UFC 232 fer fram í kvöld þar sem tveir risa titilbardagar verða á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.
Titilbardagi í léttþungavigt: Jon Jones gegn Alexander Gustafsson
Pétur Marinó Jónsson: 5 ára bið gleymist algjörlega út af einhverju lyfjaprófi. Án þess að fara í einhver smáatriði þar þá held ég að Jonathan Dwight Jones sé 100% á sterum. Það er enginn svo óheppinn að falla þrisvar á lyfjaprófi. Hef ekki hundsvit á sterum eða lífefnafræði en hef lesið og heyrt hvað vitrari menn segja um þetta. Það er fræðilegur möguleiki á að svona efni haldist í líkamanum í svona langan tíma eins og USADA vill meina en það hefur aldrei verið sýnt fram á það. Og miðað við söguna hans Jones er ekki erfitt að trúa því að hann sé bara á góðum djúskúr (kannski ekki svo góðum ef það er alltaf að finnast eitthvað).
Nóg um það, spennumagnið mitt er verulegt og ekki mælt í einhverjum píkógrömmum. Jones er frábær bardagamaður í búrinu, ótrúlega snjall í búrinu og ekki með neina almennilega veikleika. Á meðan hann er ekki að berjast getur hann verið að bæta sig tæknilega og það held ég að hann hafi gert í öllum þessum lyfjabönnum. Á meðan hefur Gustafsson mikið verið meiddur en Jones haldist nokkuð meiðslalaus og það er erfitt að bæta sig á meðan maður er meiddur. Þannig að ég held að Jones hafi bara bætt sig meira frá því þeir mættust síðast. Jones var auk þess held ég að vanmeta Gustafsson þegar þeir mættust fyrst og kannski orðinn smá saddur. Núna er langt síðan hann barðist og hungrið til staðar. Gustafsson er líka banhungraður í að vinna hinn umdeilda Jon Jones en ég held að Jones sé bara betri bardagamaður. Jones með TKO í 4. lotu.
Óskar Örn Árnason: Mér finnst verst að þetta lyfjarugl er að skyggja á geggjaðan bardaga en skiptir kannski ekki öllu. Báðir virðist vera mjög einbeittir í Embedded þáttunum og virðast klárir í slaginn. Það er kannski óskhyggja en ég ætla að taka sénsinn á Svíanum. Það er óðs manns æði að spá á móti Jones en ég segi að Gustafsson taki þetta á stigum í trylltum bardaga.
Guttormur Árni Ársælsson: Þvílíkur farsi sem aðdragandinn fyrir þennan bardaga hefur verið. Jones sem fyrr í bullinu að falla á lyfjaprófi fyrir steranotkun en UFC og USADA spinnvélin komin á fullt. Hvað sem þessu líður held ég að þetta verði frábær bardagi. Ég mun halda með Gus en veðja á að Jones taki þetta. Hann hefur einfaldlega bætt sig meira frá fyrri bardaga þeirra tveggja. Ég spái því að Jones reyni að nota fellur meira í þessum bardaga og stöðvi Gus í fjórðu lotu með ground and pound.
Arnþór Daði Guðmundsson: Þrátt fyrir allt þetta PED rugl á Jones þá er hann bara of góður í þessu sporti, með eða án lyfja. Jones sigrar eftir dómaraákvörðun.
Jon Jones: Pétur, Guttormur, Arnþór
Alexander Gustafsson: Óskar
Titilbardagi í fjaðurvigt kvenna: Cris Cyborg gegn Amanda Nunes
Pétur Marinó Jónsson: Frábær bardagi sem hefur dálítið gleymst. Báðar með mikinn höggþunga, harðar, tæknilega góðar og með mörg vopn í vopnabúrinu. Cyborg er samt stærri, sterkari og kraftmeiri held ég. Held smá að Nunes eigi eftir að sjá að það er ástæða fyrir því hvers vegna það eru þyngdarflokkar í MMA. Nunes getur alveg unnið með frábæra leikáætlun, verið mjög hreyfanleg, meitt Cyborg með hröðum en þungum höggum og komið sér frá vandræðum. Einhvers staðar sá ég líka að Nunes er 7-1 þegar hún er underdog hjá veðbönkum og það er hún enn einu sinni núna. Maður hefur samt séð Nunes þreytast þó hún hafi sýnt gott þol í síðasta bardaga (þá var hún líka með algjöra yfirburði). Held það væri sniðugt ef Cyborg myndi aðeins láta hana finna fyrir því í clinchinu til að byrja með, ná smá fellum og þreyta Nunes. Eftir það mun hún halda þessu standandi og vinna þetta nokkuð taktískt. Held að Cyborg komi inn með góða leikáætlun og vinni eftir dómaraákvörðun, jafnvel TKO í 5. lotu. Segjum TKO í 5. lotu, Cyborg vinnur.
Óskar Örn Árnason: Ef einhver á séns í Cyborg þá er það Nunes. Fyrir utan Shevchenko bardagana hefur hún verið mjög sannfærandi og klárlega best í 135 pundunum. Ég held samt að enginn eigi í raun séns í Cyborg, segi Cyborg á TKO í þriðju lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Framan af setti ég spurningamerki við andstæðingana sem Cyborg var að mæta. Hún leit óstöðvandi út en var aldrei að keppa við þær bestu í Strikeforce og Invicta. Eftir sigurinn á Holly Holm tel ég þó að hún hafi svarað mörgum spurningum. Bæði hefur hún sýnt fram á að hún geti verið dominant gegn topp kalíber andstæðing og svo fór hún allar fimm loturnar en það hafði hún aldrei gert áður á ferlinum. Ég á erfitt með að sjá hvernig Nunes vinnur þennan bardaga; ég held að hún sé ekki með nógu gott wrestling til að ná Cyborg niður og ég held að hún sé ekki eins höggþung. Mögulega tekst henni að out-pointa hana standandi en mér þykir líklegra að Cyborg stöðvi Nunes bara í þriðju lotu.
Arnþór Daði Guðmundsson: Ég sé ekki neinn fara að sigra Cyborg þó svo að Nunes sé algjört skrímsli líka. Cyborg sigrar á TKO í 3. lotu.
Cris Cyborg: Pétur, Óskar, Guttormur Arnþór
Amanda Nunes: ..
Veltivigt: Carlos Condit gegn Michael Chiesa
Pétur Marinó Jónsson: Alltaf verið mikill Condit aðdáandi en hann er bara ekki sami bardagamaður og hann var. 7 töp í síðustu 9 bardögum er ekkert spes. Neil Magny og Alex Oliveira náðu að stríða honum í glímunni og held að Michael Chiesa geri það líka. Chiesa klárar Condit með rear naked choke í 2. lotu.
Óskar Örn Árnason: Chiesa er að ná Condit á góðum tíma. Það verður líka gaman að sjá hvernig hann lítur út í veltivigt, ég held að það sé rétti flokkurinn fyrir hann. Chiesa gæti tekið þetta á glímunni sem hefur verið veikleiki Condit en Condit ætti að vera skarpari standandi. Segjum að Chiesa nái að draga þetta nægilega oft niður í gólfið til að sigra á stigum.
Guttormur Árni Ársælsson: Condit hefur alltaf verið með hræðilega felluvörn og Chiesa er þokkalegasti wrestler. Condit er 2-7 í seinustu 9 og hefur tapað fjórum í röð. Ég er eiginlega pínu að vona að hann tapi þessu bara og segi þetta gott. Frábær bardagamaður sem var æsispennandi þegar hann var upp á sitt besta en er löngu búinn, því miður. Chiesa á stigum.
Arnþór Daði Guðmundsson: Held bara að Condit sé búinn auk þess sem að Chiesa verður ekki að drepa sig á cuttinu. Chiesa sigrar með uppgjafartaki í 2. lotu. Segjum triangle.
Carlos Condit: ..
Michael Chiesa: Pétur, Óskar, Guttormur, Arnþór
Léttþungavigt: Ilir Latifi gegn Corey Anderson
Pétur Marinó Jónsson: Er mikill Latifi maður, lítill Anderson maður. Held að Anderson sé líklegri til að vinna fleiri lotur. Hann er góður glímumaður og getur tekið menn niður en Latifi er svo mikill tankur, það er erfitt að taka hann niður og hefur engum tekist það í UFC. Latifi er með rosalega sprengju en á það til að gera ekki neitt í tvær mínútur á meðan hann reynir að ná andanum. Þar gætu verið tækifæri fyrir Anderson að stela lotum og gæti Anderson alveg stolið þessu ef Latifi gasar. Held samt að Latifi roti Anderson bara í 1. lotu.
Óskar Örn Árnason: Hljómar eins og mjög jafn bardagi. Báðir hafa verið aðeins í meðalmennskunni en hafa litið mjög vel út undanfarið. Tek sénsinn á Latifi, hann rotar Anderson í fyrstu lotu.
Guttormur Árni Ársælsson: Ég hef alltaf gaman af hvíta Yoel Romero, Ilir Latifi, en eitthvað segir mér að Anderson taki þetta. Latifi kemur út æstur í fyrstu en klárar svo bensínið og Anderson sigrar á stigum.
Arnþór Daði Guðmundsson: Latifi er alltaf skemmtilegur og Corey er alltaf á barmi þess að taka skrefið í átt að toppnum en tapar þar alltaf. Corey ætti að sigra þennan á dómaraákvörðun eftir þrjár lotur.
Ilir Latifi: Pétur, Óskar
Corey Anderson: Guttormur, Arnþór
Fjaðurvigt: Chad Mendes gegn Alexander Volkanovski
Pétur Marinó Jónsson: Mjög spennandi bardagi í fjaðurvigtinni. Báðir vilja gera það sama – taka andstæðinginn niður og lenda góðum höggum í gólfinu. Mendes er svo sem ekki gamall og leit vel út í endurkominni gegn Myles Jury í sumar. Mendes hefur aldrei verið tekinn niður í UFC og er ég ekki viss hvort Volkanovski geti tekið hann niður. Ég fíla Volkanovski, finnst hann vera mjög góður bardagamaður og verður þetta áhugavert próf fyrir hann. Ég held að Mendes sé aðeins betri í dag og vinnur eftir dómaraákvörðun.
Óskar Örn Árnason: Mendes lítið barist á undanförnum árum eftir lyfjabannið og spurning hvort hann sé samur? Volkanovski er ekkert grín, ég held að Volkanovski taki þetta bara á stigum.
Guttormur Árni Ársælsson: Chad Mendes er frábær bardagakappi sem hefur bara tapað fyrir þremur aðilum: José Aldo, Conor McGregor og Frankie Edgar. Hann leit vel út í endurkomunni gegn Jury og ég er spenntur að sjá hann reyna að hrista upp í fjaðurvigtinni. Mendes nær fellunni trekk í trekk og sigrar Volkanovski á stigum.
Arnþór Daði Guðmundsson: Mendes er kominn aftur, sem er verulega skemmtilegt. Kannski kemst hann aldrei aftur á toppinn í fjaðurvigtinni en hann ætti að sigra Volkanovski í þessum bardaga. Mendes sigrar eftir dómaraákvörðun.
Chad Mendes: Pétur, Guttormur, Arnþór
Alexander Volkanovski: Óskar
Bónusspá Gutta – PEOPLE’S MAIN EVENT – B.J PENN GEGN RYAN HALL:
Þá er loks komið að stundinni sem allir hafa beðið eftir! The Prodigy, B.J. Penn snýr aftur í búrið. Ég sá myndband af honum um daginn þar sem hann var að æfa í gallanum og það segir mér bara að hann sé MOTIVATED. Penn með rear naked choke í 2. lotu.