmt gamla samningi Hunt í Pride og voru tilbúin til að borga samninginn upp. Mark Hunt var ekki á sama máli – hann vildi fá að berjast þessa bardaga í UFC sem hann átti inni. Þrátt fyrir að vera á fimm bardaga taphrynu fékk hann bardaga gegn Sean McCorkle. Ekki byrjaði það vel þar sem hann tapaði fyrsta UFC bardaganum en öllum að óvörum sigraði hann næstu fjóra bardaga! Í dag er hann í 8. sæti á styrkleikalista UFC í þungavigtinni og hefur heldur betur snúið við blaðinu eftir að hafa tapað sex bardögum í röð.

lawler

1. Robbie Lawler

Robbie Lawler barðist um veltivigtartitil UFC í mars á þessu ári. Ef einhver segist hafa spáð fyrir því að Lawler myndi berjast um titil í UFC árið 2014 er sá hinn sami að ljúga. Robbie Lawler byrjaði ferilinn vel í UFC en fjaraði fljótt út. Hann barðist í hinum ýmsu bardagasamtökum án þess að vekja mikla athygli. Hann var alltaf skemmtilegur bardagamaður en náði aldrei langri sigurhrynu sem ætti að gefa til kynna að hann væri einn af þeim bestu í heiminum – þangað til hann snéri aftur í UFC. Síðan hann kom aftur í UFC hefur hann sigrað fimm bardaga og tapað aðeins einum (titilbardagi gegn Johny Hendricks) og er í dag einn vinsælasti bardagamaðurinn í UFC. Hans ódrepandi stríðsandi og ótrúlegi höggþungi gerir hann að einum skemmtilegasta bardagamanni heims um þessar mundir. Hann hefur farið frá því að vera miðlungs bardagamaður í Strikeforce yfir í að vera einn sá besti í heimi.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular