Sigurjón Rúnar Vikarsson keppir sinn fyrsta MMA bardaga annað kvöld. Þá mætir hann Ross Mcintosh á Headhunters bardagakvöldinu í Skotlandi.
Sigurjón Rúnar er 26 ára vefforritari í markaðsdeild Nova en hann byrjaði að æfa í Mjölni haustið 2015. Sumarið 2016 hóf hann að æfa með Keppnislið Mjölnis eftir að hafa prufað nokkra MMA 101 tíma. „Ég hafði þá lengi haft áhuga á sportinu eftir að hafa kynnst því í gegnum UFC. Mér fannst mér vanta bæði andlega og líkamlega áskorun til að takast á við. Ég var orðinn töluvert þyngri en ég hef alltaf verið. Mig langaði að taka bardaga þar sem mig vantaði innblástur til að halda áfram að æfa og taka til í mataræðinu,“ segir Sigurjón.
Áður en Sigurjón fór í MMA hafði hann æft box með hléum frá 2010 og varð Íslandsmeistari í boxi árið 2011. „Ég æfði fótbolta sem krakki og síðan þá hef ég prófað hitt og þetta en ég fýlaði mig aldrei í neinum liðsíþróttum.“
Auk þess að vera með reynslu úr boxi er Sigurjón blátt belti í brasilísku jiu-jitsu. Hann er orðinn mjög spenntur fyrir sínum fyrsta MMA bardaga. „Ég er í besta líkamlega formi sem ég hef nokkurn tímann verið í. Sama hvernig fer á laugardaginn þá mun ég alltaf ganga sáttur frá þessu ævintýri. Ég er ekki ennþá orðinn stressaður og hef nánast áhyggjur af því hversu lítið stressaður ég er. En það á eflaust eftir að skella á þegar nær dregur. Ég held að þetta verði scary en á sama tíma mjög gaman. Ég vona bara að þetta verði jafn og skemmtilegur bardagi.“
Andstæðingur Sigurjóns er líka að taka sinn fyrsta MMA bardaga en bardaginn fer fram í 77 kg veltivigt. „Cuttið hefur gengið mikið betur en ég þorði að vona. Ég var kominn í þá þyngd sem ég vildi vera í fyrir um það bil tveimur vikum síðan og er búinn að vera að halda mér við síðan þá. Síðan ég tók bardagann hef ég tekið af mér rúm 10 kíló.“
Auk Sigurjóns munu þeir Bjartur Guðlaugsson, Bjarki Eyþórsson og Björn Lúkas Haraldsson keppa í Skotlandi. Sigurjón er ekki í nokkrum vafa um hvernig kvöldið mun verða. „Mjölnir fer heim með fjögur ‘W’ frá þessu kvöldi og ég mun eiga eitt af þeim. Það væri alltaf skemmtilegast að klára bardagann snemma en ég ætla ekkert að hugsa út í það. Gríp bara tækifærið þegar það kemur.“