Eins og við greindum frá í október var hreyfingarsérfræðingurinn Ido Portal í Dublin til að aðstoða Conor McGregor. Portal fór fögrum orðum um þá Gunnar og Conor.
Portal kemur frá Ísrael og byrjaði 15 ára að stunda Capoeira. Síðan þá hefur hann verið heltekinn af hreyfingum mannslíkamans og hefur ferðast um heiminn til að vinna með dönsurum, íþróttamönnum, bardagamönnum, læknum, fjölleikaflokkum og jógum til að skoða hreyfingar mannslíkamans.
Conor McGregor fékk Portal til að koma til Dublin nýlega og lærðu þeir Gunnar mikið af honum. „Þeir eru gagnteknir af hreyfingum. Þetta er þráhyggja allan sólarhringinn. Þetta var það eina sem við töluðum bara um hvort sem það var við matarboðið eða í bílnum og auðvitað á dýnunum,“ segir Portal á heimasíðu sinni um kappana.
Portal segir þá báða vera auðmjúka og sanna bardagalistamenn. „Conor var stöðugt að þakka mér fyrir að deila þekkingu minni, dembdi í mig gjöfum, frábærum máltíðum og var örlætið uppmálað. Mjög sterkur karakter, klár, kraftmikill en líka mjúkur, íhugull og næmur.“
„Gunnar er heltekinn af dýraríkinu sem er ástríða sem við deilum. Hann er sérstök persóna og hreyfir sig á sérstakan máta. Gunnar gerir hlutina á sinn hátt og gerir þá vel.“
Gunnar hefur dvalið í Dublin undanfarinn mánuð við æfingar fyrir bardagann sinn þann 12. desember. Þá mætir hann Demian Maia á UFC 194 en á sama bardagakvöldi mætir Conor McGregor Jose Aldo um fjaðurvigtarbeltið.
Hér að neðan má sjá þá kappana æfa með Portal.