Saturday, April 20, 2024
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 236

Spá MMA Frétta fyrir UFC 236

UFC 236 fer fram í kvöld í Atlanta þar sem tveir titilbardagar eru á dagskrá. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í léttvigt: Max Holloway gegn Dustin Poirier

Pétur Marinó Jónsson: Frábær bardagi og held að við eigum aldrei eftir að sjá Holloway aftur í fjaðurvigt ef hann vinnur í kvöld. Holloway er búinn að vera með geggjað pace í fjaðurvigtinni og sýndi það gegn Brian Ortega í fyrra. Núna er hann ekki að skera eins mikið niður og býst ég við að hann verði enn betri. En! Aftur á móti er Dustin Poirier sennilega höggþyngri en síðustu andstæðingar Holloway og Dustin er ekki feiminn við að fara í stríð og skiptast á höggum. Hann fór í stríð við Eddie Alvarez og Justin Gaethje, tveir sem eru góðir í þannig bardögum, og vann þá báða. Dustin mun bíta vel frá sér og verður áhugavert að sjá hvernig hakan á Holloway mun standast þyngri höggin í léttvigt. Ég held samt að Holloway sé það góður að hann taki Dustin. Þetta verður nokkuð svipað og gegn Ortega nema Dustin mun eiga fleiri góð augnablik heldur en Ortega gerði. Holloway tekur þetta eftir dómaraákvörðun í geðveikum bardaga sem verður jafn og spennandi þangað til á síðustu sekúndu.

Óskar Örn Árnason: Geðveikur bardagi og spennandi að sjá að Dustin virðist vera í frábæru formi. Ég býst við að Max verði miklu tæknilegri standandi og ef bardaginn helst þannig mun Holloway taka Poirier í sundur. Dustin mun hins vegar reyna fellur og sennilega verður eitthvað um stöðubaráttu upp við búrið. Ég held að Max taki þetta nokkuð örugglega á stigum, gæti meira að segja orðið frekar einhliða.

Guttormur Árni Ársælsson: Rosalega erfitt að spá þessum þar sem ég held mikið upp á báða menn. Poirier er alveg frábær og er búinn að fá frammistöðubónus í fjórum af seinustu fimm bardögum. Ég held að Max eigi eftir að blómstra í léttvigtinni enda var hann að skera virkilega mikið í fjaðurvigt eins og við sáum þegar hann náði ekki léttvigtarmarkinu fyrir bardagann gegn Nurmagomedov. Ég held að Holloway geri nóg til að sigra og spái því að þessi bardagi verði algjört stríð. Holloway með sigur eftir dómaraákvörðun í bardaga kvöldsins.

Max Holloway: Pétur, Óskar, Guttormur
Dustin Poirier: ..

Titilbardagi í millivigt: Kelvin Gastelum gegn Israel Adesanya

Pétur Marinó Jónsson: Ég er aðeins spenntari fyrir Max og Dustin en finnst erfiðara að spá í þennan. Á pappírum ætti Israel Adesanya að vinna. Hann er með góða felluvörn og auðvitað eitraður standandi. En þetta er MMA og þetta finnst mér vera svona ekta bardagi þar sem „verri“ strikerinn vinnur. Kelvin er með mjög solid box og gerir einfalda hluti mjög vel á meðan Adesanya er mun meira flashy. Adesanya hefur ekki unnið alveg nógu sterka andstæðinga til þessa sem sannfærir mig endanlega um að hann verði meistari. Mig langar mikið að sjá hann fara alla leið en þarf að sjá aðeins meira frá honum áður. Ég held að Kelvin muni ekki óttast neitt og vaða í Adesanya og það muni virka bara ansi vel. Kelvin mun nota boxið sitt og glímuna til að vinna Adesanya eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.

Óskar Örn Árnason: Mjög spennandi bardagi, frekar erfitt að spá. Stylebender hefur litið frábærlega út til þessa en Kelvin er andstæðingur sem gæti valdið honum verulegum vandræðum. Kelvin verður að glíma svo felluvörn Adesanya verður aðal málið. Ég ætla að halda mig við fyrri spá, segi að Gastelum muni berjast hetjulega en Adesanya mun að lokum sigra á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Elska að horfa á Adensanya og maðurinn er auðvitað taplaus í MMA en maður setur samt spurningarmerki við styrkleika þeirra andstæðinga sem hann hefur mætt. Gastelum er algjört skrímsli og hefur stöðugt komið mér á óvart. Hann verður alvöru prófraun en ég held að hann reynist of stór biti fyrir Adensanya. Gastelum sigrar eftir dómaraákvörðun.

Kelvin Gastelum: Pétur, Guttormur
Israel Adesanya: Óskar

Léttþungavigt: Eryk Anders gegn Khalil Rountree Jr.

Pétur Marinó Jónsson: Er ekkert mjög hrifinn af Eryk Anders. Ég hef hins vegar gaman af Khalil og finnst eins og hann gæti orðið eitthvað meira. Hann er með mikinn höggþunga og er góður íþróttamaður. Hann er líka ekki búinn með marga MMA bardaga og er því ennþá að þróast. Stundum eiga þessir menn að frjósa og gera lítið og svo set ég spurningamerki við þolið hjá Khalil. Ég vona að þessir muni bara skiptast á höggum og hafa gaman af þessu en þar held ég að Khalil sé betri. Ég spái því að Khalil taki þetta með rothöggi í 3. lotu eftir smá slöggfest.

Óskar Örn Árnason: Þetta gæti orðið ágætt slugfest. Bind ekki miklar vonir en held að Anders sé betri bardagamaðurinn. Anders rotar Rountree í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Verður pottþétt ekki tæknilegasti bardagi sem við munum sjá og tel ólíklegt að þessi fari í dómaraákvörðun. Rountree sigrar með rothöggi í fyrstu.

Eryk Anders: Óskar
Khalil Rountree Jr: Pétur, Guttormur

Veltivigt: Alan Jouban gegn Dwight Grant

Pétur Marinó Jónsson: Maður vill alltaf að fyrrum andstæðingar Gunnars standi sig vel. Jouban er tæknilegur standandi en Grant er með meiri kraft. Jouban gerði vel gegn höggþunga Mike Perry og var skynsamur þar. Ég held að þetta verði eitthvað svipað. Jouban mun hringsóla og halda sig frá Grant á milli þess sem hann skorar stig. Grant á það þó alltaf til að geta klárað þetta með rothöggi og Jouban virðist ekki vera með bestu höku í heimi í dag. Ég held samt að Jouban sigli þessu heim, Jouban vinnur eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Mér fannst Grant ekki líta vel út þegar ég sá hann í hans síðasta bardaga. Hann vann reyndar en það var smá heppnisstimpill yfir því. Ég held að Jouban taki þetta. Þetta verður barátta en Jouban verður með betri spörk og högg. Jouban á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég veit ekki mikið um Grant en sá rothöggið hans í DWTNCS. Ég held að Jouban sé of reynslumikill. Jouban hefur ekki fengið auðvelt prógramm undanfarið gegn Gunna og svo Niko Price, en ég held þó að hann sé sterkari en Grant. Jouban með sigur eftir dómaraákvörðun.

Alan Jouban: Pétur, Óskar, Guttormur
Dwight Grant: ..

Léttþungavigt: Ovince St. Preux gegn Nikita Krylov

Pétur Marinó Jónsson: Þetta er líka smá erfiður bardagi þar sem báðir eru svo random. OSP er ótrúlega góður íþróttamaður en er oft mjög hikandi í búrinu. Stundum er hann frábær eins og hann sé einn af þeim bestu í heimi en stundum er hann skelfilega hikandi og gerir ekki neitt. Maður veit í raun aldrei hvað maður fær með OSP. Nikita Krylov er líka rosalega random og villtur bardagamaður. Stundum gerir hann bara eitthvað þó hann hafi aðeins róast með árunum. Hann hefur aldrei farið allar loturnar og veit ég í raun ekki hvort hann viti hvað þessir þrír dómarar utan búrsins eru að gera. Þetta veltur á hlutkesti, segi bara að OSP taki þetta eftir hengingu í 2. lotu í furðulegum og ekkert sérstökum bardaga.

Óskar Örn Árnason: Ég hef alltaf gaman af Krylov en OSP er sennilega ekki gott matchup fyrir hann. Síðast lenti hann í Von Flue choke-inu svo mér finnst ólíklegt að það nákvæmlega sama gerist aftur. Segi að OSP nái Krylov í einhvers konar uppgjafartak í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Krylov er hraustur en mér finnst hann vera andstæðingur sem hentar OSP vel. Af síðustu 12 bardögum hefur Krylov tapað þremur og öll töpin eftir uppgjafatak. Þar að auki hefur OSP unnið Krylov áður með sínu signature Von Flue choke, sem ætti að íhuga að skýra frekar í höfuðið á OSP. OSP sigrar eftir uppgjafartak í þriðju.

Ovince St. Preux: Pétur, Óskar, Guttormur
Nikita Krylov: ..

Heildarstig ársins:

Guttormur: 9-6
Pétur: 9-6
Óskar: 8-7
Arnþór: 6-4

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular