Thursday, June 20, 2024
spot_img
HomeErlentÞegar Brandon Thatch mætti Ben Henderson

Þegar Brandon Thatch mætti Ben Henderson

Brandon Thatch Ben Henderson
Það var mikill stærðarmunur á þeim Henderson og Thatch.

Brandon Thatch mætir Gunnari Nelson næsta laugardagskvöld í Las Vegas á einu stærsta bardagakvöldi ársins. Af því tilefni ætlum við að fara yfir síðasta bardaga hans þegar hann mætti Benson Henderson.

Ferill Thatch er troðfullur af eins lotu bardögum en allir sigrar hans hafa komið í fyrstu lotu – ýmist í kjölfar högga eða „rear-naked choke“. Í þau tvö skipti sem bardagar hans hafa farið í aðra lotu hefur hann tapað.

Það er ekki þar með sagt að hann sé eingöngu eins lotu bardagamaður en hann er sannarlega hættulegastur í upphafi bardagans þegar hann er ferskur. Það er því vert að skoða nánar síðasta bardaga hans gegn fyrrverandi meistara í léttvigt, Ben Henderson. Brandon Thatch tapaði bardaganum í fjórðu lotu en hvernig fór Henderson að því?

Bardaginn fór fram í Colorado fylki í Bandaríkjunum þann 14. febrúar á þessu ári. Upphaflega átti Thatch að berjast við Stephen ‘Wonderboy’ Thompson en þegar undradrengurinn meiddist kom Ben Henderson í hans stað með tveggja vikna fyrirvara. Bardaginn fór fram í heimabæ Brandon Thatch, Broomfield. Hann var talinn líklegri til að sigra samkvæmt veðbönkunum og var hungraður í tækifæri til að sanna sig gegn stóru nafni.

kick

Fyrsta lota

Henderson byrjaði bardagann mjög hreyfanlegur. Thatch fór strax að ganga Henderson niður og breytti um stöður (rétt- og örvhent fótastaða). Þeir skiptust á spörkum sem er styrkleiki hjá báðum. Henderson stökk inn með fast skrokkhögg og Thatch svaraði fljótlega með góð hné í skrokkinn. Fyrsta lotan var sparkbox lota og ekkert „clinch“. Henderson reyndi aldrei fellu og Thatch pressaði allan tímann. Lotan var nokkuð jöfn en Thatch hefur sennilega tekið hana á pressunni.

Önnur lota

Þeir skiptast á höggum í upphafi lotunnar. Thatch virtist hafa betur með þyngri höggum en Henderson er sleipur. Eftir „clinch“ baráttu henti Thatch Henderson í gólfið en hann spratt strax upp. Thatch hélt áfram pressu og felldi Henderson á loka mínútunni. Skýr lota fyrir Thatch á spjöldum dómaranna.

Þriðja lota

Henderson hélt áfram að koma inn skrokkhöggum í upphafi lotunnar. Henderson reyndi fyrstu felluna sem mistekst. Henderson reyndi aftur fellu upp við búrið, náði svo fellu („double leg“) og náði bakinu nánast strax. Hann náði báðum krókum inn og beið þolinmóður. Thatch varðist með höndunum á gólfinu, Henderson náði svo „body triangle“ og kom inn höggum af bakinu. Henderson skipti í „armbar“ en Thatch komst undan og á lappir. Þessi lota var dæmd Henderson í vil.

fella

Fjórða lota

Brandon Thatch var á þessum tímapunkti orðinn bólginn undir báðum augum, sennilega eftir stungur Ben Henderson. Þeir skiptust á höggum þar til Henderson reyndi fellu („single leg“) en missti takið. Skrokkhögg aftur og aftur frá Henderson. Fella frá Henderson með frábærri tímasetningu. Hann komst í „side control“ en Thatch gaf bakið. Thatch náði að losa sig en gaf enn einu sinni bakið á sér. Henderson náði þá inn báðum krókum, kom hendi undir hökuna, Thatch gafst upp og Henderson sýndi tannstöngulinn alræmda.

Það sem virkaði hjá Ben Henderson: Skrokkhöggin, stungur, hreyfanleiki, fellur og jiu-jitsu. Henderson notaði skynsemi og þolinmæði til að komast í gegnum fyrstu lotuna án mikillar áhættu. Eftir því sem leið á bardagann þreyttist stærri maðurinn og Henderson náði auðveldri fellu og kláraði bardagann með yfirburða tækni á gólfinu.

Það sem virkaði hjá Brandon Thatch: Spörk í fætur, hné í skrokkinn, pressa. Thatch notaði mikla pressu og kom inn þungum höggum á Henderson. Hann breytti um fótastöður og hélt þar með Henderson á tánum.

Stóru mistök Brandon Thatch voru að gefa á sér bakið þegar í gólfið var komið. Geri hann það á móti Gunnari Nelson er bardaginn svo gott sem búinn. Til að fylgja formúlu Henderson þarf Gunnar að vera þolinmóður, bíða eftir réttu augnabliki, ná fellu og kreista.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular