Thursday, April 18, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on FOX 16

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on FOX 16

tj dilla killaUFC hélt skemmtilegt bardagakvöld í Chicago á laugardaginn. TJ Dillashaw varði beltið sitt gegn Renan Barao og Miesha Tate tryggði sér þriðja bardagann gegn Rondu Rousey.

Dillashaw gerði nánast það sama við Barao á laugardaginn líkt og hann gerði í fyrri bardaganum. Hann notaði frábæra frábæra fótavinnu til að koma höggum á Barao á meðan Brasilíumaðurinn kýldi í loftið. Dillashaw er einfaldlega betri bardagamaður en Barao og nýtti sér sömu veikleika Barao líkt og í fyrra skiptið.

Barao er frábær í að stjórna fjarlægðinni, með góða stungu og góð lágspörk. Dillashaw tók þessi vopn frá Barao í báðum bardögunum með því að vera á stöðugri hreyfingu, inn og út. Barao er ekki eins góður í vasanum og þar náði Dillashaw alltaf að raða inn höggunum án þess að éta mikið af höggum sjálfur. Auk þess var Dillashaw sífellt að skipta um fótastöður og var Barao því ekki með neitt skotmark til að sparka í. Þetta var leikáætlun sem gekk fullkomnlega upp í fyrra skiptið og gerði Barao (og hans lið) engar breytingar til að koma í veg fyrir sams konar sigur Dillashaw í seinni bardaga þeirra.

tj barao

Margir hafa velt fyrir sér hver næstu skref Barao verða. Hugsanlega gæti Barao ákveðið að fara upp í fjaðurvigtina enda lengi verið vitað að niðurskurðurinn er Barao erfiður. Barao er enn einn af bestu bardagamönnunum í bantamvigtinni en mun sennilega aldrei verða meistari aftur svo lengi sem Dillashaw heldur beltinu. Það gæti verið gaman að sjá hann í fjaðurvigtinni gegn nýjum og spennandi andstæðingum. Aftur á móti er æfingafélagi hans, Jose Aldo, enn meistari í fjaðurvigtinni og því má segja að Barao standi á ákveðnum tímamótum á ferli sínum. Fer hann upp í fjaðurvigtina þar sem æfingafélagi hans er meistari eða mun hann halda sig í bantamvigtinni þar sem hann á ekki séns á að verða meistari í bráð?

Miesha Tate sigraði Jessicu Eye eftir einróma dómaraákvörðun. Eftir smá basl í byrjun tókst Tate að kýla Eye niður og breyttist bardaginn eftir það. Tate stjórnaði bardaganum allan tíman eftir höggið og var einfaldlega betri bardagakona þetta kvöld. Hún mætir Rondu Rousey í þriðja sinn næst en fyrst þarf Rousey að sigra Bethe Correira um helgina.

Tate fékk um tíma ekki alltaf þá virðingu sem hún átti skilið. Hún er ekkert sérstaklega vinsæll persónuleiki í UFC og fær oft last fyrir ummæli sín og hegðun. Það getur þó enginn tekið það af henni að hún er frábær bardagakona sem hefur nú sigrað sterka keppendur síðan hún tapaði fyrir Rousey síðast. Hún hefur sigrað Liz Carmouche, Sara McMann og nú Jessica Eye en allar hafa þær verið á topp fimm í bantamvigtinni. Hún sigraði auk þess Rin Nakai en sú hefur aldrei verið nálægt toppnum. Tate hefur unnið sér inn bardagann gegn Rousey þó flestir efist um að úrslitin verði önnur en í hinum viðureignunum.

Joe Lauzon sigraði Takenori Gomi en endirinn á bardaganum vakti mikla athygli. Lauzon var með góða stöðu og lét höggin dynja á Gomi þangað til Lauzon ákvað að stöðva bardagann sjálfur. Lauzon hafði fengið nóg þar sem hann vissi að Gomi var meðvitundarlaus. Gomi var ein af fyrstu hetjum Lauzon og fannst honum leiðinlegt að meiða æskuhetjuna sína. Lauzon sýndi drengskap og sýndi aftur hvaða mann hann hefur að geyma. Flott frammistaða hjá Lauzon.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram á laugardaginn þar sem Ronda Rousey mætir Bethe Correira á UFC 190.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular