Tuesday, September 10, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 256

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 256

Embed from Getty Images

UFC 256 fór fram á laugardaginn í Las Vegas. Þetta var næstsíðasta bardagakvöld ársins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Deiveson Figueiredo og Brandon Moreno áttu gjörsamlega frábæran bardaga á laugardaginn. Eftir fimm lotu stríð endaði bardaginn í jafntefli. Figueiredo hefði samt unnið ef eitt stig hefði ekki verið tekið af honum eftir nokkur brot. Hann vann fleiri lotur en Moreno en jafntefli var sanngjörn niðurstaða.

Eins og áður segir var bardaginn gjörsamlega frábær. Fluguvigtin er svo sannarlega að skila okkur skemmtun þessa dagana og er Deiveson Figueiredo þar fremstur í flokki. Figueiredo er sennilega með mestu höggþyngdina í fluguvigtinni en verri menn en Moreno hefðu sennilega hrunið niður á laugardaginn. Aðeins ótrúleg haka Moreno hélt honum í bardaganum.

Bardaginn fór því allar 25 mínúturnar og sýndi Figueiredo að hann getur farið fimm lotur þrátt fyrir stóran niðurskurð. Hann gaf aðeins eftir þegar leið á bardagann en var bara flottur í fimm lotur.

Moreno var ótrúlega harður af sér og gaf hann ekkert eftir. Hann sýndi að hann á vel heima gegn þeim bestu og vilja allir sjá hann aftur gegn Figueiredo. Það er öllum sama um Cody Garbrandt (sem átti að fá titilbardaga gegn Figueiredo í nóvember) núna og bíðum við spennt eftir að Figueiredo mæti Moreno aftur.

Eins og áður segir vann Figueiredo fleiri lotur heldur en Moreno en þar sem eitt stig var tekið af Figueiredo endaði þetta í jafntefli. Það hlítur að hafa verið svekkjandi fyrir Figueiredo að hugsa til þess að hann hefði unnið ef þetta stig hefði ekki verið tekið af honum. Figueiredo hefur líka gengið í gegnum margt á síðustu vikum; tveir bardagar, skorið niður tvisvar og þurfti að fara á spítala kvöldið fyrir bardaga með matareitrun. Dýrkeypt stig eftir allar fórnirnar á síðustu vikum.

Refsingin var þó réttileg þar sem Figueiredo potaði tvisvar í augu Moreno og sparkaði illa í klof hans. Hann var full gáskafullur og var augljóslega ekki að fremja þessi brot viljandi en mistökin voru engu að síður hans. Svekkjandi mistök en aðdáendur fá í staðinn annan bardaga þeirra á milli.

Fyrir helgina var mikið talað um að ef Figueiredo myndi vinna væri hann bardagamaður ársins 2020. Það er ekki alveg eins kristaltært núna en þess í stað eru allir að tala um þetta sem besta bardaga ársins. Það verður allavegna hægt að deila um hvort þessi bardagi eða bardagi Weili Zhang og Joanna Jedrzejczyk í mars hafi verið betri en það er efni í aðra grein. Figueiredo getur samt gengið mjög sáttur frá þessu ári og er í allt annarri stöðu í dag heldur en í upphafi árs.

Bardaginn var líka svo frábær að sennilega var þetta besti bardagi í sögu fluguvigtarinnar. Það má vel færa rök fyrir því en titilbardagi Demetrious Johnson og John Dodson árið 2013 var líka góður. Figueiredo og Moreno eiga skilið gott frí eftir þessa orustu en síðan hendum við þeim aftur í búrið í mars/apríl. Við getum ekki beðið eftir því!

Embed from Getty Images

Charles Oliveira átti eina bestu frammistöðu kvöldsins þegar hann fór leikandi létt með Tony Ferguson. Oliveira tók Ferguson niður að vild og var bara miklu betri en hann í gólfinu. Oliveira hefur nú unnið átta bardaga í röð og stimplaði sig inn um helgina sem einn af þeim bestu í léttvigtinni.

Það hefur verið magnað að fylgjast með Oliveira þroskast í UFC. Hann var bara 20 ára þegar hann kom í UFC árið 2010 og var þetta 26. bardaginn hans í UFC. Hann hefur átt misjafna tíma en alltaf verið mjög tæknilega góður. Stundum finnst mér eins og hann gefist auðveldlega upp hann hefur vaxið andlega að mínu mati. Það er meiri þrautseigja í honum og svo er hann líka orðinn svo ótrúlega hættulegur að hann getur klárað bardagann á svipstundu.

Tony Ferguson hefur klárlega tekið nokkur skref til baka sem bardagamaður. Hvort sem það voru barsmíðarnar gegn Justin Gaethje eða einfaldlega aldurinn þá er hann ekki alveg eins hættulegur og hann var. Hann er samt ennþá klikkaðslega harður eins og þegar Oliveira var með hann í 100% armlás í 1. lotu. 99% af bardagamönnum í UFC hefði tappað út þarna en Tony Ferguson harkaði af sér.

Vinstri hönd Ferguson var klárlega sködduð eftir þennan lás og notaði hann höndina lítið út bardagann. Hann er vanur að byrja illa en eftir 1. lotuna var hann kominn of langt á eftir Oliveira og tókst aldrei að minnka bilið.

Í bardaganum fannst mér líka nokkuð ljóst að Ferguson hefði aldrei átt séns í Khabib. Hann var aldrei nálægt því að komast upp gegn Oliveira og það sama hefði verið upp á teningnum gegn Khabib að mínu mati.

Embed from Getty Images

Þar sem Figueiredo náði ekki sigri um helgina er svarið við spurningunni um hver sé bardagamaður ársins ekki eins augljóst. Það er annar maður sem gerir sterkt tilkall til þess eftir helgina og það er Kevin Holland.

Holland vann alla fimm bardaga sína á árinu og kórónaði frábært ár með því að rota Jacare í 1. lotu. Þetta var magnað rothögg og bjóst enginn, síst af öllu Jacare, við svona öflugum höggum úr þessari stöðu.

Holland er með kjaft, óhefðbundin stíl og virðist alltaf vera til í að berjast. Það er margt þarna sem UFC gjörsamlega elskar og verður gaman að sjá hvað hann fær næst.

Junior dos Santos tapaði fyrir Ciryl Gane og er hann kominn á ansi hálan ís rétt eins og Jacare. Jacare er kominn með þrjú töp í röp og Junior dos Santos fjögur (allt rothögg). Þeir gætu vel bæst við listann af þeim 60 bardagamönnum sem verður sagt upp á næstu vikum.

Bardagakvöldið var einstaklega skemmtilegt og sennilega eitt það besta á árinu. Næsta kvöld er þann 19. desember þegar þeir Geoff Neal og Stephen Thompson mætast en það verður síðasta bardagakvöld ársins hjá UFC.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular