UFC 235 fór fram um helgina í Las Vegas. Kvöldið var af stærri gerðinni og útkoman var á vissan hátt söguleg en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.
Einhliða titilbardagar
Þetta kvöld voru tveir stórir titilbardagar, alvöru titlar, ekkert bráðabirgðar rugl í þetta skipti. Hvorugur bardaganna var eitthvað sérstaklega spennandi þar sem báðir voru mjög einhliða. Það sem kom hins vegar á óvart var ótrúleg frammistaða Kamaru Usman en hann valtaði yfir ríkjandi meistara í veltivigt, sjálfan Tyron Woodley. Þetta var ágætis áminning að það er enginn ósigrandi sama hversu vel viðkomandi hefur litið út undanfarið. Fyrir bardagann sagðist Woodley vera betri í öllu sem Usman gerði en í raun átti hann ekki svar við neinu og leit út eins og skugginn af sjálfum sér.
Jon Jones gjörsigraði Anthony Smith á stigum og lenti aldrei í vandræðum. Smith átti hreinlega ekkert svar við fjölbreyttri árás Jones sem leit út eins og listamaður að mála á striga. Smith er góður en virðist ekki vera efni í meistara, að minnsta kosti ekki á þessum tímapunkti. Það er eitthvað fallegt við eðlilega titilvörn á móti efsta áskoranda viðeigandi þyngdarflokks. Það þarf ekki alltaf að vera súperbardagi eða einhverjar illdeilur í gangi, bara eðlileg íþróttamennska.
Í bardaga Jon Jones og Anthony Smith kom upp óheppilegt atvik þar sem Jones kom inn ólöglegu höggi í höfuð Smith og dómarinn greip í taumana. Þarna hefði Smith getað einfaldlega sagt vera meiddur og þar með fengið titilinn á silfurfati með tilheyrandi launahækkun og tækifærum sem því fylgir. Slíkt hvarflaði hins vegar aldrei að okkar manni enda heiðursmaður með ljónshjarta. Fréttamaðurinn Ariel Helwani talaði um það eftir bardagann hvort Smith hefði ekki átt að grípa gæsina en slíkt verður að teljast á siðferðislegu gráu svæði, vægast sagt.
Framtið Tyron Woodley
Tyron Woodley stendur nú á krossgötum enda er hann orðinn 37 ára gamall. Hann var aldrei mjög vinsæll meistari og aldrei besti vinur Dana White svo það er spurning hvað verður um kallinn. Hann segist vilja endurat en það verður að teljast mjög ólíklegt í ljósi þess hve afgerandi sigur Usman var. Valmöguleikar Woodley virðast því vera þrír; hann gæti hreinlega hætt enda fjárhagslega vel stæður og með vinnu hjá UFC við að greina bardaga, hann gæti þyngt sig upp í millivigt en það gæti orðið upphafið af einhverju nýju og spennandi, að lokum (sem er sennilega líklegast) gæti hann barist við einhverja tvo til þrjá andstæðinga í topp 15 og vonast til að vinna sig aftur upp. Næstur fyrir Usman virðist vera Colby Covington svo Woodley ætti að byrja á að taka sér gott frí og horfa á úr fjarlægð. Þeir meistarar sem hafa tapað titlinum svona einhliða hafa sjaldan unnið sig aftur upp í titilbardaga (Renan Barao og Tim Sylvia t.d.) og gætu næstu skref Woodley verið mjög áhugaverð.
Ben Askren „sigrar“ Robbie Lawler
Frumraun Ben Askren í UFC var beðið með mikilli eftirvæntingu en útkoman varð eitthvað furðulegt slys. Eftir hræðilega byrjun þar sem Lawler slammaði Askren og virkaði hársbreytt frá því að rota hann náði Askren einhvern veginn að lifa af og náði Lawler að lokum í höfuðlás. Dómarinn hélt að Lawler væri meðvitundarlaus og stoppaði bardagann en Lawler spratt þá strax á fætur og mótmælti. Þetta voru mjög óheppileg dómaramistök hjá Herb Dean sem er þó talinn einn sá besti í bransanum. Hendi Lawler virtist laflaus svo mistökin voru skiljanleg í hita leiksins og markmið Dean var eingöngu að vernda Lawler. Staðan er hins vegar sú að Askren var dæmdur sigurinn á meðan Lawler þarf að sætta sig við ósanngjarnt tap. UFC hefur hug á að láta þá berjast aftur en Askren er ekki hrifinn af þeirri hugmynd. Það verður áhugavert að sjá hvor gefur sig.
Askren sagði eftir bardagann að Lawler hefði verið meðvitundarlaus en Lawler var ekki á sama máli. Það er hægt að deila um þetta endalaust en vonandi mætast þeir bara aftur því þessar rúmu þrjár mínútur voru svakalegar!
Pedro Munhoz náði svo í sinn stærsta sigur á ferlinum með því að rota Cody Garbrandt í 1. lotu. Þetta er þriðja tap Garbrandt í röð og allt eru það eftir rothögg eftir hægri krók. Það er eins og hann bara standist ekki mátið og geti ekki sleppt því að skiptast á höggum við andstæðinga sína sem hefur nú endað illa þrisvar í röð.
— Streetfight Bancho (@streetfitebanch) March 4, 2019
Næsta bardagakvöld verður á laugardaginn þegar UFC heimsækir Kansas. Þar mætast þeir Junior dos Santos og Derrick Lewis í aðalbardaga kvöldsins.