spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: MacDonald vs. Thompson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: MacDonald vs. Thompson

stephen thompson rory macdonaldUFC hélt gott bardagakvöld í Ottawa í Kanada um helgina þar sem Stephen Thompson sigraði Rory MacDonald í aðalbardaga kvöldsins. Kíkjum á Mánudagshugleiðingarnar eftir bardaga helgarinnar.

Stephen Thompson nældi sér í sinn sjöunda sigur í röð með sigrinum á Rory MacDonald. Thompson náði að stjórna fjarlægðinni allan tímann og var Rory MacDonald hálf ráðalaus standandi gegn karate-stráknum. Rory reyndi ýmis brögð svo sem að rúlla í fótalás en ekkert gekk eftir. Thompson hafði meira að segja betur í „clinchinu“ þar sem fyrirfram var talið að Rory yrði sterkari.

Bardaginn var gríðarlega tæknilegur og þó Thompson hafi ekki klárað Rory líkt og hann hefur gert við marga af síðustu andstæðingum sínum er þessi sigur flott rós í hnappagatið hjá honum. Thompson var hreyfanlegur og náði að halda sér frá Rory nær allan tímann. Það væri gaman að sjá hvort hann gæti gert það sama við Robbie Lawler. Ef hann spilar svipaða leikáætlun og Carlos Condit gerði gegn meistaranum á Thompson mikla möguleika á að verða veltivigtarmeistari.

Rory MacDonald er á ákveðnum krossgötum. Bardaginn um helgina var hans síðasti á núgildandi samningi og getur hann nú rætt við önnur bardagasamtök. Rory virkar þannig týpa að hann gæti þess vegna samið við ONE Championship í Asíu bara til að berjast við Ben Askren. Bara til að prófa það. Svo gæti hann samið aftur við UFC eftir smá tilraunastarfsemi hér og þar. Auðvitað viljum við sjá Rory fá almennilega borgað og berjast við þá bestu en hann er bara 26 ára og langar kannski að prófa nýja hluti.

Við erum þó ekki að fara að sjá Rory á næstu vikum enda nefbrotnaði hann aftur um helgina. Nefið hans var í molum eftir bardagann gegn Lawler fyrir ári síðan og á aumingja nefið hans ekki sjö dagana sæla.

rory macdonald nef

Eins gaman og það væri að sjá Demian Maia fá titilbardagann þá er nokkuð ljós að Thompson er á undan honum í röðinni. Sjö sigrar í röð og þar á meðal gegn fyrrum meistara (Johny Hendricks) og gegn þeim sem af mörgum er talinn sá næstbesti í veltivigtinni (Rory MacDonald). Thompson þarf þó að bíða eftir sigurvegaranum úr viðureign Tyron Woodley og Lawler sem fer fram þann 30. júlí. Hvað ætlar Demian Maia að gera á meðan?

Talandi um veltivigtina, hvað ætlar Donald Cerrone að gera í veltivigtinni? Um helgina sigraði hann Patrick Cote með glæsibrag og er nú með tvo sigra í röð í flokknum. Eftir bardagann kvaðst honum vera alveg sama hvort hann berjist í léttvigt eða veltivigt – hann vill bara fá að berjast. Þannig menn eru alltaf skemmtilegir en það væri þó mjög gaman að sjá hann fara á móti sterkum keppendum í veltivigtinni. Bardagi gegn t.d. Demian Maia væri áhugaverður. Ekki væri verra að sjá hann á móti okkar manni, Gunnari Nelson.

Steve Bossé og Sean O’Connell háðu frábæran bardaga þar sem Bossé sigraði eftir dómaraákvörðun. Kapparnir skiptust á að kýla hvorn annan án þess að hugsa of mikið um vörnina og var bardaginn valinn besti bardagi kvöldsins.

Íslandsvinkonan Joanne Calderwood átti frábæra frammistöðu þegar hún sigraði Valerie Létourneau með tæknilegu rothöggi í 3. lotu. Þetta var besta frammistaða hennar í UFC en hún virtist ekki fagna sigrinum neitt sérstaklega mikið. Eftir bardagann lýsti hún yfir vonbrigðum sínum með að fá ekki frammistöðubónus. Calderwood, sem hefur æft hjá Tristar í Kanada að undanförnu, þarf nú að fara aftur til Skotlands til að vinna sér inn pening áður en hún getur farið aftur til Tristar að æfa.

Það er gríðarlega svekkjandi að ein sú besta í hennar þyngdarflokki þurfi að fá sér aukavinnu til að eiga efni á heimsklassa æfingabúðum. Hérna erum við með íþróttamann sem vill æfa við bestu aðstæður til að vaxa sem íþróttamaður en getur það ekki vegna fjárskorts. Það er sorglegt en vonandi fær hún fljótlega betri samning við UFC.

Núna tekur við tveggja vikna frí í UFC áður en við fáum þrjú geggjuð bardagakvöld í þrjú kvöld í röð.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular