spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunna Rannveig semur við Invicta bardagasamtökin

Sunna Rannveig semur við Invicta bardagasamtökin

Mynd: Baldur Kristjáns.
Mynd: Baldur Kristjáns.

Færasta bardagakona þjóðarinnar, Sunna Rannveig Davíðsdóttir, hefur gert atvinnusamning við Invicta Fighting Championship. Þetta kemur fram í tilkynningu í fréttatilkynningu.

Sunna Rannveig mun taka sinn fyrsta atvinnubardaga í Invicta bardagasamtökunum. Sunna er 5-1 sem áhugamaður en hún varð Evrópumeistari í MMA í Birmingham í fyrra. Þá sigraði hún þrjá bardaga á þremur dögum og var ljóst að næsta skref á ferlinum yrði að vera atvinnumennskan.

Mjölniskonan Sunna mun ekki ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur enda er Invicta leiðandi þegar kemur að kvenna MMA. Bardagsamtökin eru þau stærstu í kvenna MMA en góð tengsl eru á milli þeirra og UFC. Margar af þeim bestu í Invicta fara í UFC og eru bardagar Invicta sýndir á Fight Pass rás UFC.

Sunna mun keppa í strávigt og fær líklegast sinn fyrsta bardaga í sumar. Ekki er vitað hver andstæðingur hennar verður að svo stöddu en mun eflaust koma í ljós á næstu dögum.

Sunna er fyrsta íslenska konan sem keppti í MMA og mun nú verða fyrsta íslenska konan til að taka atvinnubardaga.

Mynd: Baldur Kristjáns.
Mynd: Baldur Kristjáns.

„Ég er svo til í þetta. Ég hef aldrei verið í betra formi og ég treysti mér til að mæta hverri sem er, hvenær sem er. Þetta er það sem ég er búin að vera að stefna að undangengin ár og nú er loksins að koma að því,“ segir Sunna Rannveig í fréttatilkynningunni.

John Kavanagh, yfirþjálfari Gunnars Nelson og Conor McGregor, sparar ekki stóru orðin þegar kemur að Sunnu. „Þegar ég kom fyrst til Íslands í æfingaferð fyrir nokkrum árum síðan var ljóshærð, lágvaxin, brosmild og hress stúlka að æfa í Mjölni af slíkum krafti að það var ekki annað hægt en að hrífast af. Í hvert skipti sem ég hef komið síðan hefur hún verið á staðnum, búin að bæta sig gríðarlega og alltaf með sama frábæra viðhorfið. Við grínumst stundum með að það verði að passa áður en skellt er í lás og ljósin slökkt í Mjölni hvort Sunna sé ennþá inni að æfa svo öryggiskerfið fari ekki í gang!“

Haraldur Dean Nelson umboðsmaður Sunnu og framkvæmdastjóri Mjölnis þekkir Sunnu vel og hefur þetta um hana að segja: „Ég held ég geti fullyrt án þess að nokkur móðgist að Sunna sé fremsta bardagakona Íslands. Hún er búin að vera meðlimur í keppnisliðinu hjá okkur síðan 2013 og er öllum öðrum fyrirmynd hvað metnað, vinnusemi og hörku varðar. Að hún sé að fara í atvinnumennsku kemur engum okkar á óvart og það kæmi heldur engum á óvart að hún færi alla leið í heimsmeistarabardaga.“

Gunnar Nelson hefur auðvitað lengi æft með Sunnu. „Við erum búin að æfa svo oft saman. Sunna er einstök manneskja og það eru forréttindi að hafa fengið að fylgjast með því hversu mikið hún hefur þróast og bætt sig sem bardagamaður. Ég hlakka mikið til að styðja hana úr horninu eða salnum,“ segir hann í fréttatilkynningunni.

Það verður frábært að fylgjast með Sunnu í Invicta og getum við vart beðið eftir að sjá hana í búrinu.

Áhugasamir geta fylgst nánar með Sunnu á opinberri Facebook síðu hennar hér.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular