Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaTakashi Sato mætir Gunnari í mars

Takashi Sato mætir Gunnari í mars

Nýr andstæðingur er kominn í stað Claudio Silva. Takashi Sato kemur í stað Silva og mætir Gunnari Nelson á UFC bardagakvöldinu í London þann 19. mars.

Gunnar Nelson snýr aftur í búrið eftir rúmlega tveggja ára fjarveru núna í mars. Gunnar átti upphaflega að mæta Claudio Silva en Silva er meiddur á hné. Silva lét UFC vita af meiðslunum í síðustu viku og hefur leit staðið yfir að nýjum andstæðingi síðan þá.

Takashi Sato verður staðgengill Silva þann 19. mars og kemur hann því inn í bardagann með tveggja vikna fyrirvara. Sato er 31 árs Japani sem er 16-4 á ferli sínum í MMA. Hann hefur verið í UFC frá 2019 og er með tvo sigra og tvö töp.

Sato og Gunnar eru báðir búnir skrifa undir bardagasamninginn og er því staðfest. UFC mun sennilega staðfesta bardagann á miðvikudaginn.

Sato æfir hjá Sanford MMA í Flórída en þar æfa menn á borð við Gilbert Burns, Michael Chandler og Robbie Lawler. Burns sigraði einmitt Gunnar í síðasta bardaga Gunnars og gæti því gefið honum góð ráð. Burns kom einmitt inn með um það bil tveggja vikna fyrirvara þegar þeir mættust 2019.

Af sigrunum 16 er Sato með 11 rothögg og er hann því hættulegur standandi. Hann er jafnframt svart belti í júdó og hefur unnið tvo bardaga með uppgjafartaki. Af töpunum fjögur eru hins vegar þrjú töp eftir uppgjafartak. Sato er því gjörólíkur andstæðingur heldur en Silva sem er að upplagi glímumaður og kýs að taka bardagann í gólfið.

Bardaginn verður áfram í veltivigt og geta því þeir Íslendingar sem eiga miða á bardagakvöldið andað léttar nú þegar nýr andstæðingur er staðfestur.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular