1

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 179

Banner-UFC179Annað kvöld fer UFC 179 fram þar sem Jose Aldo og Chad Mendes mætast um fjaðurvigtarbeltið. Bardagakvöldið fer fram í Rio de Janeiro í Brasilíu og hefst aðalhluti bardagakvöldsins kl 2 á Stöð 2 Sport. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því af hverju þú ættir ekki að láta þetta kvöld framhjá þér fara.

  • Jose Aldo Knees and Pounds Chad Mendes - UFC 142Jose Aldo berst! Þrátt fyrir að hafa ekki alveg sýnt sömu takta í UFC líkt og í WEC (minni bardagasamtök sem UFC keypti) þá býr Aldo yfir þessari sérstöku áru sem trekkir að. Þetta er ára ósigranleika og geta aðdáendur búist við að sjá eitthvað ótrúlegt í búrinu líkt og þegar Anderson Silva var uppi á sitt besta. Þú vilt einfaldlega ekki missa af því að sjá Aldo berjast!
  • Nær Chad Mendes að hirða titilinn? Þetta verður í annað skipti sem þeir Aldo og Mendes mætast en í fyrri bardaganum á milli þeirra rotaði Aldo Mendes þegar 1 sekúnda var eftir að fyrstu lotu. Bardaginn var umdeildur í ljósi þess að í nokkur skipt greip Aldo í búrið sem hjálpaði honum að standa af sér fellutilraunir Mendes. Hefur Mendes bætt sig nógu mikið frá því hann mætti Aldo síðast eða mun Aldo ná að verja titil sinn í enn eitt skiptið?
  • Hvernig kemur Glover Teixeira til baka? Brasilíumaðurinn Glover Teixeira mætti Jon Jones um léttþungavigtarbeltið í apríl á þessu ári og beið lægri hlut eftir dómaraákvörðun. Tapið var hans fyrsta í níu ár og verður gaman að sjá hvernig hann mun koma til baka eftir tapið.
  • Wrestling vs. BJJ? Phil Davis var framúrskarandi glímumaður í bandarísku háskólaglímunni og var meistari í efstu deild í bandarísku háskólaglímunni. Glover Teixeira er gott svart belti í brasilísku jiu-jitsu en hann vann sér inn þátttökurétt á ADCC 2011 í Nottingham en mótið er sterkasta uppgjafarglímumót heims. Það verður því gaman að sjá þessa tvo ólíku glímustíla eigast við annað kvöld.
  • Skemmtilegur glímubardagi: Annar skemmtilegur glímubardagi gæti átt sér stað milli Carlos Diego Ferreira og Beneil Dariush. Dariush er margverðlaunaður glímumaður og hlaut m.a. silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu í brasilísku jiu-jitsu sem brúnbeltingur. Ferreira er enginn aukvissi sjálfur í gólfinu en hann hefur sigrað sex af sínum bardögum með uppgjafartaki og er annarrar gráðu svartbeltingur í jiu-jitsu. Vonandi verður þetta ekki slappur sparkbox bardagi eins og á til að gerast milli tveggja gólfglímukappa.
  • Gilbert Burns berst sinn 2. UFC bardaga: Gilbert Burns er enn einn gólfglímusérfræðingurinn á þessu bardagakvöldi en hann mætir Christos Giagos í einum af upphitunarbardögum kvöldsins. Burns sigraði Mundials (heimsmeistaramótið í BJJ) árið 2011 og tók heimsmeistaratitil í nogi 2010 og 2013. Hann er gríðarlega spennandi bardagamaður og æfir hjá Blackzilians í Flórída.
Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

One Comment

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.