spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Rotterdam

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Rotterdam

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

UFC bardagakvöldið í Rotterdam fór fram í gær og er óhætt að segja að kvöldið hafi verið frábær skemmtun. Í Mánudagshugleiðingunum förum við vel yfir bardaga Gunnars og förum yfir allt það markverðasta við kvöldið.

Gunnar Nelson sigraði Albert Tumenov með hengingu í 2. lotu. Þetta var einn besti sigur hans á ferlinum, ef ekki sá besti, og sýndi Gunnar allar sínar bestu hliðar.

Gunnar var árásargjarn frá fyrstu mínútu sem við erum ekki vön að sjá. Eftir um tíu sekúndur hafði Gunnar strax kýlt Tumenov. Hvenær sáum við síðast Gunnar kýla á fyrstu tíu sekúndum bardagans? Hefur það áður gerst?

Það var frábært að sjá þessa árásargirni og kom Gunnar Rússanum Tumenov í opna skjöldu með hraða sínum. Tumenov átti í vandræðum með gagnárásir sínar þar sem Gunnar var yfirleitt farinn áður en Tumenov gat svarað.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Núna getur maður ekki beðið eftir að sjá Gunnar aftur eftir þessa frammistöðu. Hann talaði um á blaðamannafundinum eftir bardagann að hann ætlaði að vinna í nokkrum hlutum og mun hann vonandi halda áfram að bæta sig. Þegar Gunnar er „on“ eru fáir sem geta stoppað hann.

Fyrir bardagann töluðu erlendir sérfræðingar um að Tumenov væri of góður standandi og að Gunnar væri ekki með nægilega góðar fellur til að ná bardaganum í gólfið. Gunnar svaraði þessum sérfræðingum ágætlega enda hafði hann betur en Tumenov standandi og tók hann tvisvar sinnum niður. Það verður þó að hafa í huga að sérfræðingarnir voru að miða við Rick Story bardagann en við vitum að Gunnar hefur tekið miklum framförum síðan þá.

Við skulum heldur ekki gleyma því að Albert Tumenov er ekkert grín. Hann hafði unnið fimm í röð í UFC og voru margir á því að hann væri einn besti sparkboxarinn í veltivigtinni.

Þessi frammistaða sendi skýr skilaboð til þyngdarflokksins og sérfræðinga en vonandi kemst Gunnar á gott skrið og heldur áfram að bæta sig.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Overeem í titilinn

Alistair Overeem átti mjög góða frammistöðu gegn Andrei Arlovski. Með sigrinum er hann nánast kominn með titilbardaga gegn sigurvegarnum úr viðureign Fabricio Werdum og Stipe Miocic. Sá bardagi fer fram um helgina en eins og sagan hefur sýnt gæti sá bardagi þess vegna farið aftur fram ef útkoman er vafasöm eða bardaginn frábær.

Loksins gæti Overeem verið nálægt eina stóra titlinum sem hann á eftir að vinna. Hann á nefnilega alveg góðan séns hvort sem hann mæti Werdum eða Miocic. Overeem hefur þegar sigrað Werdum (í skrítnum bardaga) og gæti jafnvel verið þungavigtarmeistari UFC í lok árs. Það virtist vera afar fjarlægt þegar Overeem var að láta Antonio ‘Bigfoot’ Silva og Travis Browne rota sig. Þetta sýnir enn og aftur að það er aldrei hægt að afskrifa neinn í þungavigtinni.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Struve með kærkominn sigur

Stefan Struve mun kannski aldrei verða meistari en sigurinn í gær var gríðarlega mikilvægur fyrir hann. Hann var á heimavelli og hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika á undanförnum árum. Struve sagði við okkur fyrir bardagann að ef hann gerir sitt muni hann stoppa Bigfoot. Það gerði hann svo sannarlega og á aðeins 16 sekúndum. Þessi bardagi sagði okkur kannski ekki mikið um Struve sem bardagamann í dag en hann hefur alla burði til að gera betur en hann hefur gert á undanförnu – nú þarf hann bara að gera það.

Bigfoot Silva leit ekki vel út í vigtuninni í gær og ekki vel í bardaganum. Hann er núna með fimm töp í síðustu sjö bardögum og allt eftir rothögg. Undir öllum kringumstæðum myndi maður gera ráð fyrir að hann yrði látinn fara úr UFC en þungavigtin er alltaf öðruvísi. Svona stórir bardagamenn eru ekki á hverju strái og kannski vill UFC ekki leyfa honum að fara til Bellator. Silva er ekkert á því að hætta og ætlar að halda áfram þrátt fyrir hans áttunda tap eftir rothögg.

Germaine de Randamie var ein af stjörnum kvöldsins. Hún átti frábært kvöld, fékk sennilega bestu móttökurnar frá áhorfendum og kláraði Anna Elmose í 1. lotu. Þetta var gríðarlega einhliða bardagi og getur maður ekki annað en vorkennt Elmose enda var þetta nánast ógjörningur að sigra í gær. Elmose var að berjast sinn fyrsta bardaga í UFC, gegn konu á heimavelli, margföldum heimsmeistara í Muay Thai og talsvert hærri. Í hvert sinn sem de Randamie náði hné hrópuðu áhorfendur. Það hlítur að hafa verið erfitt fyrir jafn óreynda bardagakonu og Elmose.

Næsta bardagakvöld er risastórt. UFC 198 fer fram í Brasilíu og er bardagakvöldið stútfullt af frábærum bardagamönnum. Eins og áður segir mun Fabricio Werdum berjast um þungavigtartitilinn við Stipe Miocic í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular