Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaSnorri Barón um markaðsmál UFC, CM Punk, Colby Covington og samfélagsmiðla bardagamanna

Snorri Barón um markaðsmál UFC, CM Punk, Colby Covington og samfélagsmiðla bardagamanna

Auglýsingamaðurinn og umboðsmaðurinn Snorri Barón hefur mikinn áhuga á bardagaíþróttum. Snorri hefur sterkar skoðanir á þeim ákvörðunum og markaðssetningu UFC og tókum við gott spjall með honum um markaðssetningu UFC, samfélagsmiðla og auðvitað CM Punk.

Snorri Barón starfar með íþróttamönnum á borð við Aron Einar Gunnarsson, Hannes Halldórsson, Söru Sigmundsdóttur, Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur og nú nýlega Gunnar Nelson. Þá er hann einnig framkvæmdastjóri Maura en auglýsingastofan gaf nýverið út risastóra HM auglýsingu fyrir Coca-Cola á Íslandi. Snorri hefur lengi fylgst með bardagaíþróttum og er vel inn í MMA heiminum í dag.

Á UFC 225 var fyrrum fjölbragðaglímukappinn CM Punk á aðalhluta bardagakvöldsins. Það var ákvörðun sem þótti gagnrýnisverð enda er CM Punk langt frá því að vera nógu góður bardagamaður til að vera einu sinni að berjast í UFC.

„Þetta er skammsýni, algjör skammsýni. Íþróttin byrjar sem skrípaleikur þegar það var einhver maður í einum hanska og súmómaður að keppa en svo koma alvöru menn inn með smá viðskiptahugsjón og markaðsdrif og breyta þessu yfir í það undur sem við þekkjum í dag. Þeir eru að grafa undan öllu þessu með svona því þeir eru að ala upp kynslóð eftir kynslóð af fólki sem elskar þetta sport eins og þetta raunverulega er. Svo koma þeir með einhvern eins og CM Punk sem er frægur úr einhverjum skrípaleik sem er bara eitthvað fyrir börn eins og Harlem Globetrotters,“ segir Snorri.

„Þegar Mickey Gall tók CM Punk þá átti því bara að ljúka og CM Punk að fara aftast í röðina. En út af því að Bandaríkjamenn elska þetta þá skilur maður alveg smá að honum sé hleypt inn á bardagakvöldið í hans heimaborg Chicago. Ég skil það alveg að það sé eitthvað búið til og það er keyrð upp stemning. Þetta átti samt bara að vera Fight Pass prelim bardagi bara til að fá fólk í húsið snemma. Að hafa þetta á main cardi er til skammar. Og þeir eru bara að stinga í hjartað á fólkinu sem elskar þetta, fólkið sem er að kaupa sér varninginn og lifa sig inn í þetta. Þetta CM Punk lið hefur enga ástríðu fyrir MMA, þau er bara til að sjá hann af því þau eru illa gefin og koma úr einhverju sem er ekki einu sinni íþrótt.“

Dana White sagði fyrir UFC 225 að CM Punk væri þarna til að selja Pay Per View en ekki t.d. Alistair Overeem og Curtis Blaydes. Nýjustu tölur herma að bardagakvöldið hafi aðeins selt 150.000 Pay Per View þó miðasala hafi gengið vel. „CM Punk hefur örugglega haft sín áhrif á miðasölu og PPV sölu. En á lengra samhengið voru þeir að grafa undan íþróttinni sem þeir sitja faktístk einir að. Bellator er no contest, en ef þeir halda áfram í þessum skrípaleik mun einhver annar fá tækifærið til að sýna hvernig á að gera þetta.“

Það vakti athygli að CM Punk fékk rúma 500.000 dollara fyrir bardaga sinn gegn Mike Jackson um síðustu helgi á meðan Holly Holm og Robert Whittaker fengu talsvert minna borgað. „Þarna er bara markaðslögmálið sem ræður ríkjum. Umboðsmaðurinn hans veit samningstöðuna og hvað er verið að meina með þessu, þarna er bara markaðslögmálið og ég ætla ekkert að gagnrýna hver fær hvað borgað. Það er bara samningsstaða hvers og eins, CM Punk er miklu frægari þvert yfir Bandaríkin heldur en Robert Whittaker. Það er svo sem ekkert að því. Bara að hann sé þarna yfir höfuð, það grefur undan íþróttinni sem marktækri íþrótt. Þegar þú tekur það úr er það ekkert skárra en WWE, jafn mikill sirkus og það. Og þá erum við öll búin að tapa.“

UFC er stór markaðsvél sem hefur náð miklum árangri með því að ná að mestu leyti til ungra karlmanna á undanförnum 15 árum og er UFC stöðugt vaxandi. „Vélin sem þeir bjuggu til er frábær. Þeir gera allt vel. Hvernig þeir nota miðlana, hvernig þeir framleiða efni, hvernig Dana White er settur fram sem drottnandi guð yfir þessu öllu saman, hvernig hann hefur skapað sér persónu. Það er ekkert grín að búa svona til, það er ekki fyrr en Fertitta bræðurnir koma sem þetta verður eitthvað af því það verður til eitthvað plan. Jú þeir voru með mikið fé á milli handanna líka en peningar geta ekki keypt þér þetta.“

„Þeir spila á nýju tækin, eru á undan hinum íþróttunum að tileinka sér Twitter, Facebook, Instagram, Youtube og alla þessa miðla og eru með rosa framleiðsludeild í þessu. Þannig búa þeir þetta til. Búa til stjörnurnar á sínum eigin miðlum og eigin notkun. En viðskiptaákvarðanirnar sem þeir hafa tekið nýlega hafa margar hverjar verið vanhugsaðar í lengra samhengi að mínu mati. Rosalega oft hoppað á eitthvað quick cash. Það er komin pínu þreyta í artworkinu líka, dæmi Magny og Gunnar posterinn sem var mjög ljótur. Lack of passion sem er að eiga sér stað en í heild hefur artworkið alltaf verið mjög flott. Á meðan er önnur íþrótt sem ég hef mikinn áhuga á, hnefaleikar, algjörlega í skítnum. Vinsæl íþrótt, miklu meira áhorf á box heldur en MMA ef við tökum bara heiminn, en allt í kringum það er svo ljótt. Léleg dagskrárgerð og framleiðsla í kringum þetta. UFC er með stjórnina á sama tíma.“

„Get borið þetta saman við Crossfit. Það er bara markaðsvél, rosalega margir samnefnarar á milli UFC og Crossfit. Crossfit er bara einkafyrirtæki eins og UFC, fyrirtæki sem fólk keppir hjá. Dæmi um tvær ungar íþróttir sem vaxa í gegnum samfélagsmiðla og í gegnum fólkið sem er innan íþróttanna og svo koma endrum og sinnum týpur eins og Conor McGregor og þá tekur þetta bara stökk.“

UFC var fyrir tveimur árum selt til Hollywood umboðsskrifstofunnar WME-IMG. Umboðsskrifstofan er með marga af stærstu stjörnum heims á samningi hjá sér og var talið að nýir eigendur myndu gera enn betur í að búa til stjörnur. Svo hefur hins vegar ekki verið og virðist UFC eiga í vandræðum með að búa til stór nöfn í dag.

„Ég held að þarna er þetta bara clash of egos. Þetta er vannýtt tækifæri. En spurningin sem ég held að Dana spyr sig, ‘af hverju ætti ég að hleypa einhverjum öðrum svona upp?’ Hann er búinn að bíta í súra eplið gagnvart Conor sem valtar yfir hann á skítugum skónum. Hann vill ekki bjóða öðrum í svona heimsókn. Ég held að það togist á í þeim hversu stóra eigum við að gera þá sem vinna hjá okkur því við viljum ekki þurfa að borga þeim of mikinn pening eða gefa þeim of mikla rödd.“

Colby Covington átti frábæra frammistöðu um síðustu helgi þegar hann sigraði Rafael dos Anjos eftir dómaraákvörðun. Covington verið duglegur að rífa kjaft á samfélagsmiðlum að undanförnu en frammistaðan þar kannski ekki jafn góð og í búrinu. Covington hefur lofað því að fara með bráðabirgðarbeltið til Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og má segja að þeir eigi margt sameiginlegt.

„Colby er að representa þá tegund af fólki. Við í Evrópu höfum minna þol gagnvart þessu en í Bandaríkjunum er hann bara með appelsínugula fyrirmynd fyrir framan sig sem varð forseti á því að hegða sér svona, vera bara að tala í einhverjum einnar setningar atriðum á Twitter. Talar til illa gefins fólks og fær það til að elska sig. Colby er að gera þetta svipað og ég gef honum ekki mikið kredit fyrir að vera klár gaur. En hann er góður bardagamaður og helvíti harður af sér. Þú ert ekkert að vinna Demian Maia og Rafael dos Anjos ef þú ert aumingi. Hann er kominn til að vera.“

Þrátt fyrir að vera hávær og umdeildur er hann ekki með stóran fylgjendahóp eins og er. Covington er með 42.000 fylgjendur á Twitter og 86.000 á Instagram en til samanburðar er Gunnar Nelson, sem segir frekar lítið, með 85.700 fylgjendur á Twitter og 185.000 á Instagram.

„Colby er bara ekkert fyndinn, hann er ekkert klár. En það er einhver á bakvið hann að peppa hann í þetta en eru greinilega ekki búnir að fatta þetta. Hann er einn af umtöluðustu gaurunum í íþróttinni en samt er hann ekki með fleiri fylgjendur en þetta. En fólk ákveður hverjum það fylgir og fólk er að segja mjög skýrt, ‘ég þoli þig ekki’ með því að followa hann ekki. Allir innan MMA vita hver hann er.“

Til samanburðar er Conor McGregor með 7,2 milljón fylgjendur á Twitter. „Hann er sniðugur, hann er frumlegur oft og mjög snar í tilsvörum og þú rekur hann ekkert á gat, lætur hann ekki líta vanræðalega út neins staðar. Hann er bara miklu klárari náungi. Colby hefur horft á þetta og ætlað að gera það líka en svo er hann bara þöngulhaus. Bara fullt af þöngulhausum þarna úti sem kunna að meta þetta og Trump kann pottþétt að meta þetta.“

Greg Hardy fékk nýlega samning hjá UFC eftir sigur í áskorendaseríu Dana White. Hardy er afar umdeildur maður í Bandaríkjunum en hann var fundinn sekur um heimilisofbeldi en þegar hann áfrýjaði niðurstöðu dómsins var málið fellt niður þar sem ekki tókst að fá fórnarlambið til að bera vitni. Hardy var góður leikmaður í NFL deildinni en eftir málið vildi ekkert lið semja við hann. UFC er hins vegar tilbúið að gefa honum tækifæri og hefur Dana sagt að allir eigi skilið annað tækifæri.

„Það er mjög varhugavert. En þetta er badboy sport. Fólk vill halda með mótherjum bad boy strákanna, vilja sjá þá lamda, það er ein breyta í þessu. Það er engin íþrótt þar sem hefndarþorsta er hægt að svala eins vel eins og þarna. Annars veit ég ekki hvað gekk á og hef lítið kynnt mér þetta mál. Dana hefur sínar ástæður fyrir að leyfa þetta.“

„Þetta er samt mjög erfitt út frá PR sjónarmiði og það er ekki nema að það sé eitthvað leikrit tilbúið þar sem fórnarlamb þessa manns spilar með og talar hann upp og segist samgleðjast honum fyrir það hvað hann hefur breyst mikið og hvað þetta sé allt önnur manneskja en hann var og svona. Everybody loves a comeback story. Það er einhvers staðar þarna á bakvið mjög sterk saga sem getur skotið þessum gaur upp á stjörnuhimininn. En vandamálið er að flestir þessir gaurar gera síðan í buxurnar aftur. Eignast pening, beygja út af brautinni og gera eitthvað helmingi verra næst. Og þá springur þetta í andlitið á Dana.“

Stjörnurnar í MMA sem eru þekktar utan MMA heimsins eru ekki margar. Nöfnin sem eru bara þekkt í MMA heiminum eru þó talsvert fleiri og koma ný nöfn inn á hverju ári. En hvernig býr maður til stórt nafn í MMA?

„Það er eins í MMA eins og í öllu öðru, þú þarft að fanga eðli og kjarna viðkomandi aðila, finna hvað er áhugavert og hvað tengir fólk við þennan aðila. Við eigum nokkur nærtæk dæmi hér heima á Íslandi, erum með Gunna og Sunnu sem eru í stóra game-inu. Gunni er mjög áhugaverð manneskja og það hefur tekist að gera hann áhugaverðan því hann kemur rólega fyrir en hann er líka skemmtilegur, hann svarar skemmtilega fyrir og það er stutt í grínið hjá honum. Hann hefur unnið sér inn gott fylgi á því að vera hann sjálfur. Maður getur tengt nokkuð vel við hann og ég hugsa út frá sonum mínum að mér finnst Gunni vera hrikalega flott fyrirmynd. Hans essence er þarna.“

„Ef þú hefur ekkert að segja, ef þú ert ekki spennandi manneskja, ef þú hefur hvorki útlit né karakterinn með þér, þá verðuru að vera þroskaheft góður bardagamaður til að einhver taki eftir þér. Verður að vera svo ógeðslega góð eða góður til að einhver hafi áhuga á þér. Svo þarf að spila á tækin sem eru til. Það er enginn að fara að fylgjast með þér ef þú ert alveg óvirkur á samfélagsmiðlum. Það tekur tíma að byggja þetta upp og er mikil vinna að halda fólki upplýstu um hvað þú ert að gera. Getur slegið í gegn með því að koma þínum karaktereinkennum til skila. Langbest þó að vera hvort tveggja góður í búrinu og áhugaverður karakter.“

Here’s a few clips from the other nights extreme pattycake session.

A post shared by Jon Bones Jones (@jonnybones) on

Margir bardagamenn nota samfélagsmiðlana til að koma sér áfram eða rífa jafnvel kjaft í viðtölum til að vekja á sér athygli. Það skiptir þó öllu fyrir bardagamenn að vera þeir sjálfir.

„Ef þú getur ekki rifið kjaft, ekki gera það! Vertu þú sjálfur alltaf. Vanda til verka, fólk hefur áhuga á ótrúlegustu hlutum sem snúa að lífinu þínu. Hvaða fötum klæðistu, hvaða næringu innbyrðiru, hvernig er dagsrútínan þín, hvernig eru æfingarnar þínar, tónlistarsmekkur, bíómyndir, rammaðu þig inn! Gerðu eitthvað þar sem fólk finnur að það heldur með þér eða ekki, ekki reyna að vera allt fyrir alla. Svo er það þessi tenging við annað íþróttafólk sem fólk á ekki að vera feimið við, nálægðin er svo mikil hér heima. T.d. með fótboltalandsliðið, pósta myndir af sér með landsliðsstrákunum sem hefur verið vinsælt að undanförnu, þetta tengist svo vel. Íslenskt íþróttafólk að hefja hvort annað upp, báðir græða. Mikill ávinningur að hafa þessa tengingu. Ef þú fýlar rapp geðveikt, farðu þá á rapp tónleika og taktu mynd af þér þar. Sýndu að það er lífstíllinn þinn. Koma sjálfum þér á framfæri sem manneskja með einhverjar skoðanir á einhverju.“

Hversu langt þú nærð á samfélagsmiðlum helst samt í hendur við afrek þín í íþróttinni. Þú getur gert góða hluti á samfélagsmiðlum en ef þú stendur þig ekki í búrinu missir fólk áhuganna. Á sama tíma geta menn á borð við Jon Jones, sem er ekki með neitt sérstaklega áhugavert efni á samfélagsmiðlum, náð milljón fylgjendum einfaldlega út af hæfileikum þeirra í búrinu.

„Jon Jones er með marga fylgjendur en það er bara af því hann er svo góður bardagamaður! Hann er með smeðjulegan falskan front, er síðan bara hrotti og fúlmenni, búið að margsanna það, getur ekki hætt að drulla í buxurnar. En auðvitað alltaf á milli tannanna á fólki fyrir vikið, en hann er bara svo góður bardagamaður. Vekur bara aðdáun þar. En það er bara endrum og sinnum sem við erum með fólk sem hafa þessi gæði. Fólk missir áhugann á að fylgjast með þér á samfélagsmiðlum ef þú stendur þig ekki, þá ertu aldrei að skora, þá verður að vera eitthvað ótrúlega gott annað game ef það er ekki.“

„Felice Herrig er ágætis dæmi. Framan af var hún bara að skora á því að vera með nærbuxnamyndir af sér mjög lengi. Fékk mikla mótstöðu því konur í þessum geira lögðu ekki á sig allt þetta erfiði til að vera stimplaðar sem einhverjar bimbos, þær vilja vera metnar af einhverjum allt öðrum verðleikum. Herrig fékk skell á sig reglulega fyrir þetta en er að verða helvíti góð bardagakona í dag. Hún hefur náð að snúa þessu sér í vil. Er ennþá að pósta nærbuxnamyndum en farin að vinna stóru bardagana sína. Var skítsæmileg en tapaði þegar hún var komin í nágrenni við topp 10 en er orðin helvíti góð í dag.“

Bendum áhugasömum á að fylgjast með Baklandi á samfélagsmiðlum en Bakland er umboðsskrifstofa Snorra.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular