Saturday, February 24, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 253

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 253

Embed from Getty Images

UFC 253 fór fram um síðustu helgi þar sem Israel Adesanya sigraði Paulo Costa í aðalbardaga kvöldsins. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir tvo skemmtilega titilbardaga.

Israel Adesanya fór leikandi létt með Paulo Costa á laugardaginn. Adesanya kláraði Costa með tæknilegu rothöggi í 2. lotu og ógnaði Costa lítið sem ekkert í bardaganum.

Costa er þekktur fyrir að króa andstæðinga sína upp við búrið og raða inn mörgum höggum þar. Það var ekkert þannig á dagskrá á laugardaginn. Adesanya lét bara Costa standa í miðjunni þar sem hann var ráðalaus. Costa var nokkrum sinnum nálægt því að króa Adesanya af upp við búrið en nýtti tækifærin illa. Hann annað hvort var með stæla eins og að setja hendur fyrir aftan bak eða brást of ýkt við sýndarárásum (e. feint) Adesanya og hleypti Adesanya frá búrinu.

Costa var að reyna að gera þetta að sínum bardaga en var snemma ráðalaus. Það var eins og hann vissi ekki hvað hann ætti að gera þegar 1. lota var hálfnuð. Adesanya var alltaf skrefi á undan (eða 10 skrefum eins og Adesanya orðaði það sjálfur). Í 2. lotu var eins og Costa vissi ekkert hvað væri að koma frá Adesanya. Ógnir og sýndarárásir Adesanya voru virkilega góðar samt og Costa bakkaði bara og hafði engin svör.

Það er líka mikill reynslumunur á þeim Costa og Adesanya. Costa var að berjast sinn 14. atvinnubardaga í MMA á meðan þetta var bardagi nr. 106 hjá Adesanya (20 í MMA, 80 í sparkboxi og 6 í boxi). Costa hefur líka bara einu sinni farið þrjár lotur og aldrei í fimm lotu. Hann var því kannski hræddur við að sprengja sig og sótti því ekki eins ákaft eins og hann er vanur að gera.

Þetta var eiginlega skuggalega létt fyrir Adesanya og festir hann enn betur í sessi sem ein stærsta stjarna UFC í dag. Það var gott fyrir hann að ná svona sigri eftir leiðindin gegn Yoel Romero fyrr á árinu. Hans næsta áskorun verður síðan annað hvort gegn Jared Cannonier eða Robert Whittaker en þeir mætast í október.

Embed from Getty Images

Jan Blachowicz heldur áfram að koma á óvart og rotaði hann Reyes í 2. lotu. Blachowicz er nú léttþungavigtarmeistari UFC en það þótti fráleitt fyrir ekki svo löngu. Hinn 37 ára Pólverji sýndi enn og aftur kraftinn sem hann er með.

Dominick Reyes komst aldrei í gang í bardaganum. Mér fannst hann vera smá hræddur við höggþunga Blachowicz og var lítið að beita gagnárásum sem hann hefur oft gert áður. Hann var með háa vörn þegar Blachowicz sótti (skrokkurinn var þar með opinn og fékk Reyes nokkur góð spörk í skrokkinn í kjölfarið) og kom sínum árásum aldrei í gang. Mér fannst líka eins og Reyes væri að berjast með það í huga að fara allar fimm loturnar. Það var lítill ákáfi í höggunum hans, hann tók sjaldan í gikkinn og hann var bara ekki eins ákáfur og t.d. gegn Jon Jones. Gegn Jones var hann orðinn mjög þreyttur í 4. lotu og kannski var hann hræddur við að sprengja sig snemma.

Hvað sem planið var hjá Reyes þá gekk það heldur betur ekki eftir. Í fyrsta sinn í langan tíma var Reyes með bróður sinn, Alex Reyes, í horninu sem sinn yfirþjálfari. Sú breyting skilaði ekki miklu miðað við frammistöðuna á laugardaginn en Blachowicz þekkir vel hvernig það er að skipta um lið. Þegar Blachowicz samdi við UFC skipti hann um lið í Póllandi og fór í stærra lið. Eftir fjögur töp í fimm bardögum hóaði hann aftur í gamla krúið og er nú léttþungavigtarmeistari.

Það er langt síðan einhver sem heitir ekki Jones eða Cormier hefur haldið léttþungavigtartitlinum. Áður en Jones tók beltið árið 2011 var beltið eins og heit kartafla og fór á milli manna eins og Shogun Rua, Lyoto Machida, Rashad Evans, Forrest Griffin og Rampage Jackson þar til Jones tók beltið.

Ég held að svipað verði upp á teningnum núna. Ég held að beltið muni fara hratt á milli manna og fáir ná að halda beltinu lengi næstu árin. Menn eins og Thiago Santos, Alexander Rakic, Dominick Reyes og Jiri Prochazka eiga sennilega allir eftir að halda beltinu á einhverjum tímapunkti.

Embed from Getty Images

Diego Sanchez átti síðan skelfilega frammistöðu þegar hann tapaði fyrir Jake Matthews. Sanchez átti aldrei séns gegn Matthews og var hægur, lélegur, lítið ógnandi og með holningu sem sæmir varla atvinnuíþróttamanni. Þó Sanchez sé með vafasama þjálfara í dag held ég að fáir gætu komið þessum manni á sigurbraut í dag. Þetta er komið gott hjá Sanchez en því miður er ólíklegt að hann sé á sama máli.

Næsta bardagakvöld er næstu helgi þegar Holly Holm mætir Irene Aldana í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular