spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaSunnudagshugleiðingar eftir UFC: Nelson vs. Nogueira

Sunnudagshugleiðingar eftir UFC: Nelson vs. Nogueira

Það er alltaf nóg um að vera hjá UFC en síðasta föstudagskvöld hélt UFC viðburð í Sameinuðu Araba furstadæmunum þar sem þeir Roy Nelson og Antonio “Big Nog” Nogueira mættust í aðalbardaga kvöldsins.

roy nelson sigur
Roy Nelson fagnar sigri.

Roy Nelson rotaði Big Nog í fyrstu lotu með sinni þekktu yfirhandar hægri. Big Nog var nánast allan bardagann vankaður en Nelson rotaði hann endanlega þegar 3:37 mínútur voru liðnar af fyrstu lotu. Flestir bardagaaðdáendur vonast eftir því að Big Nog hætti eftir þennan bardaga. Hann hefur ekkert að sanna lengur og er aldrei að fara að berjast aftur um titilinn í UFC. Ef hann heldur þessu áfram verður hann bara fórnarlamb á “highlight” myndböndum þungavigtarmanna og stórt nafn á ferilskrá margra. Hann hefur farið í fjölmargar aðgerður á mjöðmum, hnjám, hakan hans er ekki jafn hörð og áður og nýjustu fregnir herma að sjónin hans á öðru auganu er farin að dvína. Big Nog á því miður ekkert erindi í UFC lengur og það er engin skömm fyrir goðsögnina að hætta núna. Hann einfaldlega hefur ekki það sem þarf lengur til að keppa meðal þeirra bestu.

Þó Big Nog sé orðinn gamall og útbrunninn þá má ekki taka neitt frá Nelson. Tímasetningin á þessari bombu frá honum var frábær og hann er alltaf hættulegur (allavegna í fyrstu lotu) með þetta dýnamít í höndunum. Hann sýndi þó fínar höfuðhreyfingar í vasanum framan af og notaði stunguna og vinstri krókinn, eitthvað sem hefur ekki sést mikið hjá honum áður. Bardagi gegn Mark Hunt gæti orðið frábær skemmtun.

Clay Guida var skemmtilegur í fyrsta sinn í langan tíma. Hann sigraði Tatsyua Kawajiri eftir dómaraákvörðun og var sigurinn sannfærandi. Guida byrjaði bardagann á því að kýla Kawajiri niður og benti allt til þess að Guida fengi sinn fyrsta sigur eftir rothögg en því miður fyrir hann náði Kawajiri þó að jafna sig. Þetta var annar bardagi Kawajiri í UFC en hann vildi fá erfiðari andstæðinga eftir fyrsta bardaga sinn. Það sýndi sig þó í þessum bardaga að Guida var mun betri bardagamaður og þarf Kawajiri að sætta sig við minni nöfn næst. Í heildina var þetta frábær frammistaða hjá Guida sem stjórnaði bardaganum allan tíman fyrir utan kannski “armbar” tilraun Kawajiri í fyrstu lotu.

Ryan LaFlare sigraði sinn fjórða bardaga í UFC og er farinn að banka á dyrnar á topplistanum í veltivigtinni. Hann er enn ósigraður og einhverjir spekingar vilja sjá hann fara á móti Gunnari Nelson. LaFlare er svipaður Jon Fitch og Jake Shields að því leitinu til að hann stjórnar bardaganum að miklu leiti með kæfandi glímustíl sínum án þess að ná að klára andstæðinga sína. Það gæti aftrað honum frá því að ná sér í stóra bardaga í UFC.

jim alers vs alan omer

Alan Omer og Jim Alers mættust í fyrsta bardaga kvöldsins og var bardaginn frábær skemmtun. Þetta var frumraun beggja í UFC og sýndu að þeir eiga svo sannarlega heima í fjaðurvigtardeild UFC. Eftir bardagann notaði Alers tækifærið og bað um bardaga gegn Conor McGregor. Clay Guida gerði það sama síðar um kvöldið og greinilegt að margir vilja fá að taka á Íranum knáa. Jim Alers og McGregor áttu að berjast um fjaðurvigtarbelti Cage Warriors í tvígang en aldrei varð úr þeim bardaga vegna meiðsla beggja.

Bardagi Rany Yahya og Johny Bedford var dæmdur ógildur þar sem Yahya rotaðist eftir að höfuð þeirra skullu saman. Þegar annar bardagamaðurinn er ófær um að halda áfram eftir slys er bardaginn dæmdur ógildur en Bedford var langt í frá að vera sáttur með það. Hann taldi sig vera sigurvegara bardagans þrátt fyrir að hann hafi rotað hann eftir slys, en samkvæmt reglunum er bannað að skalla andstæðinginn. Það var undarlegt að sjá hann æsast yfir þessari ákvörðun en það verður að taka tillit til þess að adrenalínið var á fullu hjá honum og hann sennilega aðeins of æstur.

Bardagi kvöldsins var bardagi Kawajiri og Guida og fengu þeir 50.000 dollara hvor. Frammistöðubónus kvöldsins fengu þeir Roy Nelson og Ramsey Nijem.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular