UFC hélt bardagakvöld í Brasilíu síðasta laugardagskvöld en tvö ný met féllu í gær. Fyrra metið er ekkert til að hrópa húrra fyrir en þetta var lengsti viðburður í sögu UFC sé litið til lengd bardaga. Bardagarnir 12 stóðu yfir í 173 mínútur en UFC 169 (sem fór fram tveimur vikum fyrr) átti fyrra metið. 10 af 12 bardögum kvöldsins fóru í dómaraákvörðun. Seinna metið á Erick Silva en hann hefur nú sigrað þrjá bardaga í UFC án þess að fá á sig högg.
Lyoto Machida sigraði Gegard Mousasi eftir dómaraákvörðun í aðalbardaga kvöldsins. Machida stjórnaði bardaganum mest allan tíman og náði fjórum hausspörkum í Mousasi sem át sum þeirra. Mousasi sýndi enn og aftur að hann getur tekið höggum og var Machida aldrei nálægt því að klára hinn grjótharða Mousasi. Mousasi sýndi ákveðið getuleysi í að breyta ekki leikáætlun sinni eftir fyrstu tvær loturnar en hann átti í miklum vandræðum með að hitta Machida. Mousasi er mjög aðlögunarhæfur og hefði átt að breyta einhverju í sinni leikáætlun til að eiga meiri möguleika. Machida sigraði því þennan bardaga örugglega eftir dómaraákvörðun. Machida þarf að bíða eftir útkomu í titilbardaganum í millivigtinni milli Chris Weidman og Vitor Belfort. Hann fær sennilega sigurvegarann þar og þarf að bíða fram í maí til að sjá hverjum hann mætir næst.
Mousasi átti sín bestu ár á ferli sínum 2008 og 2009 þegar hann barðist með nokkra mánaða millibili 10 bardaga á tveimur árum. Hann er nýkominn til baka eftir hnémeiðsli og gæti viljað berjast aftur sem fyrst. Bardagi gegn Costas Philppou gæti orðið góð skemmtun.
Jacare sigraði Francis Carmont eftir dómaraákvörðun og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Jacare er að sumra mati búinn að vinna sér inn titilbardaga en sennilega er Machida á undan honum í röðinni. Hann þarf á aðgerð að halda í olnboga og óvíst hve lengi hann verður frá en fram að bardaganum gat hann ekkert beitt efri líkamanum á æfingum vegna meiðslanna. Francis Carmont tapaði í fyrsta sinn í UFC og ógnaði Jacare lítið. Ætli Carmont fari ekki bara aftur á “prelims” enda ekki mest spennandi bardagmaður í heimi.
Erick Silva..hvað er hægt að segja um hann? Ótrúlega hæfileikaríkur bardagamaður og einn sá allra skemmtilegasti í UFC í dag. Eins og áður sagði var þetta þriðji bardagi hans í UFC þar sem hann sigrar eftir að hafa ekki fengið eitt högg á sig. UFC elskar að láta hann fá lömb til slátrunar en Takenori Sato var þriðji nýliðinn í UFC sem mætir Erick Silva í fyrsta bardaga, og hann hefur klárað þá alla! Silva tapar svo gegn topp veltivigtarmönnum eins og Dong Hyun Kim og Jon Fitch og spurning hvort hann haldi því áfram eða nái jafnvel að komast á toppinn eins og svo margir hafa búist við. Það er ekki hægt að segja að Silva sé ungur og efnilegur lengur þar sem hann er orðinn þrítugur en þessi maður er svo sannarlega skemmtikraftur.
Þetta ár hefur ekki byrjað neitt sérstaklega vel fyrir UFC. Margir bardagar hafa endað í dómaraákvörðun og stórir bardagar valdið vonbrigðum. Aftur á móti var síðasta ár frábært hjá UFC varðandi skemmtanagildi og kannski eru þessir bardagar bara lognið á undan storminum.
Ekki er lengur veitt verðlaun fyrir rothögg eða uppgjafartak kvöldsins heldur verðlaun fyrir frammistöði kvöldsins. Erick Silva og Charles Oliveira fengu “Performance of the night” verðlaunin og hlutu 50.000 dollara hvor.