spot_img
Friday, December 27, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Gaethje vs. Vick

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Gaethje vs. Vick

UFC var með lítið bardagakvöld á laugardagskvöldið í Lincoln, Nebraska. Kvöldið var hið skemmtilegasta og bauð upp á eitthvað fyrir alla, rosaleg rothögg, flott uppgjafatök og sterkar tilfinningar.

Mikilvægur sigur fyrir Justin Gaethje

Það voru sennilega margir að búast við útkomupartý James Vick en niðurstaðan varð allt önnur. Justin Gaethje kom ósigraður inn í UFC í fyrra en hafði tapað tveimur bardögum í röð fyrir bardaga helgarinnar. Við erum vön að sjá Gaethje í blóðugu stríði en að þessu sinni steinrotaði hann Vick eftir rúma mínútu í fyrstu lotu. Grautfúlt fyrir Vick en geðveik stund fyrir Gaethje sem þurfti nauðsynlega á þessu að halda. Það var eitthvað svo gaman að sjá gleðina skína úr augum Gaethje eftir bardagannn á meðan hann hoppaði og skoppaði um búrið, eins og barn á aðfangadagskvöld.


Kveðjustund Jake Ellenberger

Eftir enn eitt erfitt tapið tilkynnti Jake Ellenberger að bardagaferli hans væri lokið. Það var súrsætt á sjá á eftir Ellenberger. Hann er aðeins 33 ára gamall en á greinilega ekki erindi lengur í búrið. Nýlegir MMA áhorfendur vita kannski ekki hversu góður ‘The Juggernaut’ var þegar hann var upp á sitt besta. Í hans fyrsta bardaga í UFC, árið 2009, barðist hann við Carlos Condit og tapaði eftir klofinn úrskurð dómaranna en frammistaðan var eftirminnileg. Eftir það hljóp Ellenberger í gegnum sex erfiða andstæðinga, meðal annars John Howard, Jake Shields og Diego Sanchez. Eftir það urðu töpin fleiri en sigrarnir en þrátt fyrir að hafa aldrei barist um titilinn barðist hann við nöfn á borð við Rory MacDonald, Robbie Lawler, Kelvin Gastelum og Stephen Thompson. Ferill hans endar með ansi mörgum töpum en Ellenberger tapaði 9 af síðustu 11 bardögum sínum. Vonandi er Ellenberger ágætlega settur fjárhagslega, hann á það skilið kallinn.

Sætir sigrar

Þetta kvöld var drekkhlaðið af „feel-good“ sögum. Michael Johnson náði sér loksins í sigur og bjargaði starfinu. JoJo Calderwood og Mickey Gall unnu bæði með uppgjafartaki í fyrstu lotu eftir tap í síðasta bardaga. Eryk Anders gekk frá Tim Williams með svakalegu rothöggi og lét hressilega vita af sér. Deiveson Figueiredo sigraði topp tíu andstæðing og hélt sér ósigruðum. Þetta kvöld hafði í raun allt það besta sem MMA hefur upp á að bjóða. Við munum eftir þessum flottu sigrum en eigum það til að gleyma töpunum. Það er bara eðli íþrótta. Það er samt erfitt að hugsa ekki til James Vick og þess sem hann hlýtur að vera að upplifa þessa stundina. Fyrir okkar skemmtun þarf hann að þjást en það er bara sportið.


Gleymdi maðurinn í bantamvigt

Rani Yahya hefur barist í UFC síðan árið 2011, samtals 15 bardaga og þar áður var hann í WEC sem var eiginlega UFC fyrir lægri þyngdarflokkana. Hann hefur unnið sjö af síðustu átta bardögum og klárað síðustu þrjá andstæðinga. Þrátt fyrir allt þetta er Yahya ekki á meðal topp 15 bardagamanna í bantamvigt sem er skrítið, sérstaklega í ljósi þess að til dæmis Rob Font (nr. 11) hefur tapað tveimur af síðustu þremur bardögum. Yahya þurfti síðan að sætta sig við að berjast í fyrsta bardaga kvöldsins. Eftir frábæran hælkrók gerði hann sér lítið fyrir bað um bardaga gegn T.J. Dillashaw en ég held að líkurnar á stórum bardaga fyrir Yahya séu álíka miklar og lítill bardagi fyrir Conor McGregor.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular