UFC er með fínasta bardagakvöld í Greenville í kvöld. Þegar bardagar kvöldsins eru skoðaðir er eitt nafn sem stendur upp úr – Matt Wiman.
Matt Wiman hefur ekki barist síðan í nóvember 2014. Lítið hefur heyrst í honum síðan þá og var talið að hann væri einfaldlega hættur. Hann var síðan óvænt bókaður í bardaga gegn Luis Pena sem fer fram í kvöld og verður það hans fyrsti bardaga í tæp fimm ár.
Matt Wiman er 35 ára gamall í dag og verður bardaginn í kvöld hans 16. í UFC. Margt hefur breyst síðan Wiman barðist síðast eins og þessi mynd sem ESPN birti sýnir.
Things were different the last time we saw Matt Wiman #UFCGreenville pic.twitter.com/hES6BQtzgd
— ESPN MMA (@espnmma) June 21, 2019
Johny Hendricks var þá ríkjandi meistari í veltivigt og Fabricio Werdum var nýkrýndur bráðabirgðarmeistari í þungavigt. Andstæðingur hans í kvöld, Luis Pena, var ekki einu sinni búinn að taka sinn fyrsta atvinnubardaga. Hinn 25 ára gamli Pena tók sinn fyrsta atvinnubardaga í MMA í september 2016, tveimur árum eftir að Wiman barðist síðast.
Wiman hefur verið að glíma við meiðsli en látið afskaplega lítið fyrir sér fara. Wiman hefur ekki viljað fara í viðtöl og er í raun ekki vitað hvers vegna hann hefur ákveðið að berjast aftur núna.
Bardaginn er fjórði bardagi kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í Greenville í kvöld en bardagakvöldið hefst kl. 20:00 í kvöld.