spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 211

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 211

Mynd: Jerome Miron-USA TODAY Sports

UFC 211 fór fram um helgina þar sem tveir titilbardagar fóru fram. Báðir meistararnir héldu beltunum sínum en hér eru Mánudagshugleiðingarnar.

Stipe Miocic sigraði Junior dos Santos með tæknilegu rothöggi í 1. lotu í aðalbardaga kvöldsins. Þar með er hann einn af fimm þungavigtarmeisturum UFC sem varið hefur beltið tvisvar. Með einum sigri í viðbót getur hann orðið sá meistari með flestar titilvarnir í sögu þungavigtarinnar í UFC. Það þarf ekki meira en það en á móti kemur að í þungavigtinni þarf ekki meira en eitt högg.

Það verður áhugavert að sjá gegn hverjum sú titilvörn verður en enginn augljós kostur er í boði. Cain Velasquez er endalaust meiddur og verður ekki tilbúinn fyrr en í fyrsta lagi í haust. Hann gæti fengið titilbardaga en það er erfitt að treysta á hann. Fabricio Werdum gæti fengið titilbardagann ef hann vinnur Alistair Overeem á UFC 213 í sumar og þá gæti Francis Ngannou óvænt fengið titilbardagann en hann þyrfti sennilega einn sigur í viðbót fyrst.

Hver ætlar að stoppa þá pólsku?

Joanna Jedrzejczyk sýndi enn og aftur hvers vegna hún er besta bardagakona heims í dag. Eftir nokkrar rispur í 1. lotu náði Jessica Andrade ekki að ógna meistaranum mikið. Hún hélt hins vegar endalaust áfram að pressa og sýndi mikla hörku. Eftir þennan sigur Jedrzejczyk mætti halda að sú pólska geti haldið beltinu í ansi langan tíma. Strávigtin er mjög skemmtileg en það er engin í augsýn sem gæti valdið henni vandræðum núna.

Rose Namajunas er sennilega næst fyrir Jedrzejczyk og þó hún sé frábær bardagakona er hún sennilega ekki með tólin til að vinna Jedrzejczyk. Namajunas er með fínt sparkbox en ekki nóg til að valda meistaranum vandræðum. Hún er mjög góð í gólfinu en felluvörn Jedrzejczyk er afar góð og er hún eldsnögg að koma sér aftur á lappir ef hún er tekin niður. Er Jedrzejczyk ekki bara að fara að halda þessu belti eins lengi og hún vill?

Elsku Demian Maia

Demian Maia virðist hafa tryggt sér titilbardagann, loksins. Dana White sagði eftir sigur Maia á Masvidal að þetta væri komið hjá honum og fær hann næsta titilbardaga í veltivigtinni. Dana White á það þó til að skipta um skoðun og hefur hann áður svikið svona loforð um titilbardaga á blaðamannafundum beint eftir bardaga.

Við gætum líka séð Tyron Woodley reyna að suða um bardaga gegn Georges St. Pierre eða Nick Diaz fyrst en allir vilja sjá Maia í titilbardaga. Fáir eiga þetta þó jafn mikið skilið og Demian Maia. Sjö sigrar í röð, sex af þeim gegn mönnum á topp 15 listanum og hefur hann notið mikilla yfirburða í þessum bardögum. Bardaginn gegn Woodley verður áhugaverður og erfiður enda Woodley með frábæra felluvörn.

Jorge Masvidal barðist mjög vel þrátt fyrir tapið. Í 2. lotu náði hann að halda þessu standandi í langan tíma og ógna Maia standandi. Hann gerði örfá tæknileg mistök sem kostuðu hann lotur sem kostuðu hann bardagann á endanum. Gegn manni eins og Maia máttu ekki gera ein mistök því þá sleppa menn yfirleitt ekki fyrr en lotan klárast eða menn gefast upp.

Maia sigraði eftir klofna dómaraákvörðun en þetta var fjórða tap Masvidal í röð eftir klofna dómaraákvörðun. Þetta hefði þó aldrei átt að vera klofin dómaraákvörðun enda tók Maia 1. og 3. lotuna örugglega.

Frankie Edgar sýndi heldur betur að hann er ennþá einn af þeim bestu í fjaðurvigtinni. Edgar var aldrei í hættu í bardaganum og var ekki í miklum vandræðum með að ná Yair Rodriguez niður. Edgar var of stór biti fyrir Rodriguez á þessum tímapunkti á ferlinum en hann mun koma sterkur til baka og læra af þessu.

Upphitunarbardagar kvöldsins voru stórkostlegir. Bardagi Eddie Alvarez og Dustin Poirier var magnaður þar til hann endaði á óheppilegan hátt eftir ólögleg hnéspörk frá Alvarez. Jason Knight hélt áfram að sýna hve skemmtilegur hann er með sigri á Chas Skelly. En besti bardagi kvöldsins var hins vegar í þungavigtinni á milli Chase ‘The Vanilla Gorilla’ Sherman og Rashad Coulter. Sherman sparkaði ítrekað í fætur Coulter sem gat varla staðið í lappirnar fyrir vikið. Honum tókst samt að meiða Sherman standandi og leit út fyrir að við fengum magnaða endurkomu. Sherman náði þó að klára þetta á endanum með rothöggi í 2. lotu en þetta var ótrulegur bardagi sem allir ættu að sjá.

UFC 211 var mjög skemmtilegt bardagakvöld og kannski er UFC að fá smá meðbyr núna eftir erfiða byrjun á árinu. Næsta UFC kvöld fer fram sunnudaginn 28. maí í Stokkhólmi en þar mætast þeir Alexander Gustafsson og Glover Teixeira í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular