Þessa dagana á sér staða UFC maraþon. Bardagakvöldið í Skotlandi hefur þó að geyma nokkra gullmola sem sannir MMA aðdáendur munu ekki vilja missa af.
Á undanfarinni viku hafa verið þrjú bardagakvöld svo það er skiljanlegt ef fólk er farið að þreytast. Bardagakvöldið á morgun er það fyrsta sem haldið verður í Skotlandi.
- Hugsanlega síðasta tækifæri Michael Bisping: Michael Bisping hefur um áraraðir verið stór stjarna í UFC. Hann hefur hins vegar aldrei barist um titil í 23 bardögum sínum í UFC. Bisping dreymir því um titilbardaga en verður að sigra Thales Leites núna um helgina til að halda draumnum á lofti. Leites er reynslumikill bardagamaður, með svart belti í Brasilísku jiu-jitsu og hefur unnið átta bardaga í röð. Þetta verður því alls ekki auðvelt fyrir Bretann.
- Tveir harðir reynsluboltar mætast í léttvigt: Hvorki Ross Pearsson né Evan Dunham eru á topp 15 á styrkleikalista UFC en báðir vilja komast þangað. Báðir þessir kappar eru þekktir fyrir hörku, góða tækni og skemmtilega bardaga. Hvor þeirra tekur skref áfram að þessu sinni?
- Sjáið manninn sem sigraði Conor McGregor: Joseph Duffy er sá síðasti sem sigraði írsku stórstjörnuna Conor McGregor. Hann afgreiddi McGregor á 38 sekúndum með „arm-triangle“ hengingu árið 2010 og hefur nú hafið innrás sína í UFC. Hann rotaði fyrsta andstæðing sinn í UFC í mars á tæpum tveimur mínútum og mætir núna Ivan Jorge sem er með 26 sigra á bakinu og státar svörtu belti í brasilísku jiu-jitsu. Það er áhugavert að Joseph Duffy er aðeins með blátt belti í brasilísku jiu-jitsu en er hins vegar með svart belti í japönsku jiu-jitsu. Munurinn er fyrst og fremst sá að brasilíska tæknin leggur meiri áherslu á gólfglímu á meðan sú japanska er meira standandi.
- Hvernig kemur JoJo til baka eftir erfitt tap? Íslandsvinkonan Joanne Calderwood er ein efnilegasta bardagakonan í strávigt kvenna og vermir nú 9. sætið á styrkleikalista UFC. Í síðasta bardaga mátti hún hins vegar þola sitt fyrsta tap á ferlinum og ljótt var það. Hún leit hreint út sagt illa út, var lamin standandi og tapaði á „armbar“ á 90 sekúndum í Póllandi. Andstæðingurinn að þessu sinni er nýliðinn Cortney ‘Cast Iron’ Casey sem hefur klárað síðustu þrjá andstæðinga í fyrstu lotu.
- Írska eimreiðin heldur áfram: Cathal Pendred og Conor McGregor hafa báðir barist í júlí en nú er röðin komin að ‘The Hooligan’. Patrick Holohan er efnilegur bardagamaður í fluguvigt og fær hér nokkuð erfitt próf. Andstæðingur hans að þessu sinni er Englendingurinn Vaughan Lee sem berst sinn 8. bardaga í UFC. Áfram írland!
- Góð tímasetning: Fyrsti bardaginn hefst kl 14 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 17 að íslenskum tíma. Það er ekki oft sem við fáum bardaga í beinni á svo góðum tíma hér í Evrópu og því um að gera að nýta tækifærið og horfa frá fyrsta bardaga.
Þetta er reyndar fjórða bardagakvöldið á einni viku en þið gleymduð alveg að fjalla um fight night 71 á miðvikudagskvöldið þar sem Mir vs Duffee áttust við.
Það var UFC á laugardag, sunnudag, miðvikudag og svo aftur í dag, laugardag.