UFC 243 fór fram á laugardaginn í Ástralíu þar sem Israel Adesanya var maður kvöldsins. Frammistaðan var geggjað og er ný stjarna fædd.
Israel Adesanya rotaði Robert Whittaker í 2. lotu í aðalbardaga kvöldsins á UFC 243. Adesanya rotaði hann eiginlega tvisvar því hann hafði þegar slegið Whittaker niður í 1. lotu en bjallan bjargaði Whittaker. Það hefði ekki þurft mikið frá Adesanya á þessum tímapunkti til að klára bardagann.
Í 2. lotu virtist Adesanya eiginlega bara vera með þetta. Manni fannst eiginlega eins og það væri bara tímaspursmál hvenær hann myndi rota Whittaker. Þó Whittaker sé grjótharður þá fannst manni eins og Adesanya væri bara alveg að fara að rota hann og það gerðist eftir rúmar þrjár mínútur í 2. lotu. Geggjuð frammistaða hjá Adesanya og frammistaða sem býr til stjörnu.
Það er allt við Adesanya sem bendir til að hann geti orðið stór stjarna í MMA. Hann er geggjaður í búrinu, er að klára bardaga sína, talar skemmtilega og svo dansaði hann auðvitað í búrið! Þetta var ekkert merkilegasti dans allra tíma en það er dálítið nett að henda í dansspor fyrir stærsta bardaga ferilsins. Öryggið uppmálað. Auðvitað hefði verið talað um þennan dans sem ákveðna truflun ef hann hefði tapað en hann sigraði örugglega og skoraði því nokkur nettleikastig.
Upprisa hans í UFC hefur verið mjög hröð. Adesanya kom í UFC í febrúar 2018 og hefur hann á þeim tíma unnið sjö bardaga, tekið reynslubolta í bakaríið og er nú millivigtarmeistari. Hans upprisa minnir á Jon Jones og Conor McGregor og kemur hann með ferskan blæ inn í MMA. Hans fyrsta titilvörn verður gegn Paulo Costa. Tveir ósigraðir bardagamenn á besta aldri – gæti varla verið betra.
Robert Whittaker var að berjast í fyrsta sinn í 484 daga og gæti hafa verið eitthvað ryðgaður en taktíkin hans var bara ekkert sérstök. Hann var alltof mikið að vaða inn í Adesanya og oft með sömu flétturnar. Það var eiginlega bara tímaspursmál hvenær svona hæfileikaríkur kickboxari eins og Adesanya myndi smellhitta. Það hefði líka verið öflugt að nota fellurnar meira fyrir Whittaker til að rugla Adesanya í rýminu. Ógnin af fellunni gerir oft mikið þó Whittaker hefði ekki náð að klára eina fellu.
Það sem er samt skrítnast við þetta tap er að Whittaker fannst þetta vera að ganga mjög vel. Það var skrítið að hlusta á Whittaker tala um að hann hefði bara „got caught“ en gengið vel fram að því. Mér fannst bardaginn ekki vera að spilast þannig. Mér fannst Adesanya vera mun hættulegri í sínum árásum og var Whittaker oft á tæpasta vaði.
Whittaker vill samt fá að berjast aftur sem fyrst enda verið lengi frá. Hann var æstur í að fá bardaga sem fyrst en ætti að bíða rólegur enda var hann auðvitað rotaður. Það væri samt yndislegt að sjá tvo bardaga í viðbót frá honum á næstu 12 mánuðum. Ég vona allavegna að Whittaker geti unnið sig upp í annan bardaga gegn Adesanya.
Whittaker er bara 28 ára gamall en það má velta því fyrir sér hvort stríðin við Yoel Romero hafi tekið of mikið úr honum. Við fáum sennilega svör við því næst þegar hann berst því mögulega er Israel Adesanya bara betri bardagamaður og sá besti í millivigtinni í dag.
Dan Hooker átti síðan flotta frammistöðu þegar hann sigraði Al Iaquinta eftir dómaraákvörðun. Hooker hefði sennilega klárað marga en Iaquinta er harður. Hooker óskaði eftir bardaga gegn Dustin Poirier en Poirier sagðist eiga bardaga gegn ákveðnum Íra næst. Hooker hló reyndar að því á blaðamannafundinum en tillaga Poirier (að Hooker mæti Donald Cerrone) er alls ekki slæm.
I'm fighting the Irishman next. You're close but not yet buddy keep punching @danthehangman
— The Diamond (@DustinPoirier) October 6, 2019
Flott frammistaða hjá Hooker og er hann hægt og rólega að komast í elítuna í léttvigtinni í UFC.
Fínasta bardagakvöld þar sem aðalbardaginn var langbesti bardagi kvöldsins eins og fyrirfram var búist við. Næsta bardagakvöld UFC er á laugardaginn þar sem þær Joanna Jedrzejczyk og Michelle Waterson mætast í aðalbardaga kvöldsins.