Monday, May 27, 2024
HomeErlentStaðan: Léttvigt (155 pund)

Staðan: Léttvigt (155 pund)

rafael dos anjosYfirferð okkar yfir þyngdarflokkana heldur áfram. Í síðustu viku var það fjaðurvigt svo nú er röðin komin að einum þéttsetnasta þyngdarflokki í UFC, léttvigt.

Þyngdarflokkur: Léttvigt (155 pund – 70 kg)

Saga þyngdarflokksins er löng og stjörnum prýdd. Hún teygir anga sína yfir flest MMA sambönd sögunnar sem taka þarf með í reikninginn í yfirferð sem þessari. Það er t.d. áhugavert að líta til þess að Gilbert Melendez var fyrsti WEC meistarinn í léttvigt árið 2004. Í Stikeforce var Clay Guida fyrsti meistarinn og í Pride var Takanori Gomi eini meistarinn.

Meistarinn

Rafael dos Anjos er UFC meistarinn í léttvigt eftir magnaðan sigur hans á Anthony Pettis í mars. Næsta titilvörn hans hefur ekki verið tilkynnt formlega en búist er við að Donald Cerrone fái næsta tækifæri. Það er hins vegar komin upp skrítin staða þar sem sá sem margir telja að sé sá besti hefur ekki einu sinni barist um titilinn ennþá. Hér er átt við Rússann Khabib Nurmagomedov sem er því miður meiddur enn einu sinni. Rússinn sigraði dos Anjos í apríl 2014.

Næstu áskorendur

Fyrir utan Rússann ógurlega eru nokkrir graðir á uppleið. Anthony Pettis er til staðar þrátt fyrir erfitt tap á móti Rafael dos Anjos. Fyrrverandi meistarar, Eddie Alvarez, Ben Henderson og Gilbert Melendez eru auk þess ekki langt undan. Þyngdarflokkurinn er troðfullur af bardagamönnum sem allir gætu sigrað hvorn annan á réttu kvöldi. Það verður því langt í að meistarann skorti áskorendur.

khabib
Khabib Nurmagomedov.

Hversu líklegt er að við fáum nýjan meistara?

Það verður að teljast ólíklegt að Donald Cerrone nái að sigra Rafael dos Anjos verði það næsti titilbardagi. Þeir hafa barist áður þar sem do Anjos sigraði með yfirburðum. Allt getur þó gerst í MMA. Eftir þann bardaga er mjög líklegt að Khabib Nurmagomedov fái tækifæri og taki titilinn í sína vörslu.

Mikilvægir bardagar framundan

Fyrir utan næsta titilbardaga eru nokkrir mikilvægir bardagar á döfinni. Sá mikilvægasti er sennilega bardagi Michael Johnson og Beneil Dariush. Upphaflega átti Bobby Green að berjast við Johnson en hann þurfti að draga sig í hlé sökum meiðsla. Svolítill vandræðagangur hefur verið á bardögum vegna meiðsla. Anthony Pettis átti að berjast við Miles Jury en meiddist og við tók Edson Barboza. Þá meiddist Jury og hætt var við bardagann. Bardagi Josh Thomson og Tony Ferguson í júlí er þó enn á dagskrá en annar mjög mikilvægur bardagi fer einnig fram þetta sama kvöldi. Þar mætir Al Iaquinta engum öðrum en Gilbert Melendez.

Hverjir eru efnilegir?

Það er enginn sem er áberandi mest efnilegur þessa stundina í léttvigtinni. Sennilega þar sem margir af þessum efnilegustu hafa þróast út í hörku bardagamenn sem eru ofarlega á styrkleikalistanum. Má þar nefna Khabib Nurmagomedov, Micheal Johnson, Myles Jury, Tony Ferguson og fleiri. Það eru þó nokkrir í léttvigtinni sem eiga framtíðina fyrir sér. Gilbert Burns hefur sigrað alla þrjá UFC bardaga sína og er heimsklassa svartbeltingu í brasilísku jiu-jitsu. Hann hefur sýnt góðar framfarir stanandi undir handleiðslu Henri Hooft hjá Blackzilians.

Paul Felder hefur óvænt vakið athygli. Það er kannski erfitt að segja að 31 árs íþróttamaður sé efnilegur en hann er ósigraður á ferlinum og hefur aðeins barist í rúm þrjú ár. Joseph Duffy leit fáranlega vel út í sínum fyrsta bardaga og verður gaman að fylgjast með honum. Beneil Dariush tekur stórtækum framförum í hvert sinn sem hann berst en hann (líkt og Johnson og Jury) getur varla talist efnilegur lengur. Hann er einfaldlega mjög góður!

Einhverjir hættulegir utan UFC?

Það eru nokkrir utan UFC sem eru sterkir og gætu orðið góð viðbót við léttvigt UFC. Í Bellator eru þeir Will Brooks og Michael Chandler sterkir keppendur og svo er WSOF meistarinn Justin Gaethje mjög skemmtilegur bardagamaður.

BJPenn

Goðsagnir í þyngdarflokkinum

Goðsögnin í þyngdarflokknum er klárlega BJ Penn. Hann er einn besti bardagamaður allra tíma í léttari þyngdarflokkunum og átti sín bestu ár í léttvigtinni. Hann var stór stjarna á þeim tíma sem menn héldu að litlu þyngdarflokkarnir myndu ekki geta selt. Takenori Gomi er einnig goðsögn í flokknum en náði þó aldrei að standa undir nafni í UFC eins og svo margir frá Asíu. Þá verður Jens Pulver lengi í minnum hafður enda var hann fyrsti léttvigtarmeistari UFC.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular