UFC var að staðfesta hörku bardaga í veltivigtinni. Fyrrum veltivigtarmeistarinn Robbie Lawler mætir fyrrum léttvigtarmeistaranum Rafael dos Anjos.
Bardaginn verður aðalbardaginn á UFC bardagakvöldinu í Winnipeg þann 16. desember. Hér eru tveir fyrrum meistarar að takast á.
Robbie Lawler tapaði veltivigtartitli sínum til Tyron Woodley í júlí 2016. Hann snéri aftur eftir eins árs hlé í júlí í fyrra þegar hann sigraði Donald Cerrone í frábærum bardaga.
Rafael dos Anjos hefur átt góðu gengi að fagna eftir að hann færði sig upp í veltivigt eftir langa veru í léttvigt. Dos Anjos byrjaði á að sigra Tarec Saffiedine í júní og fór svo létt með Neil Magny í september.
Dos Anjos var léttvigtarmeistari UFC um skeið en eftir tvö töp í röð í léttvigtinni fór hann upp í veltivigtina. Dos Anjos hefur áður lýst hræðilegum niðurskurði sínum niður í léttvigt og er kominn til að vera í veltivigtinni.
Líklegt þykir að sigurvegarinn hér fái næsta titilbardaga í veltivigtinni. Meistarinn Tyron Woodley er nú að jafna sig á meiðslum og ólíklegt að hann berjist aftur á þessu ári.