Friday, April 19, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Assuncao vs. Moraes

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Assuncao vs. Moraes

Embed from Getty Images

UFC var með ansi skemmtilegt bardagakvöld í Fortaleza í Brasilíu á laugardaginn. Marlon Moraes sigraði Raphael Assuncao í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Þessi minni bardagakvöld í Brasilíu eru ekki alltaf spennandi en sú var raunin á laugardaginn. Spennandi aðalbardagi sem skipti máli fyrir þyngdarflokkinn, gamlar stjörnur eins og Demian Maia og Jose Aldo og svo upprennandi stjörnur á borð við Johnny Walker og Renata Livia Souza.

Þetta var í annað sinn sem þeir Raphael Assuncao og Marlon Moraes mætast. Fyrri bardaginn var ekkert sérstaklega spennandi en þessi var mun betri. Moraes kláraði Assuncao í 1. lotu og kallaði eftir titilbardaga gegn T.J. Dillashaw eftir sigurinn. Moraes var ekki viss hvort Dillashaw ætti skilið að berjast við sig eftir síðustu frammistöðu Dillashaw og sagðist ætla mögulega að leyfa Dillashaw að halda áfram að „eltast við litlu strákana“ í fluguvigtinni.

Moraes hefur svo sannarlega gert nóg til að eiga skilið að fá titilbardaga en hefur ekki fengið nein loforð um slíkt. Ríkjandi meistari, T.J. Dillashaw, vill fá annað tækifæri gegn Henry Cejudo eftir að hann var rotaður af Cejudo á 32 sekúndum í janúar. Það er samt algjör vitleysa að gefa Dillashaw annan bardaga gegn Cejudo og tefur allt í fluguvigt og bantamvigt. Það má færa rök fyrir því að fyrri bardaginn hafi verið stöðvaður of snemma en Dillashaw þarf bara að sætta sig við að hann var kýldur niður tvisvar á 32 sekúndum og þarf að verja titilinn sinn.

Marlon Moraes gerði líka akkúrat það sem þurfti til að gera kröfu um titilbardaga. Hann kláraði öflugan andstæðing í 1. lotu og það með stæl. Ansi vel gert þegar menn ná að kýla niður mótherjann og klára hann svo í gólfinu, það eru alltaf sannfærandi sigrar. Þetta var líka alvöru yfirlýsing hjá Moraes og hefur hann sýnt mjög góða takta að undanförnu. Eftir brösuga byrjun í UFC með tapi gegn Assuncao og tæpum sigri gegn Aljamain Sterling hefur hann klárað þrjá bardaga í röð í 1. lotu. Vonandi fáum við að sjá hann gegn Dillashaw á þessu ári.

Embed from Getty Images

Á laugardaginn fengum við líka að sjá gömlu góðu Brassana gera góða hluti. Jose Aldo náði frábærum sigri þegar hann kláraði Renato Moicano í 2. lotu. Aldo er kannski ekkert sérstaklega gamall, 32 ára, en það eru margar mílur á tankinum og ætlar hann að hætta eftir næstu tvo bardaga. Það iljar manni því um hjartarætur að sjá Aldo berjast svona vel og er hann ekkert að spá í titlinum eins og er. Hann hefur bara gaman af því að berjast, ætlar að klára samninginn sinn og svo yfirgefur hann íþróttina við góða heilsu. Aldo kom ekkert alltof vel út úr Conor McGregor viðskiptunum en það er skemmtileg ára yfir honum þessa dagana. Demian Maia náði líka flottum sigri um helgina og var þetta Maia-legasti sigur allra tíma. Hann er kannski ekki að fara að fá titilbardaga á næstunni en hann er enn meðal þeirra bestu í veltivigtinni og getur unnið góða menn með glímunni sinni.

Þá var gaman að sjá Johnny Walker klára Justin Ledet eftir aðeins 15 sekúndur. Walker reyndi að taka fótboltaspark í liggjandi Ledet og var heppinn að hitta ekki í höfuð hans því þá hefði hann verið umsvifalaust dæmdur úr leik. Walker er mjög hress týpa og er að vinna sannfærandi þannig að það er spurning hvort þetta sé strákur sem eigi eftir að verða stjarna.

Það verður nóg um að vera hjá UFC næstu vikurnar og verður UFC með bardagakvöld hverja helgi út mars. Næstu helgi heimsækir UFC Ástralíu þar sem þeir Robert Whittaker og Kelvin Gastelum mætast í aðalbardaganum á UFC 234.

Embed from Getty Images

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular