Friday, March 29, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 209

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 209

Núna um helgina átti að fara fram besta UFC kvöld ársins til þessa á pappírum í það minnsta. Bardagakvöldið er ekki eins gott eftir að einn mest spennandi bardagi ársins datt út. Hér eru nokkrar ástæður til að kíkja á bardagana.

Bardagi kvöldsins var án efa á milli Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson en því miður verður ekki af þeim bardaga þar sem flytja þurfti Nurmagomedov á spítala eftir erfiðleika við að ná vigt.

MMA guðirnir geta verið grimmir eins og við öll þekkjum. Í raun er varla hægt að leyfa sér að hlakka til fyrr en bardagamenn eru komnir í búrið. Þessi vonbrigði eru sérstaklega erfið þar sem þessi bardagi var fullkominn stormur á milli tveggja frábærra bardgamanna á besta aldri. En þerrum tárin, eftir stendur nokkuð gott kvöld, kíkjum á það helsta.

  • Verður undradrengurinn meistari? Síðan Stephen Thompson slátraði Johny Hendricks á tæpum fjórum mínútum hafa MMA aðdáendur beðið eftir að hann fengi beltið um mittið. Hann var nálægt því þegar hann barðist síðast við Tyron Woodley en hér fær hann annað tækifæri. Síðasti bardagi var jafntefli svo spurningin er hvor hefur lært meira á andstæðinginn. Fyrsti bardaginn var algjört stríð, þessi ætti að verða beint framhald af því.

  • Stjarna á uppleið: Lando Vannata er ekki bara með eitt svalasta nafnið í UFC heldur er hann hrikalega spennandi bardagamaður á hraðri uppleið. Í hans fyrsta bardaga í UFC gaf hann Tony Ferguson mikla mótspyrnu en þurfti að játa sig sigraðan eftir uppgjafartak. Í hans öðrum bardaga gaf hann okkur flottasta rothögg síðasta árs gegn John Makdessi. Nú mætir hann spennandi bardagamanni frá Svíþjóð, David Teymur, sem mun sjálfur vilja rota Vannata og skjóta sér þannig upp á við.
  • Timbur! Mark Hunt og Alistair Overeem eru báðir höggþungir sparkboxarar með mikla reynslu. Báðir munu leita að rothögginu svo það má búast við sprengjuregni þegar þessir tveir mætast. Þessar goðsagnir mættust þó áður árið 2008 í Dream þar sem Overeem sigraði með uppgjafartaki. Það má því búast við öllu. Hér má sjá fyrsta bardagann í heilu lagi:

  • Einn sá efnilegasti í fjaðurvigt: Mirsad Bektic er 4-0 í UFC og hefur litið ótrúlega vel út. Hann æfir hjá American Top Team og hefur allt til brunns að bera til að verða topp bardagamaður. Hann mætir Darren Elkins í kvöld en bardaginn er einn af upphitunarbardögum kvöldsins. Með sigri fer Bektic að banka á dyrnar hjá þessum topp 10 bardagamönnum. Kapparnir eru hlið við hlið á styrkleikalistanum (13 og 14) og ætti þetta að verða hörku bardagi.
  • Hversu góður er Luke Sanders? Hinn 31 árs Luke Sanders leit virkilega vel út í frumraun sinni í UFC í janúar í fyrra. Hann hefur ekkert barist síðan þá og verður gaman að sjá hann aftur í búrinu eftir langa fjarveru. Í nótt mætir hann Iuri Alcantara og verður það alvöru próf fyrir Sanders. Sanders er 11-0 og æfir hjá The MMA Lab í Arizona ásamt mönnum eins og Ben Henderson.
  • Fjör í léttþungavigt: Skotinn Paul Craig (9-0) mætir Ástralanum Tyson Pedro (5-0) í léttþungavigt. Hvorugur hefur farið allar loturnar og hafa báðir klárað alla bardaga sína. Samanlagt eru þeir með 12 sigra eftir uppgjafartök og verður gaman að sjá þá eigast við annað kvöld.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst á miðnætti en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular