spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaNokkrar ástæður fyrir því að þú ættir að horfa á UFC um...

Nokkrar ástæður fyrir því að þú ættir að horfa á UFC um helgina

Þessi helgi er sérstök fyrir alla UFC-aðdáendur því að þessu sinni fara tveir viðburðir fram á sama degi, annars vegar í Þýskalandi og hins vegar í Brasilíu. Alls eru þetta 22 bardagar og það verður því stanslaus UFC dagskrá frá því um miðjan laugardag fram á sunnudagsmorgun. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að þú ættir ekki að missa af bardögum helgarinnar.

UFC Fight Night: Munoz vs. Mousasi, sem verður í Berlín, byrjar kl. 16:30 á okkar tíma og The Ultimate Fighter Brazil 3 Finale: Miocic vs. Maldonado, sem fer fram í São Paulo í Brasilíu, hefst kl. 22:30.

ufc-berlin

  • Bardagarnir í Berlín byrja á skikkanlegum tíma og taka ekki allt kvöldið. Það getur verið þreytandi að þurfa alltaf að vaka fram á nótt til að horfa á beinar útsendingar frá UFC og því er alltaf ánægjulegt þegar viðburðir fara fram í Evrópu. Þeir sem vilja fara út á lífið á laugardagskvöldi geta líka að þessu sinni horft á bardagana í Berlín og farið út eftir það í stað þess að geyma glápið til sunnudags. Aðal hluti bardagakvöldsins byrjar kl 19 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
  • Vaughan Lee var fáránlega flottur í síðasta bardaga. Eftir misjafnt gengi stóð Lee sig mjög vel gegn Nam Phan á lokakvöld TUF í Kína sem fór fram 1. mars. Þar sáum við alveg nýja og endurbætta útgáfu af Lee, sem var öryggið uppmálað og beitti stórglæsilegri höggtækni til að rífa Phan niður. Hann mætir Iuri Alcântara í Berlín og það verður spennandi að sjá hvort hann haldi áfram á sömu braut. Lee er með þrjá sigra og þrjú töp í UFC en tvö af þessum töpum komu gegn Raphael Assuncao og TJ Dillashaw.
  • Luke Barnatt gegn Sean Strickland. Luke Barnatt er áhugaverður og efnilegur bardagamaður sem mætir Sean Strickland á aðalhluta bardagakvöldsins í Berlín. Strickland er ekki síður efnilegur og hefur bardagaskorið 14-0 þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall. Þetta verður án efa fjörugur bardagi, þeir eru báðir ósigraðir og gífurlega hungraðir og aðeins fimm af 22 samanlögðum sigrum þeirra hafa endað í dómaraúrskurði.
  • Kemst Carmont aftur á skrið? Eftir sex sigra í röð stöðvaði Ronaldo ‘Jacare’ Souza sigurgöngu Carmont. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig honum vegnar gegn hinum öfluga C.B. Dollaway, sem gæti komist inn á topp 15 á styrkleikalista UFC með sigri, en Carmont er í því níunda.
  • Bæði Mousasi og Munoz verða að vinna. Margir voru spenntir að sjá Mousasi í UFC en hann hefur ekki staðið undir væntingum í fyrstu tveimur UFC bardögum sínum. Munoz hefur heldur ekki litið vel út upp á síðkastið og bara unnið einn af síðustu þremur bardögum. Þeir mætast í aðalbardaganum í Berlín. Tap í þessum bardaga sendir þá báða í frjálst fall á styrkleikalista UFC svo það má búast við miklum átökum.

TUF Brazil 3

  • Alltaf brjáluð stemmning á viðburðum í Brasilíu. Brasilíumenn taka íþróttir alvarlega og þegar UFC heldur viðburði í Brasilíu er höllin alltaf full frá fyrsta bardaga. Brasilíumenn berjast eins og ljón gegn útlendingum í heimalandinu og yfirleitt sér maður mikið af fallegu jiu-jitsu á viðburðum í Brasilíu. Þeir sem hafa fylgst með þessari seríu af The Ultimate Fighter í Brasilíu bíða auk þess eflaust spenntir eftir því að sjá sigurvegara seríunnar krýnda.
  • Klikkhausinn Rony Jason. Hinn ástríðufulli Rony Jason vann fyrstu seríu af The Ultimate Fighter í Brasilíu og hefur náð góðum árangri í UFC eftir það, unnið fjóra og tapað einum og á m.a. hraðasta sigur með uppgjafartaki í fjaðurvigtardeildinni. Hann er skemmtilegur bardagamaður og mætir hættulegum andstæðingi, Robbie Peralta, í fyrsta bardaganum á aðalhluta bardagakvöldsins í Brasilíu.
  • Maldonado gegn Miocic verður harður. Stipe Miocic er með mjög öflugan grunn í glímu en hefur einbeitt sér að höggtækni undanfarið og náð góðum árangri. Maldonado er frægur fyrir að vera frábær boxari sem er betri en flestallir í UFC í skrokkhöggum en Miocic hefur líklega mikið forskot í glímunni. Maldonado er þó ekki síður þekktur fyrir að gefast aldrei upp, bakka ekki og þola endalausar barsmíðar, svo það verður ekki auðvelt fyrir Miocic að klára Maldonado. Miocic er þó mun stærri en Maldonado, sem berst yfirleitt í léttþungavigt og það gæti verið erfitt fyrir Maldonado að standa af sér þung högg frá Miocic. Það er allavega nokkuð víst að þessi aðalbardagi kvöldsins verður mjög harður.
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular