Saturday, May 18, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Gustafsson vs. Teixeira

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Gustafsson vs. Teixeira

MYND: Per Haljestam- USA TODAY Sports

Í gær hélt UFC bardagakvöld í Stokkhólmi þar sem tveir síðustu bardagarnir fóru fram í léttþungavigt og línurnar eru heldur betur farnar að skýrast á toppnum.

Bardagakvöldið fór, aldrei þessu vant, fram á kristilegum tíma og gátu aðdáendur fylgst með bardögunum í mestu makindum á sunnudagseftirmiðdegi án þess að þurfa að snúa sólarhringnum við. Maður gæti nú alveg vanist þess en förum yfir það sem stendur upp úr daginn eftir.

Fær Gustafsson næsta titilbardaga?

Í aðalbardaga kvöldsins mætti Alexander Gustafsson reynsluboltanum Glover Teixeira. Gustafsson átti eina bestu frammistöðu sína á ferlinum og sýndi stórgóða takta með fjölhæfum sóknum. Fjölbreytt spörk, fellur, gott box að ógleymdu hægri upphögginu sem hitti aftur og aftur í Teixeira.

Á meðan Gustafsson sýndi allar sínar bestu hliðar var Glover Teixeira afskaplega fyrirsjáanlegur og einhæfur. Yfirhandar hægri var eina sem hann hafði upp á að bjóða og á stundum leit hann út eins og Roy Nelson – rölti hægt á eftir Gustafsson í leit að þessu eina höggi. Gustafsson öruggur sigurvegari og mun gera sterkt tilkall til titilsins en Jimi Manuwa mun einnig gera kröfu um titilbardaga. Manuwa og meistarinn Cormier hafa verið að kljást mikið á Twitter undanfarið og spurning hvort það verði næsti titlibardagi ef Cormier tekst að verja titilinn gegn Jones.

Alexander Gustafsson fékk frábærar móttökur frá heimamönnum í Globen í gær og eftir bardagann óskaði hann eftir að fá kærustuna sína inn í búrið. Þar bað hann hana um að gifast sér og hún þurfti ekki að hugsa sig lengi um. Auk þess var bardaginn valinn bardagi kvöldsins og hann fær því 50.000 dollara bónus. Nokkuð gott kvöld hjá Gustafsson.

Það má í raun segja að þetta sé besti sigur Gustafsson á ferlinum. Fram að þessum sigri var Shogun Rua og kannski Jimi Manuwa hans bestu sigrar. Þarna sigraði hann topp 5 gæja í flokkinum og gerði það með stæl.

Hraðasta klifur sögunnar? 

Það tók Volkan Oezdemir aðeins 28 sekúndur að rota Misha Cirkunov. Oezdemir var fyrir þennan bardaga í fimmta sæti styrkleikalistann eftir aðeins einn bardaga í UFC og eftir sigurinn í gær stefnir allt í ótrúlega hraða leið hans á toppinn. Næst gæti hann fengið einhvern í topp fimm og blandað sér af fullu í toppbaráttuna eftir aðeins tvo bardaga. Þetta sýnir bersýnilega hve þunnskipuð léttþungavigtin er utan topp fimm.

Seinasti bardagi Marcin Held í UFC?

Það voru margir vongóðir þegar það var tilkynnt að BJJ undrið Marcin Held hefði fengið samning hjá UFC. 24 ára, yngsti svartbeltingur Póllands og hafði unnið sjö af seinustu átta bardögum sínum í Bellator (eina tapið í titilbardaga gegn þáverandi meistara Will Brooks). Það voru því fæstir sem áttu von á því að Held myndi tapa fyrstu þremur bardögum sínum í UFC.

Held hefur hins vegar verið einstaklega óheppinn. Hann tapaði gegn Diego Sanchez í fyrsta UFC bardaga sínum en keppti síðan við Joe Lauzon í bardaga sem allir töldu hann hafa unnið, nema dómararnir. Lauzon viðurkenndi meira að segja eftir bardagann að hann teldi sig hafa tapað honum og nánast baðst afsökunnar. Í gær keppti hann síðan við Damir Hadžović, var á góðri leið með að sigra bardagann eftir tvær öruggar lotur þar sem hann stjórnaði bardaganum gjörsamlega. Snemma í 3. lotu fékk hann síðan hné í andlitið. Það má því leiða líkur að því að þetta verði síðasti bardagi hans í UFC en vonandi getur hann sannað sig í minni samtökum og snúið aftur enda eingöngu 25 ára gamall þrátt fyrir 29 atvinnumannabardaga.

Næsta UFC kvöld fer fram á laugardaginn þegar þeir Jose Aldo og Max Holloway mætast á  UFC 212 í Ríó.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular