spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Bermudez vs. Korean Zombie

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Bermudez vs. Korean Zombie

Chan Sung Jung snéri aftur með glæsibrag þegar hann vann Dennis Bermudez með rothöggi á UFC bardagakvöldinu á laugardaginn. Það er alltaf eitthvað að ræða eftir UFC bardagakvöld en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir UFC Fight Night: Bermudez vs. Korean Zombie.

Einhverjir höfðu áhyggjur af því að kóreski uppvakningurinn Chan Sung Jung yrði ryðgaður í endurkomu sinni á laugardaginn. Jung hafði ekki barist í þrjú og hálft ár og var stærsta spurningamerkið fyrir bardagann hvernig hann myndi líta út eftir alla þessa fjarveru.

Jung var ekki lengi að svara þessu en hann rotaði Bermudez eftir tæpar þrjár mínútur í 1. lotu. Fyrsta mínútan gekk kannski brösulega fyrir Jung þar sem hann át m.a. þunga hægri en annars leit hann frábærlega út. Hann er nú kominn aftur á topp 10 (eða mun verða þar þegar nýr listi kemur) og eru  nokkrir spennandi bardagar framundan fyrir hann. Cub Swanson, Yair Rodriguez, Brian Ortega og Jerermy Stephens gætu allir veitt Jung harða keppni í skemmtilegum bardaga.

Nokkur umræða hefur myndast um svo kallað „ring rust“ (þ.e. þegar bardagamenn finnast þeir vera ryðgaðir í búrinu eftir langa fjarveru frá keppni) og hvort það sé raunverulegt fyrirbæri eða ekki. Dominick Cruz, Gunnar Nelson og Conor McGregor hafa allir sagt að þetta sé ekki til á meðan Daniel Cormier og Brian Stann hafa fundið fyrir þessu þegar þeir snúa aftur í búrið eftir langt hlé.

Ætli þetta sé ekki misjafnt eftir bardagamönnum – ef þú ert að pæla í þessu og hugsa mikið út í að það séu x margir mánuðir síðan þú kepptir síðast finniru eflaust meira fyrir þessu. Cruz og Gunnar hafa báðir sagt að ef þú ert ekkert að hugsa um þetta og ferð bara í búrið eins og vanalega er löng fjarvera enginn áhrifaþáttur.

Felice Herrig átti flotta frammistöðu þegar hún vann hina efnilegu Alexa Grasso eftir dómaraákvörðun. Grasso var hissa á dómaraákvörðuninni en hún hefði bara átt að stíga á bensíngjöfina fyrr í bardaganum. Grasso gerði einfaldlega minna en Herrig fyrstu tvær loturnar og var besta lotan hennar síðasta lotan. Við getum þó ekki bara kennt Grasso um tapið heldur megum við ekki gleyma því að Herrig gerði Grasso erfitt fyrir og hélt henni í skefjum.

Marcel Fortuna setti sennilega eitthvað met þegar hann vigtaði sig inn aðeins 95 kg fyrir þungavigtarbardaga sinn gegn Anthony Hamilton. Á meðan var sá síðarnefndi 117 kg og því 22 kg munur á þeim í búrinu. Fortuna gerði sér þó lítið fyrir og rotaði Hamilton í fyrstu lotu. Brassinn laug að UFC þegar honum var boðið að berjast í þungavigt og sagðist vera um 105 kg.

Áhættan sem hann tók borgaði sig heldur betur og mun hann nú berjast í léttþungavigt þar sem hann á heima. Fortuna er ekki einu sinni stór fyrir léttþungavigtina og gæti örugglega barist í millivigt. Flottur sigur hjá honum og gaman að sjá litla manninn vinna.

Jessica Andrade og Angela Hill háðu frábæran bardaga í strávigt kvenna. Með sigrinum hefur Andrade tryggt sér titilbardaga í flokknum og verður gaman að sjá hana gegn Joanna Jedrzejczyk hvenær sem það verður. Angela Hill sýndi að hún á vel heima í UFC ef það var einhver vafi á því. Fyrrum Invicta meistarinn fær vonandi aðeins auðveldari andstæðing næst en hún hefur mætt afar sterkum andstæðingum allan sinn feril í UFC.

Að lokum ber að nefna að Curtis Blaydes er að verða hörku bardagamaður í þungavigtinni. Hann kastaði Adam Milstead til og frá á laugardaginn en því miður endaði bardaginn með hnémeiðslum Milstead og leit það ekki vel út í sjónvarpinu.

Næsta UFC fer fram á laugardaginn þegar UFC 208 fer fram en þar munu þær Holly Holm og Germaine de Randamie mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular