UFC Fight Night 62 fór fram í Brasilíu um helgina. Það var lítið um stór nöfn á boðstólnum en nokkrir bardagar stóðu upp sem er vert að ræða í Mánudagshugleiðingunum.
Bardagakvöldið í heild sinni var mjög gott fyrir Brasilíumenn. Það var auk þess mikið um uppgjafartök sem er viðeigandi á fæðingarstað brasilísks jiu-jitsu. Í aðalbardaganum mættust tveir sterkir glímumenn, þó með mjög ólíkan bakgrunn. Demaian Maia er einn besti jiu-jitsu bardagamaður sem barist hefur í UFC. Hann er margfaldur heimsmeistari og hefur klárað sex bardaga með uppgjafartaki í UFC.
Hann mætti Bandaríkjamanninum Ryan LaFlare sem var ósigraður fyrir bardagann og almennt virtur sem mjög sterkur glímumaður, þó aðeins með fljólublátt belti í jiu-jitsu. Ryan LaFlare átti engin svör við kæfandi glímu Demian Maia sem komst margoft í „mount“ og ógnaði ítrekað með „arm triangle“ hengingu. Bandaríkjamaðurinn sýndi mikið hjarta og góða vörn en það dugði ekki til. Demaian Maia hefur stundum dalað í lok bardaga en sýndi frábært úthald fyrstu fjóru loturnar í þessum bardaga – orðinn 37 gamall. Í fimmtu lotu virtist hann hins vegar alveg búinn. Draumurinn um bardaga á milli hans og Gunnars Nelson lifir.
Í næstsíðasta bardaga kvöldsins barðist Josh Koscheck kannski í sitt síðasta sinn í UFC er hann mætti Erick Silva. Þetta var síðasti bardagi Josh Koscheck á samningnum og varð fimmta tapið hans í röð. Í bardaganum setti hann mikla pressu á Erick Silva sem svaraði með eitruðuðum höggum. Eftir að hafa mýkt andstæðing sinn stökk Erick Silva á „guillotine“ hengingu og kláraði bardagann í fyrstu lotu. Vonandi mun Josh Koscheck játa sig sigraðan og leita annarra leiða til að vinna fyrir sér en það kæmi svo sem ekki á óvart að sjá hann reyna fyrir sér í Bellator. Koscheck hefur þó áður sagt að hann myndi einungis vilja berjast í UFC en slíkt gæti breyst ef keppnisandinn verði enn til staðar og rétt tilboð berst.
Fyrr um kvöldið voru nokkrir bardagar sem er vert að nefna. Leonardo Santos, sem vann The Ultimate Fighter Brazil 2, sýndi flotta takta og afgreiddi Tony Martin með „rear naked choke“ í annarri lotu. Hann er enn ósigraður í UFC. Amanda Nunes fór svo létt með Shayna Baszler. „The Queen of Spades“ er frábær persónuleiki en hún á því miður ekki heima í UFC lengur. Svo er það Gilbert Burns, heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu, sem átti að vera mikið efni en leit ekki mjög vel út á móti Alex Oliveira. Að lokum sigraði Gilbert Burns með „armbar“ en þess má geta að andstæðingurinn var með blátt belti í jiu-jitsu. Að lokum verður að nefna frábæran sigur Godofredo ‘Pepey’ Castro á Andre Fili úr Team Alpha Male. Standandi náði Pepey „overhook“ utan um vinstri handlegg Andre Fili og klifraði upp í „triangle“ sem hann kláraði að lokum á gólfinu. Frábær tilþrif.
Einn versti dómari sem sést hefur í búrinu setti ljótan blett á kvöldið. Brasilíski dómarinn Eduardo Herdy sá um dómgæsluna í þremur bardögum þetta kvöld og náði að klúðra tveimur. Fyrst sá hann ekki þegar Jorge de Oliveira reyndi írekað að gefast upp gegn Christos Giagos. Minnstu munaði að Jorge de Oliveira hefði misst meðvitund vegna þessa.
Enn verra atvik átti sér stað í bardaga Leandro Silva og Drew Dober. Sá síðarnefndi var ofan á í „half guard“, Leandro Silva reyndi örvæntingafulla „guillotine“ hengingu sem var langt frá því að ógna Drew Dober. Dómarinn sýndi hins vegar vanþekkingu sína og stoppaði bardagann við mikla furðu Drew Dober og allra viðstaddra. Vondandi fær þess maður aldrei að dæma annan bardaga.