Tuesday, May 21, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on ESPN 1

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on ESPN 1

UFC var með fínasta bardagakvöld í Pheonix í Arizona í gærkvöldi. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Cain Velasquez og Francis Ngannou en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Cain Velasquez hafði ekki barist í 953 daga þegar kom að bardaganum gegn Francis Ngannou. Eftir aðeins 26 sekúndur var bardaginn búinn og niðurstaðan gífurlega svekkjandi fyrir Cain.

Cain sagði strax eftir bardagann að vinstra hnéð hefði gefið sig og að Ngannou hefði varla snert sig. Það hefði því aðallega verið hnéð sem felldi hann en ekki höggþungi Ngannou. Sennilega var Cain ekki búinn að horfa á bardagann aftur þegar hann mætti í viðtöl eftir bardagann en Cain fékk tvö stutt en þung högg beint á kjammann rétt áður en hann féll niður. Þegar atvikið er horft í hægri endursýningu má sjá hvernig Cain étur tvö högg áður en hann fellur niður.

Margir hafa bent á að vinstra hnéð virtist hafa verið óstöðugt á opnu æfingunni nokkrum dögum fyrir bardagann og velta margir því fyrir sér hvort Cain hafi verið meiddur fyrir bardagann.

Cain sagði þó eftir bardagann að hann hefði komið í bardagann í 100% standi. Það er þó vel hægt að ímynda sér að Cain hafi verið meiddur en ekki viljað bakka úr bardaganum eftir þessa löngu fjarveru. Það eru þó einungis vangaveltur og getur vel verið að Cain hafi í alvörunni verið í 100% lagi fyrir bardagann.

Þetta var fyrsta bardagakvöld UFC sem var á aðalrás ESPN en fyrri bardagakvöld UFC á þessu ári hafa verið á EPSN+ streymisþjónustunni í Bandaríkjunum og upphitunarbardagar kvöldsins á aðalrás ESPN. Cain var líka í aðalbardaga kvöldsins á fyrsta bardagakvöldi UFC á aðalrás Fox og þar var hann rotaður eftir 64 sekúndur. Cain ekki með góða reynslu af því að vera í fyrstu bardögum UFC á stórum sjónvarpsrásum.

Nú er spurning hvað hinn 36 ára gamli Cain gerir. Miðað við hvernig Cain hljómaði eftir bardagann verður hann frá í einhverja mánuði vegna hnémeiðsla. Hans næstu skref velta allt á hnénu en Cain sagði að hann væri langt í frá hættur. Það var sorglegt að sjá Cain tapa svo snemma eftir svona langa fjarveru og vonandi getum við fengið að sjá hann aftur í búrinu.

Sigur Ngannou er að mínu mati aðeins betri fyrir þungavigtina. Cain og þungavigtarmeistarinn Daniel Cormier eru miklir vinir og hefðu þeir aldrei barist ef svo bæri undir. Ngannou er meira en til í að mæta Cormier og skoraði á hann að hefna fyrir vin sinn.

Núna er Ngannou búinn að vinna tvo bardaga í röð á undir mínútu (Curtis Blaydes og Cain Velasquez) og hefur hann því hrist vel af sér töpin gegn Stipe Miocic og Derrick Lewis. Hann vill aftur fá titilbardaga en það veltur allt á hvað Cormier ætlar að gera næst. Draslið Brock Lesnar, Stipe Miocic og jafnvel Jon Jones gætu allir verið á undan honum í röðinni. Það eru því ekki margir möguleikar í boði fyrir Ngannou á þessari stundu. En hver veit, kannski gæti Brock Lesnar fallið á lyfjaprófi, Jon Jones ekki viljað fara upp í þungavigt og Stipe Miocic ekki fengið titilbardaga?

Embed from Getty Images

Paul Felder sigraði James Vick í frábærum bardaga. Felder náði þar með loksins í sigurinn sem skilar honum á styrkleikalistann og getur hann verið vel sáttur með sigurinn. Felder sýndi líka enn einu sinni hve ótrúlegar harður hann er en eftir bardagann kom í ljós að annað lunga hans féll saman í lok 3. lotu. Felder þurfti því að dvelja lengur á spítala eftir bardagann og var hann ekkert sérstaklega sáttur með það enda er hann með tvö lungu!

Kron Gracie nældi sér svo í auðveldan sigur gegn vel völdum andstæðingi, Alex Caceres. Þetta er fyrsti sigur Gracie fjölskyldunnar síðan Royce Gracie vann UFC 4 útsláttarmótið árið 1994. Núna væri gaman að sjá Kron Gracie fá meiri áskorun eins og t.d. einhvern sem getur varist fellum vel og var í ólympískri glímu. En af hverju ekki að henda honum með Ryan Hall og sjá hvað gerist? Það væri ógeðslega áhugavert að sjá hvernig þetta myndi spilast þó bardagar tveggja frábærra glímumanna geti oft endað sem slappir kickbox bardagar.

Að lokum má nefna að Renan Barao, fyrrum bantamvigtarmeistari UFC sem var taplaus í 33 bardögum í röð og talinn einn af bestu bardagamönnum heims pund fyrir pund, er með einn sigur og sex töp í hans síðustu sjö bardögum. 1-6!! Það er hrikalega slæmt og var hann rotaður illa af Luke Sanders í gær. Fjögur töp í röð hljóta að þýða endalokin á ferli hans í UFC. Þessi 32 ára bardagamaður hefur verið skugginn af sjálfum sér undanfarin ár og ætti sennilega að setja hanskana á hilluna.

Næsta bardagakvöld UFC fer fram í Prag í Tékklandi næstu helgi þar sem þeir Thiago Santos og Jan Blachowicz mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular