UFC 226 fór fram um síðustu helgi en bardagakvöldið var eitt það stærsta á árinu. Daniel Cormier skráði sig á spjöld sögunnar með frábærum sigri á Stipe Miocic og er nú ríkjandi meistari í tveimur þyngdarflokkum í UFC.
Afrek Cormier fellur dálítið í skuggann á skrípaleiknum sem kom í kjölfarið í búrinu á milli Brock Lesnar og nýkrýnda meistarans. Öll umræða í dag snýr fyrst og fremst að Brock Lesnar en ekki um ótrúlegt afrek Daniel Cormier.
Skrípaleikurinn var líka svo fáranlegur og eins óraunverulegur og hægt er. Það vita allir að engin illindi eru á milli Lesnar og Cormier og trúi ég því ekki að svona læti kveiki áhuga á mögulegum bardaga. Þetta vekur athygli og umræðu en öllu má nú ofgera.
Nú virðist allt benda til þess (miðað við innkomu Lesnar í búrið og ummæli Dana White á blaðamannafundinum eftir á) að Lesnar fái næsta titilbardaga í þungavigt UFC. Maðurinn sem hefur ekki unnið bardaga löglega síðan 2010 og er í keppnisbanni er að fá titilbardaga í UFC. Hvað erum við að gera hérna?
Það er svo sem ekkert nýtt að menn fái titilbardaga óverðskuldað. Dan Henderson átti ekki skilið titilbardaga þegar hann mætti Michael Bisping og sömuleiðis ekki Georges St. Pierre þegar hann mætti Bisping. Það sama mætti segja um Conor McGregor þegar hann fékk titilbardaga í léttvigt í fyrsta sinn en í öllum þessum dæmum er hægt að finna einhver rök fyrir því af hverju þeir fengu titilbardaga. Það er ekki þannig með Lesnar. Eina ástæðan fyrir því að Brock Lesnar er að fá bardaga er til að fá pening, snýst ekki um neitt nema peninga. Auðvitað er það oft stór ástæða ákvarðanna hjá einkarekna fyrirtækinu UFC en nú er botninum sennilega náð.
Dana White gaf þá skýringu á blaðamannafundinum eftir bardagakvöldið að Lesnar hefði verið meistari og hefur nýlega unnið einn af topp gæjunum í þungavigt. Lesnar var þungavigtarmeistari árið 2010 (!!) og svo var sigurinn hans á Mark Hunt árið 2016 dæmdur ógildur eftir að hann féll á lyfjaprófi.
Eftir að hafa séð þetta Brock Lesnar dæmi varð ég eiginlega bara leiður. Það er leiðinlegt að láta minna mann á það að oft er þetta ekki alvöru íþrótt heldur íþróttaafþreying (e. sports entertainment). Oft snýst þetta um svo miklu meira um skemmtun og afþreyingu hjá stærstu bardagasamtökunum heldur en hver sé bestur. Það hefur oft verið þannig en núna er þetta að ná einhvers konar hámarki – allt snýst um að græða. Það sorglega við þetta er að svona skrípaleikur virkar ansi vel. Margfalt fleiri munu horfa á Cormier buffa Lesnar heldur en frábæran titilbardaga Robert Whittaker og Yoel Romero. Svona skrípaleikur er því miður bara niðurlægjandi fyrir íþróttina.
Það væri allt í lagi ef þetta væri bara einhver bardagi og enginn titill í boði. Daniel Cormier á skilið að fá svona stóran bardaga þar sem hann fær virkilega vel borgað en það á ekki að vera titill í húfi. Maður missir eiginlega smá áhuga á íþróttinni með svona fáranlegum bardögum. Eftir frábæra bardaga á UFC 226 (fyrir utan Ngannou og Lewis) var maður hæstánægður með kvöldið en þessi fáranlega atburðarrás keyrði gleðina niður.
Burtséð frá öllu þessu var þetta frábær sigur fyrir Daniel Cormier. Þessi magnaði íþróttamaður er núna búinn að gera það sem Jon Jones talaði um svo lengi – að vinna titilinn í þungavigt. Það hlýtur að hafa verið sárt fyrir Jon Jones að vera einhvers staðar í Albuquerque, ófær um að keppa, að horfa á erkióvin sinn Daniel Cormier ná því sem honum hefur aldrei tekist.
Þeir Francis Ngannou og Derrick Lewis áttu sögulega lélegan bardaga. Einn versti bardagi í sögu UFC en aðeins 31 högg samtals lenti í bardaganum. Ngannou óttaðist líklegast að gasa eftir að hafa verið fljótt þreyttur í bardaganum gegn Stipe Miocic. Hann átti ekki möguleika á því að klára þolið í þessum bardaga enda gerði hann ekki neitt. Ég óttaðist það að hann yrði ragur við að sækja eftir tapið gegn Miocic en datt ekki í hug að hann yrði svona lélegur!
Derrick Lewis verður síðan að fara að huga að þessu bakvandamáli sínu. Hann átti erfitt með að standa í bardaganum gegn Mark Hunt út af bakinu á sér og endaði á að tapa eftir tæknilegt rothögg. Hann þurfti skyndilega að hætta við bardagann gegn Fabricio Werdum sama dag og bardaginn átti að fara fram vegna bakvandamála og nú var bakið hans að plaga hann í miðjum bardaganum. Löngu orðið tímabært að laga þetta. Miðað við ummæli Lewis á blaðamannafundinum ætti það ekki að vera erfitt en hann þarf bara að léttast um nokkur kíló og teygja meira.
Anthony Pettis átti síðan frábæra frammistöðu þegar hann kláraði Michael Chiesa með „triangle/armbar“ í 2. lotu. Pettis segist alltaf vera að finna upp hjólið fyrir hvern bardaga en í þetta sinn sagðist hann ætla að hætta að reyna að vera glímumaður og vera hann sjálfur aftur þar sem hann klárar menn standandi eða í gólfinu. Það gerði hann svo sannarlega og vonandi getur hann haldið áfram á sömu braut. Hann þarf samt að gera meira en þetta til að sýna fram á að hann sé „kominn aftur“.
Millivigtin er svo að fá flotta áskorendur. Á föstudaginn sigraði Israel Adesanya hinn reynda Brad Tavares og er hann nú 3-0 í UFC. Paulo Costa rotaði svo Uriah Hall í 2. lotu en hann er núna 4-0 í UFC – allt sigrar eftir rothögg. Þetta er gæji sem virðist hafa allan pakkann og er spurning hvort hann sé næsta brasilíska stjarnan.
Næsta bardagakvöld fer fram á laugardaginn þegar UFC heimsækir Boise í Idaho en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Junior dos Santos og Blagoy Ivanov.