spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC: Jacare vs. Mousasi

Mánudagshugleiðingar eftir UFC: Jacare vs. Mousasi

UFC Fight Night: Jacare v Mousasi

Síðastliðinn föstudag var UFC Fight Night: Jacare vs. Mousasi bardagakvöldið í Connecticut í Bandaríkjunum. Bardagakvöldið var frábær skemmtun en sex af níu bardögum enduðu með annað hvort rothöggi eða uppgjafartaki.

Jacare Souza sigraði Gegard Mousasi í aðalbardaga kvöldsins. Jacare náði Mousasi niður í öllum lotunum áður en hann hengdi Mousasi með “guillotine” hengingu í 3. lotu. Þetta var í fyrsta sinn síðan 2006 sem Mousasi tapar með uppgjafartaki og í þriðja sinn á ferlinum. Jacare er nú kominn ansi ofarlega á styrkleikalista UFC í millivigtinni og gæti fengið titilbardaga næst. Aftur á móti lét Dana White hafa eftir sér að hann þyrfti einn sigur í viðbót til að fá titilbardaga gegn Chris Weidman.

Stærsta umræðuefni helgarinnar var þó án efa tap Alistair Overeem. Fyrir bardagann var Overeem talsvert sigurstranglegri en andstæðingur hans, Ben Rothwell, en það hjálpaði honum ekkert í bardaganum. Eins og gegn Travis Browne og Antonio Silva var Overeem betri aðilinn framan af þangað til hann rotaðist. Það er óhætt að segja að Alistair Overeem sé, ásamt Cro Cop, einhver mestu vonbrigði í sögu UFC. Overeem kom inn í UFC með K-1, Strikeforce og Dream titilinn að baki og næsti titill átti að vera UFC titillinn. Hann hefur nú sigrað tvo bardaga og tapað þremur – þrjú töp eftir rothögg.

Þetta var í níunda sinn sem Overeem rotast í MMA en að auki hefur hann rotast þrisvar í sparkboxi. Overeem hefur aldrei verið þekktur fyrir að vera með frábæra vörn í MMA og sá veikleiki er enn á ný að koma í bakið á honum. Margir telja að hann sé með glerkjálka en hafa verður í huga að þetta eru 110-120 kg menn að kýla hann óhindrað í hausinn. Það er þó öruggt að hann er ekki með granít harða höku líkt og t.d. Mark Hunt.

Hugsanlega verður Alistair Overeem látinn fara þar sem hann fær vel borgað fyrir hvern bardaga. Það er líklegt að áhorfendur haldi áfram að kveikja á sjónvarpinu þegar hann berst, hvort sem það er til að sjá hann rota eða rotast sjálfur, svo hann gæti fengið fleiri bardaga í UFC.

Matt Mitrione rotaði svo Derrick Lewis eftir aðeins 41 sekúndu og Joe Lauzon og Michael Chiesa háðu skemmtilegan bardaga þangað til hann var stöðvaður af lækni. Chiesa hlaut djúpan skurð í 2. lotu rétt fyrir ofan augað og var bardaginn því stöðvaður þar sem læknirinn taldi að Chiesa gæti ekki séð lengur vegna blóðs. Í heildina var þetta skemmtilegt bardagakvöld og fengu áhorfendur nóg fyrir sinn snúð.

Ben Rothwell Knockouts Alistair Overeem UFC Fight Night 50

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular