Saturday, April 27, 2024
HomeForsíðaMikael Leó: Vil sanna fyrir sjálfum mér að ég eigi heima þarna

Mikael Leó: Vil sanna fyrir sjálfum mér að ég eigi heima þarna

Tveir Íslendingar keppa á Heimsbikarmóti áhugamanna í MMA í næstu viku. Annar þeirra er Mikael Leó Aclipen sem hefur æft bardagaíþróttir síðan hann var 8 ára gamall.

Þeir Mikael Leó og Aron Franz Bergmann keppa í næstu viku á mótinu sem fram fer í Prag. Aron er 19 ára gamall og Mikael 18 ára gamall og því keppa þeir í 18-21 árs flokki. Þetta er í fyrsta sinn sem IMMAF (alþjóðlega MMA sambandið) heldur heimsbikarmót en hafa haldið heimsmeistaramót frá 2015 og munu halda slíkt í nóvember.

Mikael Leó byrjaði 8 ára gamall í barnastarfi Mjölnis. Hann hefur síðan þá lagt mikinn metnað í æfingar sínar og er margfaldur Íslandsmeistari í brasilísku jiu-jitsu (BJJ). Í næstu viku mun hann keppa sinn fyrsta MMA bardaga.

„Þetta verður bara gaman. Ég er spenntur fyrir því að fara að gera þetta loksins og spenntur að sjá hvernig það er að keppa í MMA. Spenntur og forvitinn,“ segir Mikael.

Það var í raun algjör tilviljun að Mikael byrjaði að æfa BJJ sem 8 ára pjakkur. Mamma hans, Lára Dís Richharðsdóttir, var í Víkingaþrekinu í Mjölni og þótti það ansi hentugt að láta Mikael æfa á sama stað og á sama tíma og hún.

„Mamma var í Víkingaþrekinu og mig langaði í það líka en það var ekki í boði. Síðan fer ég í krakkatímana í jiu-jitsu og fannst það gaman. Ég var ekkert að pæla í MMA fyrst en ég var byrjaður að glíma og var svo að leika mér að kýla í púða og fannst það bara nátturulegt. Síðan voru Conor [McGregor] og Gunni [Nelson] alltaf að æfa þarna og ég sá þá berjast og þá fór ég að pæla meira í MMA. Þetta bara gerðist og meikaði sense fyrir mig. Mér fannst gaman að glíma og gaman að kýla og langaði að prófa þetta allt,“ segir Mikael en hann stefnir á að verða atvinnumaður í MMA.

Eins og áður segir er Mikael að fara í MMA bardaga í fyrsta sinn. Hann keppir í junior flokki (18-21 árs) á Heimsbikarmótinu og ræðst því ekki á garðinn þar sem hann er lægstur fyrir sinn fyrsta bardaga.

„Ég býst við að allir þarna verði geðveikt góðir eða ég vona það allavegna. Sá sem vann minn flokk árið 2019 var hellaður og það sem ég hef séð af gæjum sem keppa í mínum flokki lítur út eins og þetta sé mjög hátt level. Ég er bara glaður að ég sé 100% að fara á móti einhverjum sem er geðveikt góður. Ég er ekki að fara á móti einhverri pulsu.“

Mikael keppir í bantamvigt (61 kg flokkur) og eru níu keppendur skráðir í flokkinn í ár. Sigurvegarinn á Evrópumótinu í ár í bantamvigt keppir líka á Heimsbikarmótinu en sá kemur frá Tajikistan og er ósigraður. Keppt er á fjórum keppnisdögum og þurfa þeir sem fara í úrslit að berjast fjóra bardaga á jafn mörgum dögum. Það er því ljóst að það verður ekkert gefins á þessu móti.

„Ég held að það verði margir wrestlerar þarna. Svona Khabib týpur. Allir vilja líka glíma á svona móti til að taka sem minnstan skaða og ég mun gera það líka. Það verður erfitt að keppa svona marga bardaga á stuttum tíma ef ég kemst langt en er bara spenntur að sjá hvernig líkaminn verður. Vonandi verð ég ekki í einhverju spennufalli og þreyttur í höndunum eftir fyrsta bardagann t.d. en ef það gerist þá gerist það bara. Allir verða frekar sjúskaðir þarna þegar líður á og maður verður bara að láta sig hafa það.“

Mikael hefur alla tíð lagt mikið upp úr því að borða hollt. Hann borðar ekki skyndibita, nammi, drekkur ekki gos og hefur ekki gert svo árum skiptir. Þrátt fyrir það hefur hann þurft að vera mjög agaður í mataræðinu í sumar til að létta sig fyrir mótið. Mikael þarf að geta vigtað sig inn 61 kg á hverjum keppnisdegi og þá er ekki í boði að vera í vandræðum með niðurskurðinn nokkra keppnisdaga í röð.

Ásgeir Marteinsson, vinur Mikaels, er nemi í næringarfræði og hann hefur verið að aðstoða Mikael við að léttast. Ásgeir fer einnig út með Mikael ásamt þjálfurum.

„Mataræðið hans Mikaels hefur alltaf verið mjög hollt og hann er þekktur fyrir að borða mjög mikið. Hann borðaði áður í rauninni hvað sem hann vildi og eins mikið og hann vildi. Hann byrjaði að fá mikinn áhuga á lyftingum og massaðist mjög hratt upp og þyngdist hratt líka. Þegar við fengum að vita að hann væri að fara keppa á HM í 61 kg flokki þýddi það að við þyrftum að breyta mataræðinu hans mjög mikið,“ segir Ásgeir.

„Hann byrjaði að létta sig þegar hann var 68 kg. Fyrir hefðbundinn bardaga með vigtun daginn áður hefði cuttið verið mjög stutt og auðvelt en fyrir IMMAF er vigtun dag eftir dag sem þýðir að við verðum að halda sömu þyngd allan tímann. Nýja mataræðið gengur út á að gefa líkamanum það sem hann þarf, þegar hann þarf það. Markmiðið er að brenna eins mikilli fitu og við getum án þess að tapa vöðvamassa. Við gerum þetta með því að gefa líkamanum bara kolvetni fyrir æfingar og auka protein inntöku á móti svo líkaminn brýtur ekki niður vöðvamassa fyrir prótein. Við höfum einnig verið að vinna með 24 klst föstur á dögum sem hann æfir ekki sem hafa skilað miklum árangri,“ segir Ásgeir.

Mikael er ekkert of hrifinn af minni matarskömmtum en lætur sig hafa það fyrir stórmótið. „Mér finnst mjög leiðinlegt að skera niður. Ég elska mat rosalega mikið og finnst erfitt að vera að skammta sér matinn og borða ákveðið magn á hverjum degi. En þetta gengur vel. Það koma dagar þar sem ég er frekar orkulaus en því meira sem ég geri því betur gengur það. Ég hef alltaf borðað frekar hollt en kannski erfitt að geta ekki fengið sér auka skammt.“

Mikael keppti 10 ára gamall á sínu fyrsta glímumóti og er margfaldur Íslandsmeistari. Hann hefur nokkrum sinnum unnið Mjölnir Open unglinga og er núna farinn að keppa í fullorðinsflokkum. Hann vann -66 kg flokkinn á Mjölnir Open fyrr á þessu ári og varð Íslandsmeistari fullorðinna í BJJ 2019. Í vor tók hann sinn fyrsta box bardaga en nú er komið að alvörunni – MMA bardagi á Heimsbikarmóti.

„Þetta verður örugglega miklu meira intense en allt annað sem ég hef prófað. Þetta verður óþægilegra og skrítnara en verður bara gaman. Býst við að þetta verði 100% meira stressandi og erfiðara en að keppa t.d. í BJJ en samt svipað.“

„Þegar ég var yngri þá var ég alltaf stressaður fyrir BJJ mót en það hefur breyst. Foreldrarnir mínir eru örugglega stressaðri en ég fyrir mótin núna. Því oftar sem ég keppi því betur líður mér en maður verður samt alltaf smá stressaður. Mér finnst ég bara betri núna að díla við þessa stress tilfinningu heldur en áður. Ég þarf bara að róa mig niður og njóta þess að keppa.“

Þar sem Mikael setur allan sinn fókus á MMA hefur hann farið erlendis í æfingaferðir til Bandaríkjanna og Írlands. Mikael æfði hjá Kings MMA í Los Angeles og MMA Lab í Arizona með topp æfingafélögum og þjálfurum. Rafael Cordeiro er yfirþjálfari hjá Kings MMA en hann hefur þjálfað menn á borð við Beneil Dariush, Fabricio Werdum, Kelvin Gastelum, Wanderlei Silva og Marvin Vettori. John Crouch er yfirþjálfari hjá The MMA Lab en þar æfa menn eins og Jared Cannonier, Alex Caceres, Ben Henderson og fleiri.

„Það hefur alltaf gengið mjög vel og fengið jákvæðar móttökur þegar ég fer út og mikið hrós frá æfingafélögum og þjálfurum. Margir hafa áhuga á að maður sé frá Íslandi og svona. Mér gengur yfirleitt mjög vel að glíma við alla. Glíman er sérstaða Mjölnis myndi ég segja. Mér líður mjög vel þegar ég glími við alla í Dublin og sérstaklega í Kings MMA, þar sem glímulevelið þar er ekkert rosalega hátt en eru auðvitað mjög góðir standandi. Í MMA Lab eru margir wrestlerar og það var mjög gaman að glíma við þá.“

„Ég hef lært mikið af þessum æfingum og fengið góð ráð frá þjálfurum þar sem ég hef nýtt mér þegar ég kem heim. John Crouch vildi sjá mig nota hendurnar meira og fór ég strax að vinna að því þegar ég kom heim. Rafael Cordeiro var skemmtilegur kall og kallaði mig future champ sem var bara gaman að heyra.“

Mikael var ákveðin barnastjarna í bardagaíþróttum á Íslandi. Hann byrjaði snemma að vinna mót og birtist viðtal við hann í Íslandi í dag 2017 sem vakti athygli. Mikael finnur fyrir áhuga á sér þar sem margir eru spenntir að sjá hvernig honum muni ganga í MMA en lætur það ekki hafa mikil áhrif á sig.

„Mér fannst aðallega pirrandi þegar ég var yngri að það voru allir að búast við að ég myndi rústa öllum á mótum. Mér fannst það leiðinlegt. Þá fór það í hausinn á mér að ef ég myndi ekki rústa einhverjum þá myndi það líta illa út. Mér finnst skemmtilegra núna að fara á móti stærri og reyndari andstæðingum í fullorðinsflokkum.“

„Ég finn stundum fyrir athygli og pressu en ekki á neikvæðan hátt. Finnst alveg gaman þegar fólk er að hrósa mér og peppa mig en finnst samt alltaf eins og ég þurfi fyrst og fremst að sanna fyrir sjálfum mér. Þess vegna er ég svo spenntur fyrir þessu móti því ef mér gengur vel þá er ég að sanna fyrir sjálfum mér að ég eigi heima þarna. Þá veit ég hvar ég stend því ég er að búast við að allir gæjarnir þarna verði hellað góðir. Ég veit að ég er alveg góður en líður bara eins og ég þurfi að sanna mig fyrir sjálfum mér áður en fólk fer að gefa mér einhvern stimpil um að ég sé svona góður.“

Markmiðið í Prag er einfalt: „Vinna gull. Ekkert annað. Væri hellað að vera Íslendingur og vinna gull. Og svo borða mikið þegar ég er búinn, njóta aðeins og halda áfram að æfa og keppa aftur sem fyrst.“

Strákarnir halda út á mánudaginn og verður síðan dregið í flokka á þriðjudaginn. Fyrsti keppnisdagur er síðan á miðvikudaginn og er hægt að fylgjast með mótinu á IMMAF.TV gegn áskriftargjaldi.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular