spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Rannveig: Óraunverulegt að standa á verðlaunapallinum

Sunna Rannveig: Óraunverulegt að standa á verðlaunapallinum

Sunna Rannveig Davíðsdóttir
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir varð Evrópumeistari á dögunum. Við spjölluðum við Evrópumeistarann um mótið, hugarfarið og fleira. Hún segir tilfinningarnar hafa borið sig ofurliði er hún fékk dótturina í fangið við heimkomuna.

Átta Íslendingar kepptu á Evrópumótinu í MMA í Birmingham á dögunum. Íslensku keppendurnir áttu góðu gengi að fagna og komu heim með þrenn verðlaun. Á næstu dögum munum við birta viðtöl við alla átta Íslendingana sem kepptu á Evrópumótinu.

Sunna Rannveig keppti þrjá bardaga á þremur dögum en virðist engu að síður vera í mjög góðu standi. „Skrokkurinn er mjög góður og virðist ekki hafa orðið fyrir höggi. Ég fékk skurð fyrir ofan augað á æfingum í Írlandi skömmu fyrir mótið. Ég var því ekkert í neinu contact sparri fram að keppni heldur bara í tæknilegum æfingum og á þrekæfingum. Ég vissi að ef ég fengi högg á skurðinn myndi hann auðveldlega opnast og óttaðist ég smá að það myndi gerast snemma í keppninni. Þá hefði ég jafnvel getað verið dæmd úr keppni. Sem betur fer opnaðist hann ekki fyrr en í síðasta bardaganum,” segir Sunna.

Af bardögunum þremur var fyrsti bardaginn erfiðastur að mati Sunnu. Þann bardaga sigraði hún eftir dómaraákvörðun en hina tvo kláraði hún í fyrstu og annarri lotu. „Það var mikil uppsöfnuð spenna í mér í fyrsta bardaganum. Ég var látin sitja hjá fyrsta daginn en hefði viljað fara strax í búrið þann dag og losa um spennuna. Hausinn var líka fyrir mér í þeim bardaga og ég var mjög meðvituð um áhorfendur sem getur verið truflandi. Í staðin fyrir að vera með hreinan huga var ég að hugsa of mikið. Mér leið eins og ég hefði getað gert betur þegar bardaganum lauk en fékk tækifæri til þess strax daginn eftir í næsta bardaga. Ég var mjög örugg þann daginn og á góðum stað í huganum, með hreinan og sterkan huga sem skilaði sér í búrinu. Mér fannst ég gera betur og leið líka betur. Í úrslitabardaganum fann ég að ég var enn sterkari hugarfarslega og var greinilegt að eftir því sem leið á keppnina leið mér betur. Ég varð sterkari með hverjum bardaganum og hafði aðlagast aðstæðum fullkomlega í lokin,“ segir Sunna. Sunna keppti í fluguvigt kvenna eða 57 kg flokki.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Þegar Sunna tók við verðlaununum var íslenski þjóðsöngurinn spilaður og fylltist Sunna miklu stolti við að heyra þjóðsönginn. „Ég hafði komið sjálfri mér á óvart og að standa þarna var á vissan hátt óraunverulegt. Að sjá íslenska fánann á skjánum fyrir ofan og horfa til liðsfélagana í rauðu Mjölnis hettupeysunum með bros á vör fyllti mig stolti. Ég vissi eiginlega ekkert hvernig ég átti að vera eða hvert ég átti að horfa því það voru svo margar myndavélar í kring. Ég fann líka mikinn vinskap frá stelpunum sem voru með mér í efstu sætunum og gagnkvæma virðingu í garð hverrar annarrar sem mér þótti mjög vænt um.“

Sunna hefur verið í vandræðum með að fá bardaga og hafa til að mynda sjö andstæðingar hennar dottið út áður en í búrið var komið. Sunna fékk góða reynslu á þessu móti og vonast eftir fleiri tækifærum í kjölfar sigursins. „Ég vissi áður en ég fór út að þetta yrði mikil reynsla að taka þátt og að sigra mótið yrði stórt tækifæri því þarna voru útsendarar frá UFC að fylgjast með. Einnig verður úrslitabardaginn settur á UFC Fight Pass sem hefur marga fylgjendur og er þetta því vissulega tækifæri til þess að láta taka eftir sér.“

Sunna er auðvitað í frábæru líkamlegu formi en segir að hugurinn skipti ekki síður máli en líkamleg þjálfun. „Á mótinu lærði ég að takast á við hugarfarið og til þess notaði ég hugarþjálfun. Ég myndi segja að hugurinn væri svona 70% af árangrinum. Það er ekki nóg að vera í góðu líkamlegu formi. Hausinn þarf líka að vera í lagi og á góðum stað.“

Sunna eyddi fjórum mánuðum í Tælandi við æfingar í ársbyrjun 2013. Þar tók hún sína fyrstu Muay Thai bardaga og sinn fyrsta MMA bardaga. Þrátt fyrir að ferðalagið hafi verið frábært var hún í burtu frá dóttur sinni, Önnu Rakel. „Það var rosalega erfitt að vera í burtu frá Önnu svo lengi en við höfðum aldrei verið aðskildar svona lengi. Pabbi hennar og fjölskyldan hans býr fyrir Norðan á Blönduósi og var hún hjá honum á meðan. Hún gat því fengið að njóta þeirra á meðan og þau hennar sem styrkti þeirra samband verulega. Okkar samband varð líka enn sterkara með hverjum deginum en auðvitað var mikill söknuður. Hún er hetjan mín og styður mig 100% í því sem ég er að gera og hefur alltaf gert. Ég hef alið hana upp í þessu umhverfi og skilur hún vel um hvað þetta snýst. Hún skilur þetta örugglega betur en nokkur annar og það skiptir mig miklu máli.“

Mæðgurnar eru afar nánar og var það því tilfinningaþrungin stund er Anna tók á móti Sunnu á flugvellinum við heimkomuna. „Ég bjóst svo innilega ekki við því að fá hana strax í fangið á mér á flugvellinum. Við [keppnisliðið] höfðum ekki hugmynd um að tekið yrði á móti okkur á flugvellinum. Um leið og ég faðmaði hana að mér helltust yfir mig tilfinningarnar sem ég réð ekkert við enda mikil tilfinningavera og var búin að sakna hennar mikið.“

Sunna setur stefnuna á að taka atvinnumannabardaga á næsta ári og er draumurinn að komast alla leið í UFC. Þar myndi Sunna eflaust keppa í strávigtinni eða í 52 kg flokki. Við þökkum Sunnu kærlega fyrir viðtalið og óskum henni velfagnaðar í komandi verkefnum.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular