Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 260

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 260

Embed from Getty Images

Nýr þungavigtarmeistari UFC var krýndur á laugardaginn. Francis Ngannou rotaði Stipe Miocic um helgina en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir UFC 260.

Francis Ngannou hafði greinilega lært mikið af fyrri bardaganum við Stipe Miocic. Hann var allt annar bardagamaður á laugardaginn heldur en í janúar 2018 og sigraði verðskuldað. Ngannou var þolinmóður, var ekkert að flýta sér, valdi höggin vel og stöðvaði felluna hjá Stipe Miocic. Það fór eflaust hrollur um aðdáendur Stipe Miocic þegar Ngannou stöðvaði felluna og lét þung högg fylgja í kjölfarið.

Ngannou er aldrei að fara að verða einhver maraþon hlaupari en hann passaði sig að sprengja sig ekki of snemma og beið átekta í stað þess að hlaupa á eftir Miocic. Þó hann sveifli stundum villt og galið er magnað að sjá hvað hann hittir ótrúlega vel með þessar löngu hendur sínar. Vinstri krókurinn sem kláraði Miocic smellhitti á hökuna. Verður varla mikið betra.

Í nokkur ár hefur Ngannou verið skrímslið á hliðarlínunni sem beið eftir að fá annað tækifæri gegn Stipe Miocic á meðan hann kláraði hvern andstæðinginn á eftir öðrum eftir örfáar sekúndur. Í þessum örstuttu bardögum Ngannou lærði maður ekki mikið um hann en hann var greinilega að gera vinnuna sem þurfti. Á síðustu árum hefur hann unnið í felluvörninni á hverri einustu æfingu og lagt vinnu í að bæta þolið. Maður sá ekki alltaf bætingarnar hans þar sem hann kláraði þetta svo snemma en vinnan skilaði sér svo sannarlega um helgina.

Embed from Getty Images

Þó Stipe Miocic sé einn sá besti frá upphafi er gaman að fá meistara eins og Ngannou sem segist vilja berjast sem oftast. Ef hann verður duglegur að berjast og heldur áfram að klára þetta með stæl þá getur hann orðið risastór stjarna á heimsmælikvarða.

Hann er strax farinn að tala um næsta bardaga og vilja allir sjá hann gegn Jon Jones. Allir nema Dana White! Jon Jones hefur verið á hliðarlínunni í meira en ár þar sem hann hefur staðið í samningadeilum við UFC. Samningar hafa gengið erfiðlega en Jones vill fá stærri hluta af kökunni og sérstaklega ef hann berst í þungavigt þar sem áhættan er meiri.

Aldrei þessu vant erum við með risastóran bardaga framundan sem væri fullkominn titilbardagi. Þetta er ekki sirkus bardagi sem hefur ekkert að gera með titilinn þannig séð eða bardagi sem selur af því þetta eru tvær stjörnur. Hérna erum við með einn besta bardagamann allra tíma sem langar að fara upp í þungavigt til að fást við nýja áskorun og splunkunýjan meistara sem er til í sína fyrstu titilvörn. Þetta væri risastór titilbardagi og á ekki að vera hægt að klúðra þessu en miðað við ummæli Dana White um helgina virðist þetta ekki vera eins borðliggjandi og það ætti að vera.

Og ekki segja mér að Jon Jones sé hræddur við Ngannou. Það er fáránlegt að segja það um bardagamann sem hefur aldrei tapað og farið gegn þeim hættulegustu í sínum flokki í áratug. Það er vissulega mikil áhætta að fara gegn Ngannou og því skilur maður af hverju Jones vill fá betur borgað en hræðsla er ekki ástæðan fyrir því af hverju Jones hefur ekki samþykkt þennan bardaga strax.

Maðurinn vill stærri hluta af kökunni og hefur UFC alveg efni á því enda fá bardagamenn aðeins um 20% af tekjum UFC. Það er því mjög kjánalegt að sjá Dana tala um að „Jones vilji ekki bardagann“ þegar Jones vill bara fá almennilega borgað fyrir bardaga gegn Ngannou. Ef UFC og Jones ná ekki endum saman er Derrick Lewis tilbúinn. Fyrri bardagi þeirra var alveg skelfilegur og einn sá versti í manna minnum en ég trúi ekki öðru en að þeir Lewis og Ngannou vilji bæta fyrir það.

Nú þegar staðan er 1-1 á milli Miocic og Ngannou þá má Miocic fá annað tækifæri gegn Ngannou. En ekki strax. Hann á skilið að fá sína hefnd en þarf góða hvíld eftir þetta rothögg sem hann varð fyrir um helgina. Það er líka spurning hvort það sé í lagi með hnéð á honum eftir lendinguna slæmu en það er minniháttar miðað við rothöggið.

Þó Miocic eigi skilið að fá annan bardaga þá þoli ég ekki þegar það er hent strax í annan bardaga eftir frekar einhliða tap. Miocic hefur bara barist við Ngannou og Daniel Cormier í síðustu fimm bardögum sínum á þremur árum. Væri gaman að sjá hann á móti Alexander Volkov, Curtis Blaydes eða jafnvel Derrick Lewis. Ég reikna samt með að Miocic eigi ekki eftir að vilja sjá neitt annað en annan bardaga gegn Ngannou næst.

Embed from Getty Images

Vicente Luque kláraði Tyron Woodley með uppgjafartaki eftir magnaða 1. lotu. Luque kláraði hann nánast tvisvar þar sem hann vankaði hann svo illa að það er í raun magnað að Woodley hafi ekki hrunið í gólfið oftar. Frábær sigur hjá Luque sem hefur nú unnið 13 bardaga í UFC og klárað alla nema einn! Magnaður skemmtikraftur og á hann skilið að fá stóran bardaga næst. Hvort það verði gegn Nate Diaz er óljóst enda berst Diaz aðeins við þá allra stærstu.

Þetta mun sennilega marka endalok Tyron Woodley í UFC. Þetta var hans fjórða tap í röð og jafnframt síðasti bardaginn á samningnum hans við UFC. Woodley er orðinn 38 ára gamall og var þetta hans fyrsta tap eftir uppgjafartak á ferlinum. Woodley má samt eiga það að hann kom inn með svakalegum krafti. Hann gerði í raun meira gegn Luque heldur en í öllum hinum töpunum til samans. Það var gaman að sjá smá eldmóð og ákafa í honum sem hefur ekki sést lengi en fjögur töp í röð hjá dýrum bardagamanni marka yfirleitt endalokin þessa dagana í UFC.

Sean O’Malley átti mjög örugga og flotta frammistöðu gegn Thomas Almeida. Almeida var aldrei líklegur til sigurs og var O’Malley með yfirhöndina nær allan tímann. O’Malley var kannski að reyna aðeins of mikið að vera töff með því að ná svona „walk off KO“ eins og Mark Hunt en Almeida var greinilega ekki búinn. Það var samt bara smá frestun enda kláraði O’Malley þetta í 3. lotu.

Það eru fullt af spennandi kostum í boði fyrir O’Malley næst eins og Dominick Cruz, Cody Garbrandt eða Pedro Munhoz. O’Malley er samt ekki ennþá kominn á topp 15 en spurning hvort hann endar þar inni á nýjum lista þegar hann birtist á næstunni.

Það er frí hjá UFC um páskahelgina en næsta bardagakvöld er á dagskrá þann 10. apríl þar sem þeir Darren Till og Marvin Vettori mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Embed from Getty Images
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular