Í kvöld fer fram lítið bardagakvöld í Utah í Bandaríkjunum. Það eru ekki mörg stór nöfn þarna en þó má búast við nokkrum mjög skemmtilegum bardögum.
- Main event snilld: Aðalbardaginn í kvöld er á milli Yair Rodriguez og Alex Caceres. Báðir eru þeir ótrúlega skemmtilegir bardagamenn sem láta allt vaða og taka miklar áhættur. Gott dæmi er rothögg Rodriguez á Andre Fili fyrr á árinu. Þetta gæti orðið stutt en mjög skemmtilegt gaman á morgun á milli Rodrigeuz og Caceres.
- Fjaðurvigtin býður upp á fjör: Rony Jason mætir Dennis Bermudez í skemmtilegum fjaðurvigtarslag. Báðir bardagamenn eru þekktir fyrir að vera í skemmtilegum bardögum og ætti bardaginn í kvöld ekki að valda vonbrigðum.
- Gamall Íslandsvinur mætir Argentínumanni: Zak Cummings hefur verið á góðu skriði síðan hann tapaði fyrir Gunnari Nelson árið 2014. Cummings er núna 4-1 í veltivigtinni og mætir Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio sem hefur einnig verið á góðu skriði. Ponzinibbio hefur klárað tvo bardaga í röð eftir flott rothögg og verður gaman að sjá hvað hann gerir í kvöld.
- Cub Swanson er gleymdur en ekki grafinn: Annar bardagi kvöldsins er einn áhugaverðasti bardagi kvöldsins. Cub Swanson mætir þá Tatsuya Kawajiri í fjaðurvigt og er þessi bardagi eflaust að fara framhjá mörgun. Ekki er langt síðan Swanson var á sex bardaga sigurgöngu og nálægt titilbardaga. Tvö töp í röð gegn Frankie Edgar og Max Holloway hafa fellt hann neðar í goggunarröðina en síðast sáum við Swanson vinna Hacran Dias eftir dómaraákvörðun. Sannfærandi sigur í kvöld gegn Kawajiri kemur honum aftur í stóru bardagana.