Þjálfari Santiago Ponzinibbio, reynsluboltinn Mike Brown, spjallaði við okkur í dag um bardaga Santiago og Gunnars Nelson. Brown segist sjá marga veikleika hjá Gunnari.
Mike Brown er einn af aðalþjálfurunum hjá American Top Team í Flórída og þaulreyndur í bransanum. Brown barðist 35 bardaga á ferlinum og þar af voru fimm í UFC áður en hann hætti árið 2013. Hann átti sín bestu ár í WEC þar sem hann var fjaðurvigtarmeistari áður en ungur Brasilíumaður að nafni Jose Aldo tók beltið af honum.
Í dag er hann mikils metinn þjálfari hjá American Top Team. Þar æfa heimsklassa bardagamenn á borð við Amanda Nunes, Joanna Jedrzejczyk, Jorge Masvidal, Junior dos Santos, Dustin Poirier og auðvitað Santiago Ponzinibbio og fleiri.
Brown segir að það séu fáir sem leggi jafn hart að sér eins og Santiago og er það afrek út af fyrir sig í svo stórum bardagaklúbbi líkt og American Top Team er. Hann er stöðugt að bæta sig og er afslappaður karakter.
Brown býst við að sjá það sama frá Gunnari líkt og í hans síðustu bardögum. „Hann mun nota fótavinnuna úr karate til að vera hreyfanlegur. Koma svo með beina hægri og clincha og ná fellu úr clinchinu. Stundum fer hann í double leg en oftast fer hann í fellu úr skrokklásnum (e. bodylock). Miðað við hvernig Santiago er standandi býst ég við að það verði leikáætlun hans.“
Brown segist sjá marga veikleika hjá Gunnari. „Ég sé marga veikleika en ætla ekki að segja of mikið um þá. Menn hafa sýnt að hann er með holur í leik sínum. Rick Story gerði mjög vel í þeirra bardaga. Ég held að það sé meira en ein leið til að vinna þennan bardaga.“
Mike Brown ferðast mikið sem þjálfari en hann var til að mynda alla síðustu viku í Las Vegas með Amöndu Nunes en hún átti verja bantamvigtartitil sinn þar. Hann kom til Skotlands á þriðjudagskvöldið og er nánast hverja einustu helgi í horninu hjá bardagamönnum sínum. Hann viðurkennir að mikið hafi verið um ferðalög undanfarið en er þakklátur fyrir að vera í þessari stöðu.
„Þegar þú elskar það sem þú gerir þarftu ekki að vinna það sem eftir lifir ævinnar,“ sagði Mike Brown að lokum.