spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox: Johnson vs. Bader

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox: Johnson vs. Bader

UFC-on-FOX-18-Johnson-vs-BaderUFC on Fox 18 bardagakvöldið fór fram á laugardaginn og höfðu bardagaaðdáendur eflaust nóg að tala um eftir helgina. Ryan Bader, Ben Rothwell og Sage Northcutt koma allir fyrir í Mánudagshugleiðingunum.

Hræðilegt plan Bader

Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Anthony Johnson og Ryan Bader. Það var augljóst að Bader langaði ekki að fá eitt af þungu höggum Johnson í sig. Hann skaut í fellu nánast frá fyrstu sekúndu og ríghélt svo í „kimura“ takið (þrátt fyrir að eiga lítinn séns á að klára uppgjafartakið) af ótta við að fá ekki högg í sig. Það má vel vera að þetta hafi ekki verið planið frá upphafi að skjóta svona snemma í fellu en kannski hefur Bader bara ekki viljað standa með Johnson lengur en nokkrar sekúndur.

ryan bader anthony johnsonTil að ná manni eins og Johnson niður þarftu að vera tilbúinn til að taka jafnvel við nokkrum höggum til að komast nær honum. Það er hæpið að ná manni eins og Johnson niður, sem glímdi á skólaárum sínum, með fellutilraun langt frá honum og án þess að setja skotið upp með höggum. Það virtist sem Bader hafi ekki verið tilbúinn til að fá nokkur högg í sig og þess vegna skotið í felluna svo langt frá Johnson.

Bader hefur verið hávær á undanförnum mánuðum og óskað eftir titilbardaga. Það kom þó bersýnilega í ljós um helgina að hann er ekki einn af þeim allra bestu í flokknum. Bader gæti kannski fengið titilbardaga á endanum, en hann mun aldrei verða meistari og mun alltaf tapa fyrir þeim allra bestu.

Afrek Ben Rothwell

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mættust þeir Ben Rothwell og Josh Barnett. Rothwell gerði sér lítið fyrir og kláraði Barnett með „gógó“ hengingunni sinni líkt og í síðasta bardaga. Þar með varð hann fyrsti maðurinn til að sigra Josh Barnett með uppgjafartaki. Rothwell er óvenjulegur karakter en er nú með fjóra sigra í röð í þungavigt UFC. Af sigrunum fjórum hefur hann klárað alla andstæðinga sína og virðist enn vera að bæta sig 34 ára gamall. Nú hefur Rothwell rotað K-1 Grand Prix meistara og hengt Metamoris heimsmeistara. Það er afrek sem fáir geta státað af.

Því miður er ekkert um að vera í þungavigtinni nema endalaus bið eftir meisturunum. Fabricio Werdum tók beltið af Cain Velasquez í júní og átti að verja það í fyrsta sinn í febrúar áður en báðir meiddust. Sennilega mun UFC reyna að setja aftur saman bardaga Velasquez og Werdum en á sama tíma þurfa þeir Stipe Miocic, Alistair Overeem og Ben Rothwell að bíða eftir sínu tækifæri. Í rauninni geta þeir allir gert tilkall til titilbardagans en gætu þurft að bíða ansi lengi.

sage tapar 1

Sage Northcutt gafst upp

Sage Northcutt tapaði fyrir Bryan Barbarena eftir „arm-triangle“ hengingu og vakti tapið mikla athygli. Enginn getur sagt til um hversu þétt hengingartakið var nema Sage Northcutt en eins og þetta leit út í sjónvarpinu virtist Barbarena ekki vera kominn með henginguna þegar Northcutt gafst upp. Það leit út fyrir að Sage Northcutt hafi einfaldlega gefist upp þar sem hann var í slæmri stöðu og langaði ekki að vera þarna.

Northcutt gerði líka slæm mistök í upphafi annarrar lotu þegar hann reyndi nokkurs konar stökkspark sem misheppnaðist og endaði hann á bakinu þegar 30 sekúndur voru liðnar af lotunni. Þarna var hann kominn undir gegn manni sem vildi allan tímann taka Northcutt niður. Þarna kom bersýnilega í ljós hversu reynslulaus og hrár hann er sem bardagamaður. Northcutt átti í miklum erfiðleikum með að standa upp gegn Cody Pfister og var kominn í sömu vandræði eftir mislukkað spark.

Northcutt hefur eflaust aldrei verið í jafn erfiðum bardaga og aldrei þurft að ganga í gegnum slíka erfiðleika eins og á laugardaginn. Það mun bara hjálpa honum að vaxa sem bardagamaður og getur hann gert margt gott úr þessu tapi. Til þess að vaxa sem best ætti hann að æfa meira hjá Tristar undir handleiðslu Firas Zahabi. Northcutt æfði ekkert hjá Tristar fyrir þennan bardaga og er pabbi hans einn af hans aðal þjálfurum. Það hefur kannski gengið ágætlega hingað til en ætli Northcutt sér að vera með þeim bestu í UFC þarf hann að vera meira hjá heimsklassa þjálfurum eins og Zahabi.

Margir hafa gagnrýnt Northcutt og hlegið að honum eftir bardagann og þar á meðal kollegar hans í UFC. Maður myndi kannski búast við slíkum ummælum frá aðdáendum en ekki frá kollegum hans sem hafa barist á þessu getustigi. Ummælin lykta af biturð og öfund og er engum til framdráttar.

Það er síður en svo auðvelt að berjast í MMA, á þessu getustigi, fyrir framan svo marga áhorfendur og hvað þá ef þú ert 19 ára. Matt Brown komst vel að orði þegar hann sagði að frammistaðan í búrinu sýni hvaða mann þú hefur að geyma.

Um helgina gafst hann auðveldlega upp þegar á móti blés, en hvað gerir hann næst þegar hann lendir í erfiðleikum?

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular