Annað kvöld fer fram UFC on Fox 12 bardagakvöldið í San Jose í Kaliforníu. Eins og venjan er með Fox bardagakvöldin eru fjórir bardagar á aðalhluta bardagakvöldsins og eru alltaf skemmtilegir bardagar á dagskrá á þessum viðburðum. Hæst ber að nefna gífurlega mikilvægan bardaga Robbie Lawler og Matt Brown en hér eru nokkrar ástæður fyrir því af hverju þú ættir ekki að láta þetta bardagakvöld framhjá þér fara.
- Matt Brown gegn Robbie Lawler gæti orðið besti bardagi ársins: Þetta hljómar eins og klisja og eitthvað sem Dana White myndi láta út úr sér en þetta er einfaldlega satt. Báðir bardagamenn eru þrælskemmtilegir og eru alltaf að leitast eftir rothögginu. Þegar slíkir bardagamenn koma saman er voðinn vís! Ekki fara að pissa eða ná í kaffi á meðan þessi bardagi er, bardaginn gæti endað á svipstundu og þú vilt ekki missa af því!
- Eru samanlegt með 31 rothögg: Robbie Lawler hefur sigrað 19 bardaga eftir rothögg og Matt Brown hefur sigrað 12 bardaga eftir rothögg. Það má því segja að allt bendi til þess að þessi bardagi endi með rothöggi.
- Lil Nog er heill: Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá mun Lil Nog berjast annað kvöld en hann hefur fimm sinnum þurft að draga sig úr bardaga í UFC vegna meiðsla. Bardaginn annað kvöld verður hans annar bardagi á síðustu þremur árum. Það er ekki á hverjum degi sem áhorfendur fá að sjá Lil Nog berjast en hann mætir Anthony Johnson.
- Anthony Johnson getur stimplað sig inn í titilbaráttuna: Síðan Anthony Johnson ákvað að fara upp í léttþungavigt hefur hann litið mjög vel út og er ósigraður þar. Hann sigraði óvænt Phil Davis eftir dómaraákvörðun í apríl á þessu ári og með sigri annað kvöld getur hann stimplað sig rækilega inn í titilbaráttuna. Daniel Cormier og Alexander Gustafsson eiga þó eftir að berjast við Jones (sigri hann Cormier í september) fyrst áður en Johnson getur farið að hugsa um titilbardaga.
- Nær Guida að stöðva sex bardaga sigurgöngu Bermudez? Nokkuð óvænt er Dennis Bermudez á sex bardaga sigurgöngu. Fremur lítið hefur farið fyrir honum síðan hann tapaði í úrslitum TUF fyrir Diego Brandao en er þrátt fyrir það á langri sigurgöngu. Sigri hann á morgun hefur hann sigrað sjö bardaga í röð í fjaðurvigtinni en fáir geta státað af jafn langri sigurhrynu í fjaðurvigt UFC.
- Tveir efnilegir mætast á Fight Pass: Einn af upphitunarbardögunum á Fight Pass er bardagi Gilbert Burns og Andreas Ståhl. Burns er þrefaldur heimsmeistari í BJJ og var gólfglímuþjálfari Vitor Belfort í fyrstu seríu TUF: Brazil. Hann er ósigraður í MMA og mætir öðrum ósigruðum bardagamanni annað kvöld, Andreas Ståhl. Báðir heyja frumraun sína í UFC annað kvöld en Ståhl er 26 ára sænskur bardagamaður.