Tuesday, June 18, 2024
spot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 203

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 203

ufc203UFC 203 fer fram í kvöld og eru margir spennandi bardagar á dagskrá. Þungavigtarbeltið er í húfi og þá mun CM Punk loksins berjast sinn fyrsta bardaga. Hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

  • Hver er besti þungavigtarmaður heims? Stipe Miocic og Alistair Overeem mætast í aðalbardaga kvöldsins. Sigurvegarinn mun ganga úr búrinu sem þungavigtarmeistari UFC og bera titilinn „baddest dude on the planet“ eins og Joe Rogan orðar það. Þungavigtarbeltið hefur hoppað á milli manna eins og heit kartafla og virðist fáum takast að halda beltinu lengi. Í kvöld er fyrsta titilvörn Stipe Miocic. Tekst honum að verja beltið?
  • Fullkomnar Alistair Overeem safnið? Alistair Overeem hefur átt ótrúlegan feril og unnið titla í Strikeforce, Dream, K-1 og er eini bardagamaðurinn sem hefur verið handhafi þriggja stórra titla á sama tíma í MMA. UFC beltið er eiginlega eina stóra beltið sem hann á eftir að vinna. Kemst hann í sögubækurnar með sigri á Stipe Miocic.
  • Getur CM Punk eitthvað? Það hefur verið mikið skrifað um CM Punk og hans fyrsta MMA bardaga. Í kvöld er loksins komið að þessu og fáum við að sjá hversu lélegur eða góður hann er í raun og veru. Hann mætir Mickey Gall og eru ekki margir sem hafa trú á því að Punk geti unnið.
  • Lengi lifir í gömlum glæðum? Það hefur lítið farið fyrir bardaga Urijah Faber og Jimmie Rivera.  Hinn 37 ára gamli Faber virðist vinna alla nema meistarana og spurning hvort það sama verði upp á teningnum í kvöld. Faber hefur gælt við að hætta og spurning hvort hann sé enn með hugann við íþróttina.
  • Magnaður kvennabardagi: Joanne Calderwood mætir Jessica Andrade í frábærum kvennabardaga. Báðar nældu þær sér í góða sigra síðast og sigruðu fyrrum titiláskorendur. Joanne Calderwood kláraði Valerie Létourneau með tæknilegu rothöggi í 3. lotu en meistaranum Joanna Jedrzejczyk tókst ekki að klára Létourneau er þær mættust. Jessica Andrade valtaði yfir Jessica Penne í júní en þetta var frumraun hennar í strávigt. Líklega verður sigurvegarinn komin ansi nálægt titilbardaga og er þetta einn af áhugaverðustu bardögum kvöldsins.
  • Hvernig kemur Werdum til baka? Fabricio Werdum var gríðarlega svekktur eftir tap sitt gegn Stipe Miocic fyrr í ár. Hann vildi koma til baka sem fyrst og mætir Travis Browne í kvöld. Það verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur til leiks í kvöld enda ekki langt síðan hann var rotaður illa (maí 2016). Werdum og Browne mættust í apríl 2014 þar sem Werdum fór með sigur af hólmi og er Browne staðráðinn í að ná fram hefndum á sama tíma og Werdum ætlar að drífa sig í að ná í þungavigtarbeltið aftur.

Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23 og verður í beinni á Fight Pass rás UFC.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular