Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC on FOX: Emmett vs. Stephens

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC on FOX: Emmett vs. Stephens

Annað kvöld er UFC með bardagakvöld í Orlando í Florida. Stór nöfn eru af skornum skammti en þó eru margir bardagar sem verða örugglega skemmtilegir.

Var þetta bara heppni hjá Josh Emmett?

Josh Emmett er nafn sem ekki margir þekkja. Hann var bara einn af fjölmörgum bardagamönnum í fjaðurvigt UFC en eftir að hann rotaði Ricardo Lamas óvænt í desember skaust hann fram í sviðsljósið. Eftir þann sigur er hann skyndilega kominn í 4. sæti á styrkleikalista UFC í fjaðurvigtinni. Hann mætir Jeremy Stephens á morgun sem sjálfur situr á topp 10 í fjaðurvigtinni. Takist Emmett að sigra Stephens getur hann innsiglað stöðu sína meðal þeirra bestu í fjaðurvigtinni. Var síðasti sigur bara smá heppni hjá Josh Emmett eða er hann svona góður?

Næsti áskorandi í strávigt kvenna?

Afar mikilvægur bardagi fer fram í strávigt kvenna á kvöldinu. Þær Tecia Torres og Jessica Andrade eru með þeim betri í strávigtinni. Sigurvegarinn hér gæti vel fengið næsta titilbardaga eftir að þær Joanna Jedrzejczyk og Rose Namajunas hafa útkljáð sín mál á UFC 223 í apríl. Bolabíturinn Andrade hefur hlotið frammistöðubónus eða bónus fyrir besta bardaga kvöldsins í síðustu þremur sigrum sínum og leit mjög vel út síðast. Torres er aftur á móti ekki eins skemmtileg en er aðeins með eitt tap í UFC og fimm sigra. Þetta ætti að verða áhugaverð viðureign.

Mike Perry með enn eitt rothöggið?

Mike Perry hefur unnið alla 11 bardaga sína með rothöggi. Bæði töpin hans hafa hins vegar komið þegar hann nær ekki að rota andstæðinginn og þar af leiðandi tapað eftir dómaraákvörðun. Á morgun fær hann fremur lágt skrifaðan andstæðing, Max Griffin, sem virðist ekki eiga mikla möguleika. Ansi líklegt að við fáum 12. rothöggið frá Mike Perry á morgun.

Gamall Íslandsvinur reynir að komast á sigurbraut

Alan Jouban, sem Gunnar Nelson sigraði fyrir tæpu ári síðan, mætir Ben Sounders í einum af upphitunarbardögum kvöldsins. Jouban hefur tapað tveimur í röð og er hungraður í sigur. Sounders er skemmtilegur bardagamaður eins og Jouban og ætti þetta að verða hörku bardagi.

Ekki gleyma

Angela Hill er ein sú allra skemmtilegast í strávigt kvenna í dag. Hún er sennilega aldrei að fara að vinna titilinn en flestir bardagar hennar reynast vera hin ágætasta skemmtun. Þá mun Renan Barao snúa aftur í bantamvigt og mæta Brian Kelleher. Barao hefur tapað fjórum af síðustu sex bardögum sínum og hefur svo sannarlega átt betri daga. Þá mun Ilir Latifi mæta Ovince St. Preux og gæti sá bardagi endað með flottu rothöggi eða orðið afskaplega tíðindalítill.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 21:15 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 1 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular