0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Blaydes vs. Ngannou 2

Embed from Getty Images

UFC heimsótti Beijing í Kína um helgina. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Curtis Blaydes og Francis Ngannou en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Ngannou er kominn aftur! Eða í það minnsta lofaði Ngannou því eftir sigurinn á Curtis Blaydes. Ngannou kláraði Curtis Blaydes á aðeins 45 sekúndum en Blaydes fannst dómarinn stöðva bardagann óþarflega snemma. Um leið og bardaginn kláraðist virkaði Blaydes eins og hann hefði getað haldið áfram en maður skilur samt vel ákvörðun Marc Goddard enda var Blaydes að verja höggin með hausnum á sér og féll tvisvar niður. Eðlileg ákvörðun hjá Goddard að stöðva bardagann en maður skilur samt að Blaydes sé ósáttur. Annars tók Blaydes tapinu nokkuð vel og sagðist ætla að koma sterkari til baka.

Ngannou lauk því tveggja bardaga taphrynu og getur horft fram á veginn eftir slæmt tímabil. Hlutirnir eru fljótir að breytast í MMA en Ngannou var lítilmagni (e. underdog) hjá veðbönkum fyrir bardagann en núna er hann kominn aftur í titilbaráttuna. Maður vorkenndi eiginlega Ngannou í tapinu gegn Derrick Lewis og fínt að sjá hann vera kominn aftur. Krafturinn er auðvitað enn til staðar og nú er hann kominn með sjálfstraustið aftur. Það væri gaman að sjá hann gegn Junior dos Santos eða Tai Tuivasa næst en þeir mætast einmitt um helgina í Ástralíu.

Nú er Blaydes með tvö töp á ferlinum sem voru bæði gegn Ngannou. Hann var sleginn niður núna og var nálægt því að vera rotaður gegn Mark Hunt fyrr á árinu. Það eru því enn einhverjar holur í leik hans sem þarf að fylla í þó hann hafi sýnt góðar frammistöður hingað til. Hann er bara 27 ára gamall og hefur því fínan tíma til að bæta sig.

Embed from Getty Images

Alistair Overeem kom líka til baka eftir tvö slæm töp í röð. Overeem var hikandi en þegar hann náði fellu gegn hinum ósigraða Sergey Pavlovich breyttust hlutirnir fljótt. Overeem náði þungum höggum í gólfinu og rotaði nýliðann í 1. lotu. Fyrsti sigur Overeem í 1. lotu síðan 2014 þegar hann kláraði Stefan Struve árið en það var einmitt líka með höggum í gólfinu. Fínn sigur hjá Overeem í 62. MMA bardaga hans á ferlinum.

Zhang Weili rústaði Jessicu Aguilar og verður gaman að sjá hvern hún fær næst. Weili hefur klárað 16 af 18 sigrum sínum í MMA og verður áhugavert að sjá hvernig hún nær að þróast í UFC. UFC er að byggja upp kínverska markaðinn en hingað til hefur enginn af kínversku bardagamönnunum verið líklegur til að komast nálægt toppnum. Kannski verður Weili sú fyrsta frá Kína til að fá titilbardaga í UFC? UFC tilkynnti einnig á dögunum að bardagasamtökin ætli sér að opna risastórt UFC Performance Institute í Sjanghæ líkt og í Las Vegas.

Annars var fátt annað markvert sem gerðist á kvöldinu en gaman fyrir okkur í Evrópu að fá UFC snemma á laugardagsmorgni! Næstu helgi er svo tvöfalt bardagakvöld en það fyrra fer fram í Las Vegas á föstudaginn þar sem TUF Finale fer fram en svo á laugardaginn fer UFC til Ástralíu. Á föstudaginn mætast þeir Kamaru Usman og Rafael dos Anjos í aðalbardaga kvöldsins en á laugardaginn verða það þeir Junior dos Santos og Tai Tuivasa.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.