UFC hélt um helgina bardagakvöld í Milwaukee í Bandaríkjunum en kvöldið var nokkuð stórt fyrir léttvigtina. Kvöldið var það síðasta í UFC on Fox röðinni.
Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Kevin Lee og Al Iaquinta öðru sinni. Þegar þeir börðust fyrst, árið 2014, var það fyrsti bardagi Kevin Lee í UFC og Iaquinta hafði betur á stigum. Fyrir þennan bardaga var Lee með miklar yfirlýsingar um hversu mikið betri hann væri orðinn á meðan Iaqunita væri nánast sami bardagamaður.
Bardaginn var að mestu frekar jafn en Iaquinta hafði þó ítrekað betur standandi og virtist vanka Lee að minnsta kosti í tvígang. Bestu augnablik Lee voru á gólfinu en mjög góð glímuvörn Iaquinta hélt honum inni í bardaganum. Að lokum var það Iaquinta sem vann nokkuð skýran og sanngjarnan sigur á Lee. Sigur Iaquinta kom kannski einhverjum á óvart en þegar uppi er staðið virðist hann einfaldlega vera betri bardagamaður.
Iaquinta hefur nú komið sterkur inn í léttvigtina á þessu ári. Hann átti góða frammistöðu gegn Khabib Nurmagomedov eftir að hafa komið inn með sólarhrings fyrirvara og náði svo flottum sigri um helgina. Fasteignasalinn gæti farið að blanda sér í toppbaráttuna og eru margir spennandi bardagar framundan fyrir hann í léttvigtinni. Vonandi heldur hann sér á góðu nótunum við UFC svo við fáum að sjá hann í búrinu.
Næstsíðasta bardaga kvöldsins var beðið með mikilli eftirvæntingu. Þar mættust þeir Edson Barboza og Dan Hooker, einnig í léttvigt. Edson Barboza er mikill reynslubolti með átta ára sögu að baki í UFC. Barboza er þó aðeins 32 ára gamall og enn í fullu fjöri. Barboza er þekktur fyrir að vera einn rosalegasti sparkarinn í UFC en hann er reyndar með brúnt belti í brasilísku Jiu-Jitsu líka. Dan Hooker er minna þekktur en hann hafði unnið sjö af tíu bardögum sínum í UFC fyrir bardaga helgarinnar.
Bardaginn var spennutryllir þar sem Barboza og Hooker skiptust á höggum og spörkum. Flestir hefðu talið það óðs manns æði að fara í spark keppni við Barboza en Hooker hafði trú á sér og lét vaða. Það reyndist hins vegar slæm hugmynd þar sem Barboza fór að raða inn lágspörkum í ökkla Hooker sem hafði sýnileg áhrif. Auk þess vann hann vel í skrokknum sem að lokum gerði útslagið í þriðju lotu. Hooker sýndi samt þrátt fyrir tap að hann er einn af þeim bestu í léttvigt og klárlega einn af þeim hörðustu. Skrokkhöggin sem hann át hefðu gert út af við flesta ef ekki alla aðra og sennilega mun fyrr.
Sigurinn var mjög mikilvægur fyrir Barboza þar sem hann hafði tapað tveimur bardögum í röð, þ.e. fyrir Kevin Lee og Khabib Nurmagomedov. Hann mun sennilega halda stöðu sinni sem einn af topp fimm bestu í þyngdarflokknum. Sá næsti sem ætlar að nota hann sem stiga upp á við ætti kannski að nota glímuna frekar en að standa fyrir framan hann og sparka.
Í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins mættust þeir Jim Miller og Charles Oliveira einnig í léttvigt og einnig í annað sinn. Miller hafði sigrað Oliveira árið 2010 en í þetta sinn varð niðurstaðan allt önnur. Reyndari og öruggari útgáfa af Oliveira stökk á Miller, náði honum listavel í gólfið og afgreiddi hann fljótlega með „rear-naked choke”. Það er ekkert smá afrek þar sem Miller er ekkert grín á gólfinu og svart belti í brasilísku jiu-jitsu. Oliveira bætti met sitt yfir flesta sigra eftir uppgjafartök í UFC með sínum 12. sigri. Það verður gaman að fylgjast með Oliveira þar sem hann virðist vera kominn á skrið.
Bardagi Joaquim Silva og Jared Gordon var valinn besti bardagi kvöldins. Bardaginn var jafn og spennandi en að lokum var það Silva sem rotaði Gordon í þriðju lotu. Báðir þessir kappar eru efnilegir og gætu hugsanlega unnið sig upp í topp 15 í léttvigt á næsta ári svo það er þess virði að hafa auga með þeim.
Þá er bara eitt UFC bardagakvöld eftir á árinu en það fer fram þann 29. desember í Las Vegas. Það verður ekkert smá bardagakvöld enda fáum við að sjá Jon Jones mæta Alexander Gustafsson og Cris ‘Cyborg’ Justino mæta Amöndu Nunes.