UFC 204 fór fram með látum um helgina í Manchester. Aðeins tveir af 11 bardögum kvöldsins fóru í dómaraákvörðun en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir bardagakvöldið.
Michael Bisping tókst að verja beltið sitt með herkjum. Tvisvar sinnum var hann kýldur niður eftir bombu frá Dan Henderson en sýndi mikið hjarta með því að lifa af og harka þetta af sér. Þetta var 20. sigur hans í UFC en enginn hefur unnið fleiri bardaga en hann í sögu UFC.
Það eru ekki allir sammála dómaraákvörðuninni en Bisping tók þetta eftir einróma dómaraákvörðun (48-47, 48-47 og 49-46). Að margra mati hefði 1. lotan átt að vera dæmd 10-8 Henderson í vil en var þess í stað bara 10-9 þrátt fyrir að Henderson hafi verið nálægt því að klára Bisping. Henderson tók 2. lotuna hjá tveimur af þremur dómurum kvöldsins en Bisping tók síðustu þrjár loturnar hjá öllum dómurunum. Hefðu tveir af þessum dómurum dæmt 1. lotuna 10-8 (í stað 10-9) hefði bardaginn endað í jafntefli, 47-47.
Here’s the Michael Bisping vs. Dan Henderson scorecard for those curious#UFC204 pic.twitter.com/SSPoD6Kg8m
— Damon Martin (@DamonMartin) October 9, 2016
Það má færa rök fyrir því að 1. lotan hefði átt að vera 10-8. Henderson gerði mun meiri skaða í þessari lotu heldur en Bisping gerði allan bardagann. Allar loturnar voru 10-9 og er erfitt að bera saman 1. lotuna (þar sem Bisping var nánast rotaður) við t.d. 4. lotuna (þar sem Henderson var ekki nálægt því að vera rotaður) og segja að báðar ættu að vera dæmdar 10-9. Það er klár munur á skaðanum sem báðir gerðu í lotunum og kannski ættu loturnar ekki að vera dæmdar eins.
Dan Henderson var svo nálægt því að ljúka ferlinum á fullkominn hátt. Hann hefur nú lagt hanskana á hilluna eftir 19 ár í MMA og eigum við eftir að gera upp ferilinn hans á næstu dögum. Henderson væri kannski millivigtarmeistarinn ef þetta högg hefði hitt í 1. lotu?
This missed follow up shot after the first knockdown… Hendo punched the ground so hard, I heard it thru the crowd. pic.twitter.com/PBgXO4RlqN
— esther lin (@allelbows) October 9, 2016
Vonandi haldast hanskarnir á hillunni en einhvern veginn kæmi það manni ekkert á óvart ef Henderson myndi freistast til að samþykkja gylliboð Bellator og berjast einu sinni enn.
Þess má til gamans geta að þetta var síðasta „höggið“ frá Dan Henderson á ferlinum.
Það er hægt að segja margt um Bisping og þennan bardaga. Hann er hrokafullur, með stæla, óþolandi, Henderson átti þennan bardaga ekki skilið, hann er ekki alvöru meistari og svo mætti lengi telja. En hann sýndi það þó enn og aftur á laugardaginn að hann er alvöru nagli og stríðsmaður. Það þarf ansi mikið til að vinna Bisping og sérstaklega í Bretlandi þar sem hann er taplaus. Hinn 37 ára Bisping lifði af erfiða tíma í bardaganum en komst í gegnum það og fór heim með beltið.
Nú hefur Bisping varið titilinn sinn og er þyngdarflokkurinn á ákveðnum tímamótum. Það er mikið um spennandi bardaga í millivigtinni í nóvember og þarf Bisping ekki að bíða lengi eftir verðugum andstæðingi. Jacare Souza mætir Luke Rockhold í Ástralíu og Yoel Romero mætir Chris Weidman í New York. Annar hvor sigurvegaranna mætir Bisping og eru ekki margir á því að Bisping muni halda beltinu mikið lengur – sama hver andstæðingurinn verður.
Þá má heldur ekki gleyma Gegard Mousasi sem leit mjög vel út gegn Vitor Belfort og hefur blandað sér í umræðuna. Hann vill fá Anderson Silva næst en bardagi gegn einum af ofangreindum andstæðingum sem fær ekki titilbardagann væri meira spennandi. Kannski er Mousasi loksins að sýna það sem margir bjuggust við af honum á sínum tíma?
Jimi Manuwa átti rétt eins og Mousasi mjög góða frammistöðu. Þetta var hans besta frammistaða á ferlinum og rotaði hann Ovince St. Preux í 2. lotu. Manuwa er núna 36 ára gamall og væri gaman að sjá hann halda áfram á sömu braut. Loksins náði hann að sýna það sem býr í honum.
Stefan Struve leit út fyrir vera að ráðast á minni máttar þegar hann sigraði Daniel Omielanczuk. Struve er 31 cm hærri en Omielanczuk og var það hálf fyndið að sjá þá á saman í búrinu. Struve gerði það sem búist var við af honum og hefur nú sigrað tvo bardaga í röð eftir erfitt tímabil.
Mirsad Bektic er enn ósigraður eftir sannfærandi sigur á Russell Doane. Bektic kláraði Doane í 2. lotu, er 4-0 í UFC, 25 ára og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Framtíðarmeistari?
Núna fer UFC í smá pásu út október. Næsta UFC kvöld fer fram þann 5. nóvember þegar úrslitakvöld TUF Latin America 3 fer fram.