Thursday, October 3, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSantiago Ponzinibbio: Hef ekki áhyggjur af því sem Gunnar ætlar að gera

Santiago Ponzinibbio: Hef ekki áhyggjur af því sem Gunnar ætlar að gera

Santiago Ponzinibbio mætir Gunnari Nelson í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Skotlandi. Í nýlegu viðtali segist hann geta klárað Gunnar standandi og í gólfinu.

Argentínumaðurinn Santiago Ponzinibbio hefur verið á góðu skriði undanfarið og fær nú sinn stærsta bardaga á ferlinum.

„Ég bjóst við að fá stóran bardaga. Ég er með fjóra sigra í röð og klárað tvo af þeim með rothöggi í 1. lotu og tvo eftir dómaraákvörðun á heimavelli andstæðinganna. Þannig að ég bjóst við að fá stóran bardaga. Ég bjóst við mikilvægum bardaga og er ánægður með að vera í aðalbardaganum gegn góðum íþróttamanni eins og Gunnari Nelson. Hann hefur átt góðan feril í UFC,“ segir Ponzinibbio í viðtali við MMA Fighting.

Ponzinibbio er með sex sigra og tvö töp í UFC og verður bardaginn gegn Gunnari hans 28. á ferlinum. Ponzinibbio telur sig vita nákvæmlega hvað Gunnar ætlar að gera gegn honum og mun koma vel undirbúinn til leiks.

„Hann er með góða fótavinnu, góða hægri hönd en besta vopnið hans er gólfglíman hans. Ég veit hvað hann mun reyna að gera. Hann mun ekki koma mér á óvart og skiptast á höggum við mig. Þegar hann finnur fyrir pressunni frá mér mun hann fara í fellur. Ég veit það. En ég mun koma vel undirbúinn og á enn nokkrar vikur eftir í undirbúning þannig að ég mun vera upp á mitt besta. Þetta verður besta augnablik ferilsins og hef ekki áhyggjur af því sem hann ætlar að gera. Ég hef trú á mér og mínum þjálfurum.“

Gunnar Nelson Santiago Ponzinibbio

Ponzinibbio hefur nú unnið fjóra bardaga í röð og sýnt bætingar eftir að hann fór að æfa hjá American Top Team í Flórída. Þar hefur hann allt til alls og ætlar hann ekki að fá til sína sérstaka æfingafélaga til að undirbúa sig fyrir Gunnar.

„Ég er með Rodolfo Vieira og Antonio Carlos Junior, af hverju ætti ég að þurfa að fá fleiri glímumenn?“ segir Ponzinibbio en Vieira er margfaldur heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu og Carlos Junior á sjálfur heimsmeistaratitil á ferilskránni en hann berst í millivigt UFC.

„Ég er með marga frábæra æfingafélaga hér og verð tilbúinn í bardagann. Ég veit að ég er mjög höggþungur. Ég verð tilbúinn í fimm lotur ef þess þarf en stefni á að klára bardagann. Ef sigurinn kemur snemma, frábært, en ég mun hafa fullkomna leikáætlun.“

Bæði töp Gunnars hafa verið eftir dómaraákvarðanir og hefur hann því aldrei verið kláraður. Ponzinibbio er sannfærður um að hann geti orðið sá fyrsti til að klára Gunnar og jafnvel með uppgjafartaki.

„Þetta er MMA, ekki jiu-jitsu. Þetta er ólík íþrótt. Ég er með frábæra jiu-jitsu þjálfara og æfingafélaga og hef æft jiu-jitsu í mörg ár. Glíman mín er þétt og nákvæm. Ég hef ekki áhyggjur af því sem hann er góður í, ef hann gefur mér opnun mun ég ná honum.“

Ponzinibbio veit að þetta verður hans stærsti bardagi í ferlinum og mun sigur gegn Gunnari koma honum ofar á styrkleikalistann.

„Sigur kemur mér einu skrefi nær beltinu. Fókusinn er á þennan bardaga en sigur á honum kemur mér nær toppnum. Ég myndi svo fá topp fimm andstæðing síðar í ár til að komast enn nær titlinum. Núna einbeiti ég mér bara á að vinna þennan bardaga gegn Gunnari Nelson. Beltið er lokatakmarkið en núna einblíni ég á Nelson.“

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular