spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 199

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 199

michael bispingUFC 199 var besta bardagakvöld ársins. Bardagakvöldið hafði allt. Óvænt úrslit, rosalega bardaga, endurkomur og viðburðaríkan blaðamannafund. Kíkjum á Mánudagshugleiðingarnar.

Það er ennþá ótrúlegt að skrifa þetta en Michael Bisping er millivigtarmeistari UFC. Það á eftir að taka nokkra mánuði að átta sig á þessu. Bisping tókst hið ótrúlega og rotaði Luke Rockhold í 1. lotu. Ótrúlegur sigur fyrir þennan 37 ára Breta en Evrópa á núna þrjá UFC meistara – Joanna Jedrzejczyk, Conor McGregor og Bisping.

Þetta óvænta tap má kannski skrifa á smá kæruleysi og værukærð hjá Rockhold. Það var smá eins og hann hugsaði með sér „oh, þarf ég að buffa þennan gæja aftur.“ Hann sigraði Bisping fyrir u.þ.b. 18 mánuðum síðan og hélt þetta yrði kannski jafn auðvelt og síðast. Hann var að prófa nýja hluti og sá hann strax eftir því. Rockhold mun þó án efa koma sterkur til baka og ætti það ekki að koma á óvart ef hann nær beltinu aftur.

Þá verður að taka með reikninginn að Rockhold sleit liðband í hné (MCL) einhverjum vikum fyrir bardagann og er tiltölulega ný byrjaður að geta sparkað aftur. Ef Rockhold var með slitið liðband í hné, hvernig voru æfingarnar hans fyrir bardagann? Gat hann æft almennilega fyrir bardagann? Þetta er svo sem bara ein lítil breyta af mörgum í þessum bardaga.

Luke Rockhold var afskaplega tapsár á blaðamannafundinum eftir bardagann. Hann kallaði Bisping illum nöfnum og gat ekki sæst við hann eftir að fundinum lauk og þurfti að skilja þá í sundur. Bisping lét líka nokkur ókvæð orð falla skömmu eftir rothöggið á meðan verið var að hlúa að Rockhold. Það fannst Rockhold illa gert af Bisping.

Bisping var þó nokkuð sama og brosti út að eyrum á blaðamannafundinum með öl við hönd eins og ekta Breti. Bisping nuddaði salti í sárin á fundinum og virðist Conor McGregor vera Mr. Humble McKindness eftir bardaga samanborið við meistarann Bisping. Michael Bisping er UFC meistari..venst seint.

Svo er spurning hver ætli verði næsta áskorun fyrir Bisping? Verður það Chris Weidman sem fannst ekki leiðinlegt að sjá hinn hrokafulla (að eigin sögn) Rockhold tapa? Verður það Ronaldo ‘Jacare’ Souza sem hefur unnið sex af síðustu sjö bardögum sínum í UFC? Eða mun Rockhold kannski fá annað tækifæri á beltinu eftir þetta óvænta tap? Hver svo sem andstæðingurinn verður mun Michael Bisping lofa rothöggi og mun hann svo sannarlega hafa efni á því núna.

Mynd: Hans Gutknecht/Los Angeles Daily News
Mynd: Hans Gutknecht

Dominick Cruz átti líklega eina af sínu bestu frammistöðum á ferlinum þegar hann sigraði Urijah Faber eftir einróma dómaraákvörðun. Sigurinn var í raun aldrei í hættu og þarf mikið að breytast til að þeir Cruz og Faber mætist aftur.

Bantamvigtin er iðandi af lífi núna eftir nokkur mögur ár. T.J. Dillashaw mætir Raphael Assuncao á UFC 200 og mun sigurvegarinn úr viðureigninni eflaust fá næsta titilbardaga. Cody Garbrandt minnti á sig nýlega en þyrfti að minnsta kosti einn stóran sigur í viðbót til að komast að Cruz.

Dagar Urijah Faber í titilbardögum eru sennilega liðnir. Þetta var fjórði titilbardaginn hans í UFC og aldrei hefur hann sigrað. Kannski var þetta síðasti bardaginn hans á löngum MMA ferli en eitthvað segir okkur að hann sé ekki alveg búinn.

Og talandi um menn sem gætu hætt – Dan Henderson kom enn einu sinni með ótrúlegan sigur. Alltaf þegar maður heldur hann sé alveg búinn nær hann naumlega að halda sér á lífi með ótrúlegum sigri. Hinn 45 ára Dan Henderson rotaði Hector Lombard í 2. lotu eftir að hafa verið nánast rotaður í 1. lotu og er hann elsti bardagamaðurinn í UFC til að sigra eftir rothögg – met sem hann átti fyrir helgina. Þetta gefur honum smá líflínu en það verður athyglisvert að sjá hvað hann gerir í framhaldinu. Þetta var síðasti bardaginn hans á núverandi samningi við UFC. Henderson er löngu orðinn goðsögn og gæti auðveldlega hætt núna, en spurningin er hvort hann muni gera það.

Max Holloway nældi sér í sinn 9. sigur í röð í UFC en aldrei áður hefur bardagamaður unnið jafn marga bardaga í röð án þess að fá titilbardaga. Svo gæti reyndar verið að þetta sé ekki nóg til að fá titilbardaga enda fjaðurvigtin á skrítnum stað með Conor McGregor sem ríkjandi meistara án þess að vera að verja beltið sitt.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram laugardaginn 18. júní í Kanada en þá mætast þeir Rory MacDonald og Stephen Thompson í frábærum aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular